Skírnir - 01.09.1996, Side 270
516
ÓLAFUR GÍSLASON
SKÍRNIR
draga fram hin sögulegu hvörf í harmleiknum, en þessar reglur setti hann
fram í riti sínu Um skáldskaparlistina.
Minnisvarði Magnúsar Pálssonar vísar einnig til sögulegs atburðar,
en er frábrugðinn minnisvarða Tizians að því leyti að hann styðst hvorki
við eftirlíkingu né hvörf. Þá er Njálsbrenna atburður úr sögu, sem sjálf
ber flest einkenni minnisvarða.
Njálsbrenna
Þótt túlkun Njálssögu sé enn tilefni ákafra deilna hér á landi, þá mun það
viðurkennt af flestum að sagan byggi ekki á raunverulegum atburðum
nema að litlu leyti. Þó væri fráleitt að túlka hana sem „hreinan skáld-
skap“ er vísaði ekki í neinn veruleika. Ef litið er á þá hefð miðaldalistar
hér í Norðurálfu, sem Njálssaga er hluti af, er nærtækast að líta á frá-
sögnina sem goðsögulega allegóríu eða launsögn, sem ætlað er að miðla
öðrum sannleika en yfirborð frásagnarinnar segir til um.
Tökum dæmi úr listasögunni. I listasögu Ernst Gombrich er sagt frá
kertastjaka úr dómkirkjunni í Gloucester á Englandi frá árunum 1104-
1113. Hann er unninn úr látúni með ríkulegu ornamenti er sýnir nakta
menn vafða inn í dýra- og drekavafninga. A kertastjakanum eru einnig
táknmyndir guðspjallamannanna. Á barmi stjakans stendur skrifað á lat-
ínu: „Þessi ljósberi er verk dyggðarinnar - með loga sínum boðar hann
kenninguna þannig að maðurinn formyrkvist ekki í löstum."1 Orna-
mentið á stjakanum var hvorki gert til skemmtunar né skrauts, heldur til
að boða rétta kenningu og sannleika. Það hafði og hefur enn ákveðna
merkingu, sem helgast af hlutverki kertastjakans. Ástæðulaust er að ætla
að aðrar reglur hafi gilt um bókmenntalega frásögn en myndræna hvað
þetta varðar.
Sem kunnugt er hefur Einar Pálsson túlkað söguna af Njálsbrennu
sem launsögn er lýsi „ragnarökum heiðinnar hugsunar" og „upphafi
kristins tímaskeiðs á Islandi“.2 Það er ekki hlutverk þessarar ritsmíðar að
leggja mat á túlkun Einars Pálssonar á Njálssögu, en eigi hún við rök að
styðjast, þá getum við litið á söguna sem stórbrotinn minnisvarða um
1 E. H. Gombrich: The Story of Art, Phaidon Press 1972, bls. 130-31.
2 „Hvort sem einhvern tíma varð bruni á Bergþórshvoli í sagnfræðilegri merk-
ingu eða ekki, er hitt augljóst, að vitrir miðaldamenn skildu brennu sögunnar
andlegri skilningu. Sú skilning var ,brenna aldanna', að því er bezt verður séð,
hvarf hins forna siðar og endurkoma Krists. Tíminn gegndi þar meginhlut-
verki, svo og helztu frumefni veraldar, einkum. plánetur, Dýrahringur og Höf-
uðskepnurnar fjórar [...]. Sá sem túlkaði Njálsbrennu í hugmyndum tíðar
sinnar sá m.ö.o. sjö aldir heiðni brenna á Hvoli Upphafs og nýja öld friðar og
samhljóms taka við í veröldu. Atburður á jörðu, sem hugsanlega átti sér sagn-
fræðilega stoð, varð andleg reynsla kynslóðanna. Svipuðu máli gegnir um flest