Skagfirðingabók - 01.01.1991, Síða 135
KONUR Á HÓLASTAÐ
hafa Hólar verið kjörinn staður til að mannast og menntast,
enda sýndu þau það síðar. Heimilislíf fjölskyldunnar var talið
hið ágætasta og þau hjónin samhent að rausn og höfðingsskap.
Haustið 1585 dró ský fyrir sólu í lífi fjölskyldunnar, er Hall-
dóra biskupsfrú andaðist eftir barnsburð, 38 ára að aldri. Hall-
dóra veiktist áður en hún ól barnið, fékk þrengsl í kverkarnar og
hafði ekki mál, „en hún skrifaði með krít, það sem hún vildi
vera láta, bæði hvað stúlkurnar skyldu láta til borðs Mikaelis-
messu [29. sept.], sem þá var á fimmtudegi, og svo um hvað
annað.“ Hún tók léttasóttina þennan fimmtudag og lézt morg-
uninn eftir. Barnið var stúlka og var skírt Sigríður. Hún lifði
þrjár nætur, og voru móðir og barn lögð í sömu gröf mánudag-
inn næsta.281 þessari heimild kemur fram stjórn biskupsfrúar-
innar innanhúss, þegar hún sárveik segir til um þau störf, sem
hún vill láta vinna.
Guðbrandur tók dauða konu sinnar mjög nærri sér. „Hvarf
honum þá heilsan þaðan af alla stund meðan hann lifði, en iðni
hans og ástundun þreyttist ei að heldur.“29 Heilsuleysi biskups
fær tæpast staðizt. Guðbrandur var allra manna atorkusamastur
og nánast aldrei óvinnandi. Heilsulaus maður hefði aldrei kom-
izt yfir þau fjölmörgu störf, sem hann hafði á hendi, og reyndar
enginn meðalmaður til vinnu að heldur. Þessi heimild gæti verið
komin frá Arngrími lærða, sem átti til að vera nokkuð mærðar-
fullur. Skal það þó ekki fullyrt. Guðbrandur virðist þó hafa ver-
ið þjakaður af einhverjum sjúkdómi síðari hluta ævi sinnar. Hitt
mun sönnu nær, að eftir þennan atburð er sem gleðin hverfi
honum, þó ekki virðist gæta þunglyndis í fari hans. Biskup var
geðmikill og ráðríkur, og trúlega hefur skap hans harðnað við
þessa erfiðu reynslu. Á síðari hluta ævinnar átti hann í auknum
deilum við samtíðarmenn sína.
Eftir lát Halldóru var Guðbrandur aldrei orðaður við aðra
konu, og ekki heldur álitið, að hann hygði á annað hjónaband,
þótt hann væri þá enn á góðum aldri. Ævi hans er rétt hálfnuð;
hann var 85-86 ára er hann lézt.
133