Skírnir - 01.09.1996, Side 257
SKÍRNIR
MÖRG ANDLIT AKASÍUTRÉSINS
503
hömlulaus trú á augnablikið, ástina: mennsku þar sem upplausn og ein-
semd búa yfir merkingu eða kalla öllu heldur á leit að merkingu.
Þegar hinum háttbundna heimi landnámsljóðanna sleppir er fátt um
svör. Ljóðlist Sigurðar stefnir ekki í átt til svarthvítrar fullvissu. Goðsag-
an veitir honum ekki varanlegt athvarf í afhelguðum heimi þótt landið sé
sú ljóðnáma sem hann sækir stöðugt efnivið sinn í. Fyrir nútíðarskáldinu
Sigurði er hún miklu fremur hverfult skjól, stundleg nautn sem á meira
skylt við módernískar hugljómanir eða tilvistaraugnablik en raunveru-
leika sem gerir manninum kleift að sigrast á tómi og glundroða. Tár hans
falla óskipulögð hvort sem hann stendur nafnlaus í brú ljóðlínuskipsins
eða leitar athvarfs á hringvegi ljóðsins; mesta firran við slíkar aðstæður er
að munstra sig á skuttogara vissunnar, sem ort er um í „Nýársljóði VI“
(1993, s. 85). Uppgjöf andspænis tungumálinu nær aldrei yfirhöndinni
nema um stund; síðan er haldið „áfram þeirri för / sem lagt var upp í /
enda þótt hið eftirsóknarverða / sé ugglaust í öðru ferðalagi / öðrum
stöðum/ öðru lífi“ („Aprílljóð“, 1990, s. 21). Ekki stoðar að heimta skýr
svör af þónokkrum leiðsögumönnum sem skjóta upp kollinum í ljóðum
Sigurðar.38 Þeir eiga það sameiginlegt með höfundi og lesanda að hafa
tapað áttum um stund (eða að eilífu?) eða týnt áttavitanum og nefna
hlutina ekki sínum réttu nöfnum, líkt og fram kemur í prósaljóðinu
„Akasíutré“ í Ljóðlínuskipi, þar segir af enn einni ferðinni; í þetta sinn
dagsferð í rútu suður við Miðjarðarhaf:
Snemma varð ljóst að leiðsögumaðurinn vissi engin deili á þeim fjöl-
mörgu trjátegundum sem sáust út um gluggann. Alltaf sagði hann að
um væri að ræða akasíutré. Stundum horfði hann vísvitandi í vitlausa
átt ef spurt var um tré; leit vandlega til hægri þegar glæsileg tré blöstu
við vinstra megin. Að öðru leyti virtist hann sannfróður um þá dýrð-
legu hluti og staði sem við sáum á ferð okkar og áningarstöðum.
(s. 55)
Þessi hugmyndalegi bakgrunnur er kunnuglegur í bókmenntum 20.
aldar og þeirrar síðustu reyndar einnig. Leitin að miðju ber engan árang-
ur, ferðalagið er stefnulaust, ringulreið um sandinn, angistarganga um
flatlendið (sjá „árstíðasólir III“, 1975, s. 13). Ástandinu fylgir hrollur,
þrá eftir að kasta sér ofan í svartan svarrann - blindast í sortanum -
38 Leiðsögumanni Ljóðlínuskipsins tekst ekki „að finna leiðina heim“, hefur
reyndar efasemdir um að heimahöfnin hafi nokkurn tíma verið til („Hafvillur
I“, 1995, s. 23-24), og „Snúningur jarðar ruglar stefnuna sífellt" í ljóðinu „Pól-
flug“ þar sem segulkompásinn snýst óvirkur í hringi (1990, s. 38). Þannig dug-
ar hvers kyns leiðsögn eða mælitæki skammt í ljóðum Sigurðar: „Jafnvel í al-
sterkustu smásjá / sæist ekki þessi minning", segir í ljóðinu „Blindrastafur“
(1993, s. 47), og í sjötta hluta „Þeirrar gömlu frá Hofi“: „en erfitt mun reynast
/að slá máli á angistina/mæla sársaukann" (1980, s. 95).