Skagfirðingabók - 01.01.1991, Page 18
SKAGFIRÐINGABÓK
Stundum söng Stefanía Um hryssu fyrir vestan undir sálma-
laginu Lofið guð og lýðir göfgi hann:
Skjóna mín
skoppar um móana.
Hún er fín
að hendast um flóana.
Yfir keldur, fen og flár
flýgur hún sem andi
svo sem hana sendi ár,
sú er í standi!
Hún á spretti hálsinn upp reigir,
furðu nett fótinn út teygir,
grjóti þétt götunni’ úr fleygir.
Ja, svoddan kapall sízt er föl,
þótt firðar bjóði fyrir hana nú
fimmtíu dali :,:
Þau prestshjón gerðu aldrei upp kaupreikning við Stefaníu,
en matur var vel skammtaður og góður, annar viðurgerningur
að sama skapi. Stefanía bað húsbændur sína um söðul og fékk
hann, fallegt og vandað reiðver.
Stefanía „var lág vexti og svaraði sér vel, mjög skörp til vinnu
og kappsfull. Komu þeir eiginleikar sér vel í lífsbaráttunni, er
hún varð að sjá um heimilið og stóran barnahóp. . . . Stefanía
hafði ágæta söngrödd . . . enda lærði hún mikinn fjölda af lög-
um og ljóðum, sem hún síðar miðlaði börnum sínum og öðrum.
Var hún mjög næm og lærði með árunum slík kynstur af lausa-
vísum og öðrum kveðskap, að með fádæmum var. A efri árum
var hún orðin mjög ættfróð og gat aðstoðað ýmsa þá, er við þau
fræði fengust. - Stefanía var að eðlisfari léttlynd og glaðvær, og
aldrei gat hörð lífsbaráttan unnið á þeim eðlisþáttum. Hún var
mjög hjálpsöm, og leituðu margir bágstaddir og umkomulitlir
16