Skagfirðingabók - 01.01.1991, Blaðsíða 138
SKAGFIRÐINGABÓK
málin, eins og kynsystur hennar almennt gerðu. Hér skal tekið
fram, að þess verður hvergi vart í heimildum, að hún noti
aðstöðu sína sjálfri sér til auðgunar eða ábata. Hennar barátta
virðist alltaf hafa verið háð fyrir aðra.
Hér að framan var getið um Steinunni, dóttur Guðbrands
fyrir hjónaband. Heimildir um uppvöxt Steinunnar í bernsku
eru ekki finnanlegar. Allar líkur benda til, að móðurfólk hennar
hafi búið í Húnaþingi, og hún hefur trúlega alizt upp með því
fyrstu árin. Móðurfaðir Steinunnar var Gísli Finnbogason, er
nefndur var sterki, og var hann prestur í Hólabiskupsdæmi.
Ekki er hægt að segja með vissu hvar Gísli bjó, en vísast að það
hafi verið í austanverðu Húnaþingi.
I Biskupa sögum, þar sem sagt er frá láti Halldóru biskups-
frúar, segir: „Helga Jónsdóttir á Holtastöðum var þá 18 vetra,
Steinunn Guðbrandsdóttir 13.“3I Síðan eru börn biskupshjón-
anna talin. Hér verður að álykta, að þær Steinunn og Helga hafi
báðar verið á Hólum 1585, annars er þessi setning út í hláinn.
Helga var systurdóttir Halldóru Arnadóttur, og varð síðar eig-
inkona Odds Einarssonar Skálholtsbiskups. Er trúlegast, að
Steinunn hafi komið ung til föður síns og alizt upp á heimili
hans fram á fullorðinsár, því vitað er, að Guðbrandur hélt brúð-
kaup hennar á Hólum 1590.
Það kann að þykja ótrúlegt, að Steinunn, óskilgetið barn,
skyldi alast upp með hjónabandsbörnum föður síns, og ein-
hverjum verður þá hugsað til siðavendni biskups. En ef litið er
til tíðaranda sextándu aldar, þá er þetta allt eðlilegt. Aður hefur
verið bent á, að algengt var, að kaþólskir prestar ættu börn og
fylgikonur, og Jón Arason tekinn sem dæmi. Sjálfur var Guð-
brandur fæddur í kaþólskum sið og prestssonur. Foreldrar hans
gengu ekki í hjónaband fyrr en hann var 13 eða 14 ára og þá að
boði Olafs Hjaltasonar biskups (fyrsta lúterska biskupsins á
Hólum), þegar hann vísiteraði Húnaþing í september 1555.32
Auðvitað reyndust feður óskilgetnum börnum sínum misjafn-
lega þá rétt eins og nú, en Guðbrandur breytti á allan hátt vel
136