Skírnir - 01.09.1996, Page 281
SKÍRNIR
MINNISPUNKTAR UM MINNISVARÐA
527
verurétt, heldur hafi mikilvægu hlutverki að gegna á öðrum vettvangi:
Vettvangi rannsóknar á merkingu og merkingartengslum í myndmálinu,
vettvangi rannsóknar á því hvernig við skiljum sjálf okkur og umhverfið
í gegnum myndmálið og hver tengsl okkar við myndmálið eru og hver
tengsl þess eru við veruleikann. Hvernig verður merking til í myndmál-
inu, hvaða merkingartengsl finnum við í þessum minnisvarða við um-
hverfi hans?
Allt eru þetta spurningar sem skipta sköpum fyrir þróun menningar
okkar og samfélags. Spurningar sem jafnframt eru pólitísk sprengiefni.
Merkingartengsl í myndmálinu
Við höfum þegar rakið hvernig Minnisvarðinn um Njálsbrennu er í bein-
um tengslum við þá hugmyndaumræðu, sem hægt er að lesa út úr lista-
sögunni langt aftur í tímann. Verkið er líka í beinum tengslum við sög-
una af Njálsbrennu og í þriðja lagi er verkið í tengslum við staðinn Berg-
þórshvol í landfræðilegri en ekki goðsögulegri merkingu. Landið er hluti
af verkinu. Þetta er flókinn vefur merkingartengsla þar sem saman bland-
ast listasaga, goðafræði, táknfræði, bókmenntafræði, túlkunarfræði og
landafræði; þar sem ekkert er sem sýnist. Að minnsta kosti ekki við
fyrstu sýn.
Eins og sagt hefur verið hér að framan, þá virðist í reynd erfitt að líta
á Njálsbrennu sem raunverulegan atburð. Hún er frásögn sem hefur öll
einkenni launsagnar og gæti þess vegna vel verið eins konar minnisvarði
um kristnitökuna og þá um leið eins konar túlkun á merkingu þess at-
burðar, eins og Einar Pálsson hefur haldið fram. Sá Bergþórshvoll sem
sagt er frá í sögunni er ekki sá sami og við sjáum í Landeyjum í dag.
Bergþórshvoll í Njálssögu er goðsögn eða goðsögulegt hugtak, og þegar
menn leggja á sig ferðalög á söguslóðir Njálu, þá eru þeir ekki að nálgast
kjarna goðsögunnar, heldur miklu frekar að fjarlægjast hann: Að rugla
saman goðsögulegu og landfræðilegu landslagi. Með því að setja minnis-
varða sinn upp á bæjarhlaðinu á Bergþórshvoli er Magnús að tengja
saman tvo ólíka staði eða tvö ólík merkingarsvið. Með því að nota arfann
úr bæjarhlaðinu á Bergþórshvoli í verkið, sama arfann og þar hefur vaxið
í meira en þúsund ár, sama arfann og goðsagan segir að hafi verið notað-
ur til þess að kveikja eldinn, er Magnús að leika sér að fjarstæðukennd-
um merkingartengslum hins goðsögulega tungumáls annars vegar og
hins efnislega veruleika hins vegar. Þessi merkingartengsl eru hliðstæð
tengslunum á milli hins goðsögulega og landfræðilega Bergþórshvols.
Einnig persónurnar í sögunni eru tilbúningur. Þær eru ekki og hafa
aldrei verið til í öðrum veruleika en veruleika sögunnar. Hafi maður að
nafni Njáll Þorgeirsson búið á Bergþórshvoli um árið þúsund, þá er það
samt ekki sama persónan og ber það nafn í Njálssögu. Sú persóna er goð-
söguleg persóna sem lifir bara í goðsögunni og hvergi annars staðar. Það