Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2006, Page 46
lífsviðhorfs og sjálfsmyndar flóknari er þetta bæði mikilvægt og áhugavert
rannsóknarefni. Viðfangsefnið er sérstaklega áhugavert í íslensku sam-
hengi þar sem íslenskt samfélag hefur fram undir lok síðustu aldar verði
skilgreint sem tiltölulega einsleitt en er nú að þróast til meiri íjölhyggju og
margbreytileika. Hvernig tjá íslenskir unglingar sig um lífsviðhorf sitt og
gildismat við slíkar aðstæður og hvað einkennir viðhorf þeirra? Hér verður
gerð grein fyrir nokkrum niðurstöðum úr rannsókn sem við höfum unnið
að síðustu misserin á lífsviðhorfi og gildismati íslenskra unglinga.2
Markmið og aðferð
Grunnskólinn á íslandi fékk fyrir um sjö árum nýja námskrá. Þar á meðal
var námskrá í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum, þar sem
meðal annars er aukin áhersla á fræðslu um siðfræði og önnur trúarbrögð
og lífsviðhorf en kristni.31 breytingartillögum við námskrána sem nú liggja
fyrir til kynningar er sú áhersla aukin enn frekar.4 Þá var ennfremur í fyrsta
sinn gerð námskrá í nýrri námsgrein sem fékk nafnið lífsleikni.5 Þær áherslu-
breytingar sem þarna koma fram endurspegla meðal annars þörfina fyrir að
skólinn komi annars vegar til móts við aukinn margbreytileika samfélagsins
og þróun í átt til fjölmenningar og hins vegar að skólinn styðji nemendur í
mótun sjálfsþekkingar og bæði persónulegrar og félagslegrar sjálfsmyndar.
Með nám og kennslu í kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði í huga og
þessa nýju námsgrein, lífsleikni, er mikilvægt að gera sér einhverja grein
fyrir hvernig nemendur grunnskólans hugsa og tjá sig um lífsviðhorf sitt og
gildismat og færni þeirra til að fást við og ræða tilvistarspurningar og gildi.
Upplýsingar af þessu tagi hafa einnig gildi fyrir kirkjuna og fræðslustarf
2 Rannsóknin hlaut m.a. styrk úr Kristnihátíðarsjóði.
3 Aðalnámskrá grunnskóla 1999, Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði.
4 Aðalnámskrá grunnskóla, kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði. Tillögur 2005.
5 Aðalnámskrá grunnskóla 1999, Lífsleikni.
44