Skagfirðingabók - 01.01.1991, Qupperneq 30
SKAGFIRÐINGABÓK
inn seldur til Hríseyjar, og fylgdi Sölvi honum þangað. Upp úr
því réðst hann vélamaður til Hinna sameinuðu verzlana á Sauð-
árkróki og varð mótoristi á Hring, sem félagið átti og gerði út.
Þar átti hann skipsrúm til 1920.
A Hring reri Sölvi m.a. með Bjarna Magnússyni, Maríusi
Pálssyni og Sveini Magnússyni frá Ketu. Glóðarhausvél var í
bátnum, og hún var sett í gang með þeim hætti, að tannhjóla-
drifi var snúið með sveif. Einhvern tíma, líklega veturinn 1919-
20, ætlaði Sölvi eitt sinn sem oftar að setja vélina í gang. Hann
hafði ullartrefil um hálsinn, tvívafinn, og flöksuðust endarnir
niður. Um leið og vélin hrökk í gang greip hún trefilendana.
Sölvi gat komið höndum fyrir sig og náði á bullustrokk vélar-
innar, en hann var býsna hár á glóðarhausvélum. Síðan spyrnti
hann af öllu afli móti vélinni til þess að slíta trefilinn. Átakið var
svo mikið, að vélin, sem var rétt komin í gang, tók bakslag og
drap á sér. Sölvi sagði ekki frá þessu atviki, þegar heim kom, en
kvaðst vera lasinn og lá fyrir daginn eftir og var lengi að jafna sig
eftir þessa þrekraun. Sagan barst svo heim í Sölvahús utan úr bæ
og vakti litla hrifningu húsmóðurinnar.
Veturinn 1920—21 réðst Sölvi vestur á Isafjörð á vegum
Hinna sameinuðu verzlana og stundaði vélgæzlu, en árið eftir
tók hann við vélavörzlu fyrir Rafveitu Sauðárkróks, sem stofn-
uð var 1922. Staurar voru reistir og línur lagðar um allan bæ, frá
gamla bakaríinu við norðurenda Aðalgötu suður að Árbæ og
Nýjabæ um það bil þar sem Safnahúsið stendur nú, og „þá kom
á daginn að ungæðisbjartsýni hafði ráðið ferðinni fremur en
gætin fyrirhyggja," segir Helgi Hálfdanarson. Mótorinn, sem
framleiða átti rafmagnið, var „afleitur gallagripur, gamall og úr
sér genginn". Honum var komið fyrir í húsi, sem Sölvi og Jón
Guðmann Gíslason höfðu grafið inn í brekkuna fyrir utan og
ofan Sölvahús og var notað undir ís. Rafveitan keypti þetta hús
og lét reisa skúr fyrir framan það. „Það var ekkert smáræði, sem
til stóð við Sölvahús," segir Hólmar Magnússon. „Þangað
streymdu vörurnar í stórum kössum og heilar vélasamstæður,
28