Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2006, Page 88
hjálpræðisins af hjarta sonarins og bjargar með því mannkyninu frá algerri
glötun. Um þetta segir Magnús Jónsson: „Með sprota reiði sinnar slær
Guð drykk kærleikans, einu lífsvonina, af hjarta sonarins, handa örþyrstu
mannkyni á eyðimörk lífsins. Málsnilld sinni mun Hallgrímur sjaldan hafa
beitt betur en hér. Sjálfur hreimur orðanna er töfrandi.“27
Enginn íslendingur hefur ort meira út af Biblíunni en sr. Valdimar Briem
(1848-1930). í Biblíuljóðum Iþar sem sr. Valdimar yrkir út af textum Gamla
testamentisins á hvorki meira né minna en 410 blaðsíðum koma 128 síður
í hlut Mósebóka. Þar er meðal annars að finna ljóð út af sama atburði og
sr. Hallgrímur orti út af í 48. Passíusálmi þ.e. af því er Móse sló vatn út af
klettinum í eyðimörkinni. Valdimar yrkir þannig:
Hjeldu þeir áfram um öræfin löngu,
uppspretta framar þeim svalaði’ ei nein.
Þreyttum og móðum og þyrstum af göngu,
þrotin var samt ei guðs náðarlind hrein.
Móses sló stafnum á helluna hörðu,
helg þar upp brunaði svalalind tær.
-- Optlega’ á hrjóstrugri harðbalajörðu,
himinlind drottins oss svölunar fær.28
Þarna, er eins og hjá Hallgrími, dregin upp hliðstæða milli atburðarins í
eyðimörkinni og þeirrar himinlindar Drottins sem veitir okkar svölun enn
þann dag í dag.
27 Magnús Jónsson, 1947, II, s. 166.
28 Valdimar Briem 1896, s. 97.