Bændablaðið - 09.07.2015, Síða 2

Bændablaðið - 09.07.2015, Síða 2
2 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. júlí 2015 Afkoma æðarfugls, lunda, kríu og fleiri tegunda markast af ætisframboðinu í sjónum við landið: Makríllinn hreinsaði upp ætið í Djúpinu í fyrra − „Þetta gerðist ótrúlega fljótt,“ segir Salvar Baldursson, bóndi í Vigur Salvar Baldursson, bóndi í Vigur við Ísafjarðardjúp, segir að afkoma æðarfugls, lunda, kríu og margra annarra fuglategunda ráðist af aðgengi að nægu æti í sjónum. Í fyrra hafi makríllinn hreinsað upp ætið í Djúpinu á örskömmum tíma. „Í fyrra var gríðarlega mikið kríuvarp í Vigur og krían kom upp miklum fjölda unga. Það var mikil áta í sjónum og næg fæða. Ungarnir voru við það að verða fleygir þegar makríllinn kom í stórum torfum í Djúpið. Eftir stuttan tíma var orðinn ördeyða í fæðu fyrir fuglinn og kríuungarnir drápust unnvörpum. Ég hef aldrei séð svona áður, eftir að makríllinn kom tók algjörlega fyrir ætið sem fuglarnir lifa á. Þetta var svona rétt eins og við hefðum verið með opna matvörubúð í Djúpinu sem var svo skyndilega lokað. Þetta gerðist ótrúlega fljótt.“ Makríllinn étur nær 3 milljónir tonna í lögsögunni við Ísland Samkvæmt upplýsingum Haf- rannsókna stofnunar hafa á liðnum árum gengið um 1,5 milljón tonna af makríl inn í lögsögu Íslands á tímabilinu frá maí til september. Á ferð sinni kringum landið étur makríllinn heil ósköp af fæðu, og þá aðallega krabbaflær og rauðátu. Eykur makríllinn við það þyngd sína um 40–50%. Þannig er makríllinn sem kemur inn í lögsöguna sem flökkufiskur snemmsumars að synda út úr henni aftur að hausti og búinn að éta um 2,5–3 milljónir tonna af æti. Þetta æti hefði annars verið til skiptanna fyrir aðra fiskistofna, hvali og fugla. Getur þetta afrán makrílsins að sumra mati skýrt að nokkru þann vanda sem lundinn og krían hafa átt við að eiga undanfarin ár, einkum við suður- og vesturströnd landsins. Það að makríllinn skuli nú vera talsvert seinna á ferðinni gæti gefið von um betri árangur í varpi en síðustu ár og að ungar komist á legg og geti frekar bjargað sér við ætisöflun. Bjarga munaðarlausum ungum Æðarungar sem villast af hreiðrum eiga það á hættu að verða étnir af máfum. Í sumar hefur Baldur Björnsson, bróðursonur Salvars, verið vinnumaður í Vigur og m.a. haft það hlutverk að bjarga þessum ungum. Þá álpast alltaf töluverður fjöldi æðarunga í lundaholur og kemst ekki þaðan út aftur. Hefur Vigurfólk reynt að vakta holurnar og bjarga þaðan ungunum sem ella hefðu drepist. „Maður finnur stundum lundaholur með 15 til 20 ungum og þeir eru ekki alltaf lifandi. Ef þeir eru á lífi bjargar maður þeim. Þegar við erum með slíkan hóp höldum við honum sér og setjum aldrei aðra unga þar með. Ástæðan er að þeir geta fengið hníslasótt sem er meltingarfærasýking, sem er algeng í alifuglum. Því gefum við þeim ungum sem við erum að ala hverju sinni penicillin fyrstu dagana og pössum upp á að utanaðkomandi ungar blandist þá ekki í hópinn.“ Einstæð samvinna mannfólksins og fuglanna Baldur sér svo um að ala ungana í tvær til þrjár vikur á úrvalsfóðri áður en þeim er sleppt aftur. Þeir fara þá frjálsir í fjöruna og út á sjó, en ekki er óalgengt að þessir ungar komi aftur heim að bæ til að fá eitthvað gott í gogginn. Þessir fuglar eiga síðan væntanlega eftir að launa Vigurbændum lífgjöfina með því að gefa þeim dún. Þykir erlendum sem innlendum ferðamönnum þessi einstæða einstaka samvinna manna og fugla afar áhugaverð. Blómleg ferðaþjónusta Um langt árabil hafa Salvar og kona hans, Hugrún Magnúsdóttir, og fjölskylda verið að byggja upp öfluga ferðaþjónustu og móttöku fyrir ferðamenn í Vigur. Virðist ásókn ferðamanna fara stöðugt vaxandi og hafa Vigurbændur mætt þessu með því að breyta fjósinu í móttökustað og veitingaþjónustu. „Það hafa verið að koma hér um 200 manns nánast á hverjum degi. Við erum ágætlega undir það búin að taka á móti ferðamönnum. Við erum búin að skipta um móttökuhús og koma þar upp góðri aðstöðu. Núna erum við búin að breyta fjósinu og koma þar upp góðri eldunaraðstöðu og snyrtingum og fleiru,“ segir Salvar. Hann segir mikinn straum vera í eyjuna af fólki af skemmtiferðaskipum sem koma til Ísafjarðar og í Ísafjarðardjúp á sumrin. /HKr. Íbúar í eyjunni Vigur í Ísafjarðardjúpi hafa um aldir haft nytjar af æðarfugli, lunda og öðrum sjófuglum. Staða ætis í Djúpinu skiptir öllu máli varðandi afkomu fuglastofnanna og um leið afkomu íbúanna. Mynd /HKr. Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofu Suðurlands, hefur haldið utan um tölur um afkomu lunda og fleiri sjófuglategunda við landið. Hann segir að í heild sé afkoma lundans hér við land undir meðallagi þótt staðan fari batnandi og geti verið mjög góð á einstökum svæðum á Vestfjörðum og norðanlands. Erpur segir að farið sé í tvö röll með talningu á sumrin. Þar er farið tvo hringi í kringum landið í tólf lundabyggðir. Þegar Bændablaðið hafði samband við hann á þriðjudag í síðustu viku var verið að klára talningu í Stórhöfða í Vestmannaeyjum. „Í heildina er þetta svipað og undanfarin fimm ár. Ástandið er best fyrir norðan þótt við segjum ekki að það sé gott. Ábúðin, eða það hlutfall af holum sem orpið er í, hefur verið að aukast fyrir norðan hægt og bítandi og sjaldan eða aldrei verið eins hátt og í ár. Þessi varpárangur er samt eins og hann gerist lélegastur á Bretlandseyjum og teldist því rétt undir meðallagi í því samhengi. Við Suður- og Vesturland gengur ábúðin mjög illa og hefur verið 20% lægri en venja er undanfarin fimm ár. Í Eyjum er hún um 56% á meðan hún er að meðaltali yfir 70% fyrir norðan,“ segir Erpur. „Lundinn hefur þó ekki enn afrækt holurnar hér í Eyjum sem eru góðar fréttir. Árið 2011 skildi lundinn t.d. eftir um 80% af eggjunum.“ Eins og fram kom í samtali við Salvar Baldursson var hún um 90% þetta vorið í Vigur sem er með því besta sem gerist. Segir Erpur að ábúðin hafi líka verið mjög góð í Drangey í Skagafirði. Uppgangur á Austurlandi „Góðu fréttirnar eru að það er búinn að vera uppgangur á Austurlandi frá 2012.“ Þann 26. júní var farið í talningu í Hafnarhólma á Borgarfirði eystri. Þar var ábúðin 92% og 68% höfðu klakist þegar skoðað var. „Það er óvenjulegt núna að í Hafnarhólma var lundinn fyrstur til að klekja út ungum, en venjulega er hann fyrstur til fyrir norðan. Þar er síli og loðna uppistaðan í fæðunni, en sílið hefur þó verið á hægri niðurleið fyrir austan á meðan loðnan fer vaxandi þótt hún eigi það til að hverfa sum árin. Það var mjög mikið af loðnu í fyrra en hún var bara svo smá að það hefur ekki skilað nægu æti til að ala upp ungana. Það verður gaman að sjá árangurinn í Papey en þar er mjög stórt varp, eða um 150 þúsund pör, eða álíka og í Skrúð.“ Lítið hefur verið um síli við Suðurströndina og Vesturland undanfarin ár, en vart hefur orðið við aukningu á sama tíma í sílastofnunum við Norðurland. Hafa Erpur og hans menn vel náð að greina fæðuöflun fuglanna með myndatökum. Segir hann að umpólun virðist hafa verið í framboði á síli í fæðu fuglanna við Norðurland. Þann 28. júní var skoðað í Dyrhólaey við Suðurströndina, en þar reyndist ábúðin vera tæplega 64% svo munurinn eftir landsvæðum er því mikill. Sterkt samhengi við sjávarhita Í samantekt Erps um lundaveiðar í háf í Vestmannaeyjum sem spannar yfir 134 ár, kemur greinilega fram samspil afkomu sjófugla við hitastig í sjónum. Þarna er um að ræða lengstu samfelldu veiðisögu fyrir sjófugla í heiminum. Segir Erpur að slök staða lundastofnsins sé ekkert einsdæmi því sama eigi við um aðra sjófugla sem lifi á síli og loðnu. Hækkandi vetrarhiti í sjónum frá 1996 virðist hafa slæm áhrif á sílið við Suðurland. Loðnan hafi sömuleiðis hörfað undan hitanum til Suðaustur-Grænlands og hrefnustofninn hafi að stærstum hluta fylgt henni eftir að mati sérfræðinga. Úr þessu verður væntanlega skorið í stórri hvalatalningu sem fram fer nú í sumar. Fá upplýsingar um vetursetu fuglanna „Við höfum verið að setja staðsetningartæki á nokkrar tegundir fugla eða svokallaða dægurrita undanfarin ár og höfum fengið töluvert af niðurstöðum. Fuglar norðan- og vestanlands virðast eiga sér vetrarstöðvar á Labradorhafi milli Grænlands og Nýfundnalands. Hins vegar heldur meginhluti fuglanna á sunnanverðu landinu frá Papey að Vestmannaeyjum sig yfir Atlantshafshryggnum, suður af Charlie-Gibbssvæðinu við Grænland. Ungfuglinn virðist þó samkvæmt merkingum halda sig nær landi.“ Stuttnefjustofninn að hrynja „Stóru fréttirnar í þessu er að helmingur af okkar stuttnefjustofni virðist eiga sér vetursetu við vestanvert Grænland. Þar er hins vegar verið að veiða um 65 þúsund stuttnefjur á veturna sem er væntanlega að helmingshluta úr okkar stofni. Það hjálpar ekki til við að halda þeim stofni við sem hefur verið á niðurleið mun lengur en lundinn. Þegar fuglinum gengur svona illa eins og verið hefur undanfarin ár, þá eru þessar veiðar Grænlendinga algjört kjaftshögg. Hér hafa veiðar dregist mjög saman eftir að Svandís Svavarsdóttir stytti veiðitímann og það hefur haft mikið að segja. Stuttnefjan á í miklum vanda og stofninn er hreinlega að hrynja,“ segir Erpur. /HKr. Staða lundastofnsins fer batnandi − áhrif sjávarhita á fæðu og afkomu eru mikil og stuttnefjustofninn virðist vera að hrynja, segir Erpur Snær Hansen líffræðingur Erpur Snær Hansen með lundapysju. Mynd / Johannes Hellwig.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.