Skagfirðingabók - 01.01.1991, Page 155
KONUR Á HÓLASTAÐ
Þegar Guðmundur hafði fengið embætti og staðfestu, þá var
ekkert til fyrirstöðu með ráðahaginn og var brúðkaup þeirra
haldið um haustið. Ungu hjónin fluttu að Þingeyrum. Þar hafði
búið Páll Guðbrandsson, en hann andaðist nokkru áður og fékk
Guðmundur embætti hans. Feður brúðhjónanna gáfu þeim ríf-
legan heimanmund og var hlutur Halldóru meiri, auk þess sem
nafna hennar og fóstra gaf henni jörð sem virt var á 50 hundr-
aða.54 Guðmundur var höfðingi í framkomu og mikill frið-
semdarmaður. Hann gat sér gott orð í embætti og náði háum
aldri.
Aður er sagt frá vonbrigðum Guðbrands með soninn, en
draumar biskups um eftirmann af sinni ætt áttu eftir að rætast í
dóttursyninum Þorláki Skúlasyni. Hann var alinn upp á Hólum
eins og fram hefur komið og kostaður þaðan til mennta. Ekki er
annað að sjá en Þorlákur hafi verið sem sonur heimilisins.
Vissulega var það vel gert hjá þeim feðginum, því hin óskilgetna
dóttir, Steinunn og börn hennar, áttu ekki sömu kröfur í bú
Guðbrands og hjónabandsbörnin og afkomendur þeirra.
Þorlákur fæddist 24. ágúst 1597. Hann nam í Hólaskóla en
var síðan sendur til Kaupmannahafnar til frekara náms. Árið
1619 lauk hann háskólaprófi með loflegum vitnisburði og varð
rektor í Hólaskóla sama haust. Næsta ár sendi Guðbrandur
hann utan til að reka erindi sín og hélt Þorlákur þá enn áfram
námi við Hafnarháskóla. Hann varð aftur rektor á Hólum, en
tók prestsvígslu 1624 og var jafnframt kirkjuprestur þar á
staðnum. „Var mildur maður og óáleitinn, jafnaði allt fremur í
kyrrþey en með hávaða. Fór honum þó kirkjustjórn vel úr
hendi. Glaðlyndur maður og gamansamur, liðlegt latínuskáld
og hafði liprar gáfur.“55 Því má bæta við, að hann var einlægur
stuðningsmaður íslenzkra fræða og studdi Björn á Skarðsá í
annálaritun hans. Við eigum Birni að þakka ýmsar heimildir
sem varðveitzt hafa frá þessum tíma.
I Bréfabók Þorláks kemur fram hlýja, þegar hann nefnir
Halldóru, sem hann þar kallar „systur“. Hún var þó fremur
153