Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2006, Page 99
fylgdi frjálslyndri stefnu í innanríkismálum og átti eftir að verða einn rót-
tækasti málsvari trúfrelsis í landinu.16
Nefnd Vestur-Skaftfellinga fjallaði einnig nokkuð um stjórnarhætti kirkj-
unnar og má líta svo á að þar sé um tillögu að ræða um það hvernig nefndin
taldi að útfæra bæri „fyrirheitisgrein' dönsku stjórnarskrárinnar. Um þetta
efni sagði að málefni kirkjunnar væru „svo sjerstaklegs eðlis“ að þau gætu
ekki heyrt undir Alþingi eitt vegna þess að ósvíst væri að þar sætu „jafnan
þeir menn, sem beri gott skyn á kennslumálefni, kirkjusiði, kirkjulega stjórn
o. s. fr.“17 Komst nefndin hér að annari niðurstöðu en ýmsir þingmenn um
svipað leyti sem litu svo á að Alþingi væri í senn þing þjóðarinnar og kirkj-
unnar og líta mætti á þingmenn sem fulltrúa kirkjunnar, nokkurs konar
kirkjuþingsmenn, þegar þeir fjölluðu um kirkjuleg málefni. Til að bæta úr
þessum vanda taldi nefndin nauðsynlegt að „haldin sje prestastefna (syno-
dus) af landinu öllu það árið, sem alþing er haldið" og skyldi hún hafa „all-
an hinn sama rjett á, að fjalla um“ ofangreind mál og þingið hefði í verald-
legum málum.18 Um ytri málefni kirkjunnar sem lutu að kirkjubyggingum,
kirkjueignum og tekjum andlegrar stéttar manna o. fl. skyldi fjallað bæði á
Alþingi og prestastefnu. Risi ágreiningur milli þeirra skyldi konungur fresta
afgreiðslu málsins þar til nýtt þing og prestastefna hefðu verið kosin. Leyst-
ist ágreiningurinn ekki með því skyldi konungur leiða málið til lykta eftir að
hafa leitað álits danska kirkjumálaráðherrans og ráðgjafa síns um málefni
íslands.19 Kirkjunni skyldi því veitt aukin sjálfsstjórn og þar með stigið skref
í átt frá hreinni ríkiskirkjuskipan. Þar sem söfnuðunum var ekki ætluð nein
þátttaka í kirkjustjórninni orkar hins vegar tvímælis hvort þetta skref hefði
legið í átt að einhverju sem kalla mætti þjóðkirkju í lögformlegum skilningi.
16 Hjalti Hugason, s. 2006, s. 66-70.
17 Undirbúningsblað 1850-1851(2), s. 10.
18 Undirbúningsblað 1850-1851(2), s. 10.
19 Undirbúningsblað 1850-1851(2), s. 10.
97