Skagfirðingabók - 01.01.1991, Page 62
SKAGFIRÐINGABÓK
ráð og telur að miklu fremur liggi að baki viðliðurinn -fríður
sem einnig sé algengur í kvenmannsnöfnum. Greinin getur
varla talizt meira en athugasemd, en Konráð hefur þó ekki skil-
ið að fullu við efnið því að 1870 birtist eftir hann rækileg
umfjöllun um báða viðliðina. Þar reynir hann að setja fram regl-
ur um hvenær/haldist og hvenær það falli brott.
En nú er Konráð tekinn til við rúnir og birtir langa grein um
málfræði elztu rúnaáletrana. Hún kom út í tvennu lagi 1869 og
1871. Þessi grein sýnir betur en flest annað þá miklu þekkingu
á málfræði sem Konráð hafði aflað sér. Hann gerir rækilega
grein fyrir elztu málleifum annarra forngermanskra mála svo
sem gotnesku, fornháþýzku, fornsaxnesku, fornensku og fleiri,
og notar síðan það efni til samanburðar þegar hann ræðir um
rúnirnar. Ljóst er að hann hefur lesið sér mjög vel til, og ekki er
ósanngjarnt að segja að þarna birtist ein fyrsta tilraun Islendings
til samanburðarmálfræði. Konráð hélt áfram að hafa áhuga á
þessu efni þótt ekki skrifaði hann meira um það. Skiptust þeir
Sophus Bugge á bréfum um rúnir og eru bréf Bugges varðveitt
í Kaupmannahöfn. Eg á eftir að kanna betur hvort bréf Konráðs
til Bugges séu varðveitt í Noregi.
Næstu tvær greinar Konráðs frá árinu 1875 fjalla um brag-
fræði (1875a og b) en 1876 skrifar hann langa grein um hvort
réttara sé að rita Ægir með æ eða œ. I gögnum Konráðs á Arna-
stofnun í Höfn sést að hann hefur um nokkurt skeið verið að
velta þessu efh'i fyrir sér, því að í kompu sem þar liggur, hefur
hann skrifað hjá sér dæmi um leið og hann hefur rekizt á þau í
fornum textum.
Nú verður nokkurt hlé á málfræðigreinum, en 1889 birtir
hann grein um breytingu á beygingu eignarfornafnsins í fyrstu
persónu fleirtölu frá forníslenzku og fram til nútímamáls. Telur
hann koma þar fram fjögur stig. Hið fyrsta nái fram á upphaf
þrettándu aldar, annað stig til um 1370, þriðja stig til um 1600,
en fjórða stig komi fram upp úr 1600. Þarna er hann ekki sízt að
fjalla um hljóðbreytinguna-ui >vó> vo, þ.e. várr > vór > vor.
60