Skagfirðingabók - 01.01.1991, Page 194
SKAGFIRÐINGABÓK
töflunum. Og til þess að vera vissir um að hljóta nógu veglegt
minningarmark, létu margir útbúa töflur um sjálfa sig meðan
þeir voru enn í fullu fjöri. Sat þá viðkomandi fyrir hjá málara
með fjölskyldu sinni og samdi jafnvel sjálfur minningarorðin,
þar sem lofið var ekki skorið við nögl. Þegar taflan var svo til-
búin, lá beint við að hengja hana strax upp í kirkjunni, því að
dánardegi mátti auðveldlega bæta við seinna!1
Þessi siður barst til Islands, og er talsvert til hér af minningar-
töflum, einkum frá 18. öld. Efnahagur þjóðarinnar og léleg
húsakynni leyfðu þó ekki sama íburð og tíðkaðist víða erlendis.
Engin ástæða er þó til að vanmeta íslenzku töflurnar, því að þær
eru margar merkilegar og minna á að höfðingjar reyndu að
fylgjast með erlendri tízku. I stuttu máli eru þær vitnisburður
um menningarviðleitni fátækrar þjóðar.
Lýsing töflunnar
Minningartafla Ingibjargar Benediktsdóttur er veruleg kirkju-
prýði á Hólum. Hennar virðist fyrst getið þegar Steingrímur
Jónsson biskup visiteraði Hóladómkirkju 8. ágúst 1826. I visi-
tazíu telur hann upp málverkin, sem héngu á múrnum, en bætir
svo við:
til er og máluð tabla með grafskrift af Gísla biskupi Thor-
lákssyni yfir Ingibjörgu Benediktsdóttur konu sína, og
bróður hans Þórðar biskups Þorlákssonar yfir sömu.2
Af orðalaginu verður ekki ráðið hvar taflan hékk. Vorið 1886
samdi Hermann Jónasson skólastjóri nákvæma lýsingu á Hóla-
dómkirkju, en þá voru í undirbúningi miklar endurbætur og
breytingar á kirkjunni. Undarlegt er, að hann minnist ekki á
töfluna, en telur þó samvizkusamlega upp öll málverkin, sem
þar voru.3 Skömmu síðar, eða 20.-23. ágúst 1886, var Sigurður
Vigfússon fornfræðingur á rannsóknarferð um Skagafjörð.
192