Skagfirðingabók - 01.01.1991, Page 189
BISKUPABEIN OG ÖNNUR BEIN Á HÓLUM
þeim steini sem ber nafn hennar. Ragnheiður Jónsdóttir var
hins vegar vitanlega jarðsett á Hólum.19
Það var undir steini Þorláks biskups Skúlasonar að þriðja og
síðasta beinahrúgan lá, þannig að greinilega hafði verið hreyft
við þeim steini þegar steinkirkjan var reist.
Flestir steinanna eru settir yfir menn sem jarðsettir voru í
kirkju þeirri er byggð var 1627, og getur hæglega verið að hreyft
hafi verið við þeim öllum er núverandi kirkja var reist.
Lokaorð
Kirkjur þær er stóðu á Hólum næst á undan steinkirkjunni, Pét-
urskirkja sú er fauk 1624, og Guðbrandskirkja eða Halldóru-
kirkja sem rifin var 1758-9, hafa báðar verið sýnu stærri en
steinkirkjan. Sú fyrri var að því er virðist 84 álnir að lengd, hin
síðari var 49 álnir skömmu áður en hún var rifin. Talið er að þær
hafi náð lengra til vesturs en steinkirkjan, en austurendi þeirra
hafi verið á svipuðum stað og hann er nú. Með því að báðar
þessar kirkjur voru stærri steinkirkjunni var og kór þeirra
beggja stærri eða 17 álnir að lengd í Péturskirkju og 20 álnir í
Halldórukirkju.20 Gerir það 9,69 m og 11,40 m sé reiknað með
57 sm langri alin. Kórinn í þeirri kirkju er nú stendur er ekki
nema 5,85 m langur. Grafir þær sem sáust í könnunarholunni
við norðurvegg eru því allar innan kórs þessara eldri kirkna
beggja.
Þess má geta að Guðbrandur Jónsson lét grafa í kirkjugarð-
inn vestan núverandi kirkju áHólum 1918. Hittu mennþáfyrir
gröf með beinaleifum úr þrem mönnum og virðast beinin eftir
lýsingunni hafa verið mjög illa farin og lítið eftir af þeim. Taldi
Guðbrandur að þetta væru bein Jóns Arasonar og sona hans
tveggja, er höggnir voru með honum. Þetta virðist hann byggja
einkum á því hvar beinin fundust, og að þessir þrír voru grafnir
saman „undir einu hvolfi“. Þá taldi hann að höfuð eins manns-
187