Skagfirðingabók - 01.01.1991, Page 53
KONRÁÐ GÍSLASON MÁLFRÆÐINGUR
1843 samþykkti félagið að láta prenta þá um vorið breytinga-
fræði (Formlœre) íslenzka sem herra Konráð Gíslason hafi boð-
izt til að láta af hendi við félagið.
Konráð var talsvert lengur að vinna verkið en hann hafði
áætlað því að í bréfi til Páls Pálssonar Melsteðs frá 28. septem-
ber 1845 kemur fram að verið sé að prenta bókina. Þar greinir
hann frá að ekki verði um neina grammatík að ræða heldur
„nokkurskonar hljóðfræði gamla málsins, Altislándische Ele-
mentarlehre". Þegar henni verði lokið hyggist hann koma henni
út á „þjóðversku, sumstaðar aukinni, sumstaðar vanaðri, og
víða leiðrjettri; því alltaf gref jeg eitthvað nýtt upp á hverjum
degi.“ (Bréf 1984:138). I sama bréfi segist hann vera að semja
stafsetningarbók sem Bókmenntafélagið ætli að kosta. „Nú
sýnist mjer,“ segir hann „flestir skrifa hjer um bil eins og skyn-
lausar skepnur mundu gera, ef þær kynnu að draga til stafs“
(.Bréf 1984:139). Þessarar stafsetningarbókar er einnig getið í
fundargerðabókum Bókmenntafélagsins, því að 16. júní 1845
er samþykkt að taka til útgáfu rit um stafsetningu á íslenzku
máli sem Konráð Gíslason væri að semja. Rit þetta kom aldrei
út og Konráð gat þess ekki í áðurnefndu bréfi til konungs 1847,
þar sem hann þó taldi upp það sem hann hafði þegar gert eða var
að vinna við.
I Árnasafni í Kaupmannahöfn er varðveitt handrit að staf-
setningarreglum. Það er í fimm þáttum og fjallar fyrsti þáttur
um tvítekna samhljóða á undan logn. Annar þáttur er um tví-
tekna samhljóða á undan d og t, hinn þriðji um málbreytingar,
einkum stafafall og stafabreytingar. Fjórði þáttur fjallar um d á
undan t í nafnorðum en síðasti þátturinn um d á undan t í lýs-
ingarorðum. Ljóst er að þessu verki var ekki lokið og það er því
miður ártalslaust. Um er að ræða 12 síður, annað hvort úr 8.
kafla eða 8. örk, því að hvert blað er merkt með tölustafnum 8
og síðan blaðsíðutali. Fremst hefur Konráð skrifað sjálfur II.
bind. Ef til vill er þarna um að ræða hluta úr þeirri bók sem hann
bauð Bókmenntafélaginu.
51