Skírnir - 01.09.1996, Page 263
SKÍRNIR
HINN LEIKRÆNI ÞÁTTUR EDDUKVÆÐA
509
sem slíkar athafnir eru algengar á flestum menningarsvæðum, en því
miður gefa heimildirnar engan ótvíræðan vitnisburð um slíkt.
I öðrum kafla fer Gunnell í saumana á þjóðfræðaefni sem er einkum
tímasett frá 16. öld og síðar. Hér er um að ræða árstíðabundna leiki og
helgisiði eins og Staffansreið og jólahafur, baráttu Vetrar og Sumars og
fleira. Islenskir vikivakaleikar og Grýlusiðir Norður-Atlantshafssvæðis-
ins fá rækilega umfjöllun. Sjálfsagt má til sanns vegar færa að í vissum til-
vikum sé um frumstæða „leiklist“ að ræða, að minnsta kosti ef hin víða
skilgreining Gunnells er tekin gild. Hins vegar er umdeilanlegt hve gaml-
ir þessir leikrænu siðir eru meðal norrænna þjóða. Gunnell keppist við
að færa rök fyrir því að nokkrir þessara leika og helgisiða séu ævagamlir
og eigi rætur að rekja til heiðni, en hann er nógu skynsamur til að viður-
kenna að slíkt verður ekki sannað. Vandinn er ekki aðeins sá að heim-
ildaefnið er hér mjög ungt, heldur er það einnig afar staðbundið og lítið
um beinar samsvaranir við eldri fornminjar eða samtalskvæðin í Eddu.
í þriðja kafla er Gunnell loks kominn að aðalefni sínu, samtalskvæð-
um í Eddu. Kaflinn hefst á prýðilegu yfirliti yfir rannsóknir á eddu-
kvæðum sem munnlega fluttum skáldskap og á tímasetningu eddu-
kvæða. Tímasetningarkaflanum lýkur á stefnuyfirlýsingu sem hljóðar
þannig í stuttu máli að enginn geti vitað með neinni vissu neitt um þá
munnlegu hefð sem verið hafi undanfari að ritun eddukvæða og að allir
sem reyni að komast að því á grundvelli formgerðar kvæðanna hvernig
þau hafi verið flutt í heyranda hljóði hljóti umfram allt að beina athygli
sinni að flutningi þeirra á ritmartíma (þ.e. á 13. öld). Þessi meginregla er
að mínu viti öldungis rétt og birtir kærkominn mun á aðferðum Gunn-
ells og Phillpotts sem var ekki nærri eins gagnrýnin. En þá vaknar sú
spurning hvort þessi regla sé ekki ósamþýðanleg hvers konar kenningum
um að eddukvæði megi lesa sem heiðna helgileiki. Því það virðist all-
ósennilegt að slíkir helgileikir hafi verið leiknir eða fluttir á 13. öld,
meira en 200 árum eftir að kristni var lögtekin.
Gunnell skiptir síðan eddukvæðum í flokka á grundvelli mismunandi
efnisframsetningar: í epísk frásagnarkvæði, samtalskvæði og eintals-
kvæði. Samtalskvæðunum er að sínu leyti skipt í þau sem segja sögur
(eins og Skírnismál), þau sem flytja sennu eða mannjöfnuð (eins og
Lokasenna) og þau sem einkum miðla fornum fróðleik í formi spurninga
og svara (eins og Vafþrúðnismál). Skiptingin kemur vel heim við nútíma-
eddurannsóknir, jafnvel þótt markalínur milli flokkanna geti verið um-
deilanlegar. Einmitt þess vegna er mjög mikilvægt að Gunnell hefur enn-
fremur búið til töflu þar sem sjá má skiptingu milli frásagnar og beinnar
ræðu og einnig skiptingu milli ljóða og stuðningsfrásagnar í óbundnu
máli innan hvers einstaks eddukvæðis. Onnur tafla sýnir greiningu forn-
yrðislags og Ijóðaháttar í Eddu með tilliti til tímasetningar, hlutfalls ljóða
í beinni ræðu, orðaskipta milli mælenda og fjölda persóna sem tala í
hverjum kvæðistexta. Þá sýnir þriðja taflan hvernig skiptingunni er hátt-