Skagfirðingabók - 01.01.1991, Page 124
SKAGFIRÐINGABÓK
Þennan vetur sat Guðbrandur í Kaupmannahöfn og mun
aðallega hafa verið að reka erfðamál eftir móðurföður sinn Jón
lögmann. Síðar þetta sama sumar kom hann heim og tók við
starfi rektors á Hólum um haustið.
Eins og áður segir stundaði Guðbrandur nám við háskólann
í Kaupmannahöfn, en við þann skóla voru fræði Lúthers höfuð-
námsgrein og mikils metin. Hvort hugur fylgdi máli í trúar-
skoðunum Danakonunga vitum við ekki, en hér voru óneitan-
lega miklir hagsmunir í húfi. Þegar völd páfa yfir kirkjunni voru
aflögð þá efldust völd konunga yfir þeirri stofnun að sama
skapi, en kaþólskum mönnum veittist erfitt að sætta sig við
samruna kirkju og konungsvalds. Með kjöri Sigurðar Jónssonar
vilja Norðlendingar heiðra minningu föður hans, auk þess sem
Sigurður var vel látinn og friðsamur maður, en konungur
treysti ekki syni Jóns Arasonar til að koma hér á siðskiptum.
Ymsir milligöngumenn urðu til þess að vekja athygli kon-
ungs á Guðbrandi, en sú saga verður ekki rakin hér. Sumarið
1570 bauð konungur honum að koma utan og taka biskups-
vígslu. Síðsumars eða um haustið hélt hann utan þessara erinda
og var vígður á pálmasunnudag, 8. apríl 1571. Þann 8. júní sama
ár lét biskup afhenda sér stólinn og eigur hans.
Enginn vafi leikur á því, að biskup hafði fjölþættar gáfur og
hæfileika til stjórnunar, auk þess sem menntunin gaf honum á
stundum víðsýni umfram aðra samtímamenn, og má þar til
nefna afstöðu biskups til hindurvitna ýmiskonar og ofstækis,
sem alltaf gerði vart við sig á þessum tíma og síðar leiddi til
galdraofsókna hér á landi.
En það er óneitanlega eitt atriði í sambandi við val konungs,
sem veldur nokkurri undrun. Á sama tíma og Guðbrandur er
skipaður biskup, andlegur leiðtogi og jafnframt veraldlegur
umsjónarmaður allra eigna stólsins, þá stendur hann í málaferl-
um, þar sem hann gerir miklar fjárkröfur á hendur kirkjunni,
sem erfingi móðurföður síns, Jóns lögmanns. Kröfurnar voru
vegna eigna þeirra, sem Jón missti í deilum sínum við Gottskálk
122