Skagfirðingabók - 01.01.1991, Page 41
STEI-'ANÍA I'ERDÍNANDSDÓTTIR OG SÖLVl JÓNSSON
útvarpinu, heyrði þær þó aðeins einu sinni. Gísli frá Eiríksstöð-
um heimsótti hana oft og var stundum að stríða henni með því
að hafa yfir snúnar vísur, en hún lærði þær þó að hann flytti að-
eins einu sinni.
I Sölvahúsi „heyrði ég fyrst spilað á grammófón,“ segir
Hólmar Magnússon. „Þangað kom upptrekktur ferðafónn af
His Master’s Voice gerð, einnig nokkrar plötur. Mest voru það
söngplötur, einsöngvararnir Sigurður Skagfield, Pétur Jónsson
og Eggert Stefánsson voru þar, ásamt sjálfum Benjamino Gigli.
Stefanía stóð sjálf fyrir söng og svo öll systkinin, sem sungu vel,
þó Jakob Maríus væri þar langfremstur í flokki."
Stefanía og Sölvi voru jafnaðarmenn að lífsskoðun. Fjöldi
einstæðinga og umkomulítilla átti athvarf hjá þeim; aldrei leið
svo dagur, að ekki kæmu einhverjir í heimsókn og þægju góð-
gerðir, og ýmsir fengu í eldhúsi þeirra það sem þá vanhagaði
um. Heimilisbragur var mjög glaðlegur, ýmsar glettur hafðar í
frammi, ekki sízt af hálfu húsbóndans.
Þau hjón og börn þeirra höfðu mikla nautn af spilamennsku.
Sölvi spilaði lomber nokkra vetur við Bjarna Magnússon, Bene-
dikt Schram, Olaf Briem o.fl., en aðallega var spiluð vist, það
afbrigði hennar, sem heitir rúbertuvist; óheimilt er að segja
hálf- og heilsóló, gjafari getur valið tromplit, aðrir geta sagt
nóló eða grand, sem er hæsta sögn.
Fjöldi manns lagði leið sína í Sölvahús til að spila. Ur þeim
hópi verða einungis tilgreind Pálmi Sighvats á Stöðinni, Jó-
hanna í Borgargerði, Jón Jónsson Hjalti, sem oft kom til að
borða og spila, Björn Benónýsson, Benedikt Halldórsson frá
Keldudal, Þórey Hansen og Gunnar Jóhannesson frá Kleif.
Lognmolla var aldrei yfir spilaborðum. Sölvi og Stefanía
voru bæði kappsöm í spilum, hraut þá stundum blótsyrði af
vörum, en aldrei ella. Ekki var spilað á aðfangadagskvöld,
páskadag og föstudaginn langa; þann dag lagði Stefanía frá sér
alla vinnu.
Einu sinni á vetri var stórislagur svonefndur í spilum, að
39