Skírnir - 01.09.1996, Page 259
SKÍRNIR
MÖRG ANDLIT AKASÍUTRÉSINS
505
atburðum líðandi stundar - endar þrátt fyrir bölsýni og óþol í sátt. í
þeim kemur í ljós að hann trúir hvorki á manninn né þann heim sem
hann hefur skapað með tungumáli sínu enda byggist sátt hans ekki á trú
á það að maðurinn muni vaxa af sjálfum sér heldur leitar hann útgöngu í
gamalkunnri náttúrusýn rómantíkur eða endurreisnar: „Jafnvel stálfrost-
ið eyðir ekki / Mjúku vatni / Jafnvel undir sífreranum / Leynast demant-
ar og gull“ (1993, s. 86). I skuggsælu eikarinnar sem ljóðmælandinn í
ljóðinu „Tegundir" ber ávallt í huga sér er „galdraþögn" (1982, s. 77);
birkitréð í samnefndu ljóði „Springur út og syngur / fyrir víðernin"
(1995, s. 56), svo nefnd séu dæmi um skapandi samneyti skálds og nátt-
úru. Heimsborgarinn Sigurður er þannig ekki síður skáld náttúrunnar en
borgarinnar og þá ekki síst þeirrar náttúru sem borgin býr yfir. „Grænn
ferhyrndur flötur“ í samnefndu Ijóði í miðju borgarlandslagsins er hon-
um athvarf innan marka fjandsamlegrar borgar þar sem „Grænkan og
ilmurinn / Losa um tár / Djúpra andvarpa" (1995, s. 58). Þessi sýn
Sigurðar minnir á sýn módernista á borð við Baudelaire, T.S. Eliot og
Lorca sem fundu andblæ fortíðar á slíkum helgistöðum í helvíti borgar-
innar. Ljóðlistin verður honum nokkurs konar áningarstaður, grænn fer-
hyrndur flötur innan marka tungumálsins, athvarf frá sundurtættri ver-
öld og upplýstri orðræðu, sem hún sækir engu að síður táknmál sitt til.
Þessi flötur losar um djúp andvörp en er um leið orkustöð þar sem
sjálfsveran springur út og skapar sig í texta; endurfæðist eitt augnablik.
Borgarmyndir Sigurðar eru líkt og tungumálið alsettar óútskýranlegum
augnablikum, óútskýrðri sælu. Ein slík helgistund líður hjá eldsnemma á
morgnana þegar svefnleysingjar hafa „loksins dottað, elskendur hafa
fengið sér kríu og örstutt mók hefur runnið á næturverði og leigubíl-
stjóra“. Það er þá sem miðhlutinn á mósaikmynd Gerðar Helgadóttur á
Tollhúsinu við Tryggvagötu lýsist hægt og rólega:
Það er eins og þessi töfrastund, þessi galdrastund velji stundum einn
og einn til þess að kynnast í raun töfrum sínum. Þeir sem það hafa
reynt vita að sú reynsla er ótrúleg og ennfremur að reynslunni fylgir
að enginn trúir frásögnum af henni.
(„Morgunstund", 1990, s. 68)
Hvort svipur hins sjálfsskapaða skálds - sem situr eftir alls staðar þar
sem ljósið fær að ljóma, skáldskapurinn að hljóma, lífið að iða39 -
frammi fyrir veggmyndinni minnir á algleymi heilagrar Teresu eða ekki
er erfitt að segja; og sennilega skiptir það engu máli því um þessar mund-
ir fylgir reynslunni að enginn trúir frásögnum af henni hvort sem er;
39 Sjá lýsingu Baudelaires á teiknaranum og nútímamanninum Constantin Guys
í upplýsingargrein Foucaults, s. 396.