Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2006, Síða 12
langt umfram það sem vitnisburður guðspjallanna gefur tilefni til, vekur
upp spurningar um hugsanlegar afleiðingar slíkrar túlkunar. Af þeim sök-
um verður túikun Gibsons skoðuð hér á eftir í ljósi þeirrar gagnrýni sem
sett hefur verið fram á notkun kross Krists til þess að upphefja og réttlæta
gildi þjáningarinnar, oft með skelfilegum afleiðingum. Slík gagnrýni árétt-
ar ábyrgðina sem fylgir því að túlka boðskap píslarsögunnar í ljósi samtíma
okkar og hvetur til aðgátar til að koma megi í veg fyrir að hún verði að
vopni í höndum þeirra sem vilja nota hana í vafasömum tilgangi.
Mel Gibson gerir píslarmynd
Það þótti tíðindum sæta þegar Mel Gibson kynnti áform sín um að búa
til mynd sem byggði á frásögum guðspjalla Nýja testamentisins um þján-
ingu og dauða Jesú Krists.5 Ekki svo að skilja að trúarlegur áhugi Gibsons
hafi komið á óvart, en hann hefur talað opinskátt um trúarlegt afturhvarf
sitt og frelsun frá vonleysi og sjálfsvígsáráttu. Gibson hefur um árabil til-
heyrt mjög íhaldssömum hópi innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar, sem
hafnar meðal annars samþykktum síðara Vatíkanþingsins (1962-1965), en
jafnframt páfavaldi þeirra sem setið hafa á páfastóli í kjölfar þingsins.6 í
heimi kvikmyndanna er Gibson aftur á móti aðallega þekktur fyrir þær
ofbeldis- og bardagamyndir sem hann hefur leikstýrt og leikið í. Mörg-
um þótti því forvitnilegt að sjá hvernig trúarlegur og faglegur bakgrunnur
5 Þegar Gibson tilkynnti um væntanlega píslarmynd hafði liðið nokkur tími frá framleiðslu síðustu stórmynda
í flokki Jesú-mynda, en það voru SíðastafreistingKrists (1988) og Jesúsfrá Montreal (1989). Ári áður en mynd
Gibsons var ffumsýnd kom á markaðinn myndin The Gospel of John í leikstjórn Philip Saville (2003), sem
byggir, eins og titillinn gefur til kynna, á frásögn Jóhannesarguðspjalls. Sú mynd fékk frekar litla athygli og
sennilega hefur mynd Gibsons valdið einhverju um þar. Sjá: The Internet Movie Database 2006. Mark Silk
fjallar um fjölmiðlafárið sem varð í kringum mynd Gibsons í grein sinni „Gibson’s Passion: A Case Study in
Media Manipulation," 2004.
6 Samþykktir síðara Vatíkanþingsins báru vitni um umbætur innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar í átt til
meira frjálsræðis. Meðal kenninga sem Gibson aðhyllist og eru í andstöðu við þær breytingar sem róm-
versk-kaþólska kirkjan gerði á kenningakerfi sínu eftir síðara Vatíkanþingið eru kenningarnar um einokun
rómversk-kaþólsku kirkjunnar á hjálpræðisboðskapnum (extra ecclesiam nulla salus) og bókstaflega túlkun
ritningarinnar (vi verborum) (Lawler 2004, s. 2-4). Sjá einnig Boys 2004, s. 160-161.
10