Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2006, Page 22
fremst við guðspjallafrásögurnar og því beri að líta á mynd hans sem bókstaf-
lega túlkun, ekki aðeins á frásögum guðspjallanna, heldur einnig á því sem
gerðist. Reyndar gengur Gibson svo langt að halda því fram að réttlætanlegt
væri að flokka myndina með heimildarmyndum. Þegar hann er síðan spurð-
ur út í túlkun sína og staðhæfingar hans dregnar í efa, reynir hann að gera
sem minnst úr þætti ítarefnisins auk þess að benda viðmælendum sínum
á að mynd hans sé hvort sem er ekki heimildarmynd heldur „just a movie“.41
Ekki skal hér dreginn í efa vilji Gibsons til þess að framfylgja bókstaflegri
túlkun á ritningunni, þó að hann hafi verið rækilega minntur á vandkvæð-
in sem fylgja slíkri túlkun í þeirri gagnrýni sem myndin fékk. En viðbrögð
Gibsons hljóta að vekja upp spurningar um það sem lá að baki þeim þunga
sem hann lagði á staðhæfingar um trúfesti við bókstafinn. Miðað við þann
markhóp sem Gibson gerði út á, mætti líta á þetta sem markaðsbragð sem
af viðtökum má ráða að hafi heppnast og það langt út fyrir raðir bókstafs-
trúarfólks í Suðurríkjum Bandaríkjanna.42
En hvað svo sem öllum vangaveltum um markaðssetningu líður, er
vissulega ástæða til að huga að þeirri túlkun á píslarsögu Krists sem Gibson
setur fram í mynd sinni. Þá ber fyrst að nefna þá hörðu gagnrýni sem sett
hefur verið fram á ósamræmið milli þess sem Gibson gerir í mynd sinni
og þess sem hann segist ætla að gera.43 Þrátt fyrir afgerandi yfirlýsingar
um trúfesti við vitnisburð guðspjallanna, er ýmislegt sem bendir til þess
að túlkun hans sé hvorki í samræmi við guðspjöllin né aðrar heimildir sem
til eru frá þessum tíma. Þar hefur meðal annars verið bent á myndina sem
Gibson dregur upp af Pílatusi, meðferðina á Jesú eftir handtökuna og hlut-
verk Maríu Guðsmóður.44 En það sem stendur upp úr í túlkun Gibsons er
41 Levine 2004, s. 207. Sjá einnig Fredriksen 2004, s. 31-32 og Crossan 2004b, s. 11.
42 Um skiptar skoðanir á mynd Gibsons hér á landi má m.a. lesa á vefnum Deus ex cinema.
43 Sjá m.a. Corley og Webb 2004, s. 173.
44 Sjá t.d. Corley og Webb 2004, s. 174.
20