Tölvumál - 01.07.2007, Side 35
3 4 | T Ö LV U M Á L T Ö LV U M Á L | 3 5
nú verið ráðinn deildarforseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík, er
nýjasti fastráðni meðlimur setursins. Einnig starfa tveir fastir sérfræðingar
innan vébanda setursins, Eric Nivel og Sverrir Sigmundarson, báðir með
meistaragráðu. Að jafnaði starfa á annan tug grunn- og framhaldsnema við
hin ýmsu verkefni og eru þeir því stærsti hluti setursins hverju sinni.
Mikil áhersla er lögð á öflugt alþjóðlegt rannsóknarstarf innan
Gervigreindarsetursins, og er setrið í virku samstarfi við erlenda háskóla
og rannsóknarstofnanir (þ.m.t. University of Southern California,
Bandaríkjunum; University of Alberta, Kanada; og Edinborgarháskóla,
Skotlandi). Frá stofnun setursins hafa á þriðja tug ritrýndra vísindagreina
eftir starfsmenn setursins birst á alþjóðlegum vettvangi. Starfið hefur fengið
umtalsverða athygli og starfsmenn hlotið viðurkenningar fyrir vísindagreinar
sínar á virtum alþjóðlegum gervigreindarráðstefnum, auk þess sem fjallað
hefur verið um störf þeirra í útbreiddum tímaritum á borð við Enterpreneur
og Wired. Gervigreindarsetrið hefur einnig fengið fjölda vísindastyrkja úr
samkeppnissjóðum bæði innanlands og erlendis.
Námskeið á sviði gervigreindar eru nú hluti af föstu námsframboði
tölvunarfræðideildar HR, bæði almenn námskeið í grunnnámi svo og
sérhæfðari námskeið í framhaldsnámi. Nemendur í meistaranámi í
tölvunarfræði geta einnig valið að sérhæfa sig í gervigreind, og býðst þeim
að taka hluta meistaranámsins erlendis (að jafnaði eina önn) við einhvern
af fjölmörgum samstarfsháskólum. Einnig hefur gervigreindarsetrið tekið
á móti meistaranemum frá erlendum háskólum sem kjósa að vinna hér
að rannsóknum til skemmri eða lengri tíma. Tölvunarfræðideild HR hefur
þegar útskrifað meistaranema sem hafa unnið rannsóknarverkefni sín á sviði
gervigreindar, auk þess sem fleiri framhaldsnemendur eru nú að sérhæfa sig
í faginu. Til stendur að bjóða upp á doktorsnám í faginu innan árs.
Gervigreindarsetrið hefur staðið fyrir ýmsum uppákomum til að vekja áhuga
yngri kynslóðarinnar á vísindum og tækni, og sér í lagi gervigreind. Þar má
nefna þátttöku í vísindavökum svo og hina árlegu Gervigreindarhátíð sem
setrið stendur fyrir. Einnig hefur setrið staðið fyrir alþjóðlegum viðburðum hér
á landi, svo sem rannsóknarráðstefnum og heimsmeistaramóti skákforrita
sem var haldið sumarið 2005.
Tengsl við atvinnulífið er mikilvægur þáttur í starfsemi setursins. Auk
þess að útskrifa vel menntað fólk sem nýtist atvinnulífinu, þá hefur
einnig verið lögð áhersla á að byggja upp virkt samstarf við íslensk
fyrirtæki. Þar má meðal annars nefna nýtilkomið samstarfsverkefni við
hugbúnaðarfyrirtækið CCP hf. er gengur út á að útbúa vitverur fyrir
leikjaumhverfi sem gæddar eru ýmsum þáttum mannlegs atferlis. Einnig
má nefna að sótt hefur verið um Evrópustyrki með fyrirtækjum á borð
við Össur ehf. og fjölmörgum erlendum aðilum, með nánara samstarf
að markmiði. Áhersla er líka lögð á að vinna með ungum framsæknum
sprotafyrirtækjum, og má þar nefna samstarf við fyrirtækið Hex ehf. sem
nýtir sér gervigreindartækni í sínum hugbúnaðarlausnum, Communicative
Machines Inc. sem þróar hugbúnað fyrir gervigreindarrannsóknir, og
einnig árangurríkt samstarf við Völku ehf. um hönnun á aðlögunarhæfum
samvalsalgrímum fyrir framleiðslulínu sem fyrirtækið er að þróa. Fleiri
samstarfsverkefni eru í burðarliðunum.
Þó að Gervigreindarsetrið sé ungt að árum þá er ljóst að það er þegar
farið að setja mark sitt á uppbyggingu innlends hátækniiðnaðar, bæði með
rannsóknarstarfi og með auknum tengslum og samstarfi við atvinnulífið.
Nánari upplýsingar um starfsemi setursins og verkefni þess er að finna á
heimasíðu CADIA (http://cadia.ru.is).
Glæsileg rannsóknaraðstaða Gervigreindarseturs HR er á 2. hæð í Kringlunni, gamla Morgunblaðshúsinu.