Bændablaðið - 09.07.2015, Page 6

Bændablaðið - 09.07.2015, Page 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. júlí 2015 Málgagn bænda og landsbyggðar Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 7.500 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.750. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is Auglýsingastjóri: Auður Laila Jónsdóttir audur@bondi.is – Sími: 563 0303 – Frágangur fyrir prentun: Prentsnið. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621 LEIÐARINN Það er sannarlega rannsóknarefni hvað Íslendingar geta verið grunnhyggnir þegar kemur að fylgispekt við ímyndaðan pólitískan rétttrúnað. Það hefur m.a. endurspeglast vel í ofurtrú á innleiðingu á erlendu regluverki um alla skapaða hluti. Innleiðing blekkingarkerfis sem heimilar sölu á hluta af fjöreggi þjóðarinnar, í formi ímyndar hreinleika náttúru og orku, er eitt þessara fyrirbæra sem troðið hefur verið upp á þjóðina. Þetta var gert án þess að okkar stuðpúði gagnvart erlendu valdi, Alþingi og alþingismenn, segðu púst þegar kom að því að samþykkja þetta dæmalausa rugl. Það er fyrst núna árið 2015 að sama fólkið og samþykkti þetta er að átta sig á fáránleika málsins. Sumt af því fólki sem samþykkti lög um þetta fyrirbæri 2008 án þess að segja múkk, hefur svo setið æpandi og emjandi vikum saman á þingi í vor í endalausu ræðurugli um „fundarstjórn forseta“. Það er engin afsökun að benda á að svona hafi þetta alltaf verið og þar séu allir samsekir, hvorum megin stjórnarborðs fólk annars situr. Þessu verður að breyta og taka upp skilvirkari vinnubrögð. Þjóðin hefur ekki efni á að halda fólki á launum í svona rugli. Ef erlend reglugerðarsmíð og innleiðing þeirra reglna er svo múlbundin í EES-samningum, þá verður að fara í endurskoðun á þeim samningum. Þessu hafa Norðmenn áttað sig á og fleiri eru eflaust að hugsa sér til hreyfings í þeim efnum. Þá er athyglisvert að Bretar vilja í það minnsta fá endurskoðun á aðildarsamningum sínum að ESB sem er enn múlbundnara fyrirbæri. Svipaðar kröfur heyrast nú frá Danmörku og Svíþjóð, samt eru enn til pólitísk öfl hér á landi sem vilja teyma Íslendinga inn í þetta skriffinnskubákn. Möguleikinn á upptöku evru var sú gulrót sem helst var hampað af ESB-sinnum. Nú stígur hver verðlaunahagfræðingurinn af öðrum fram á sjónarsviðið og segir að evran, eins og hún sé uppbyggð, geti aldrei gengið í svo sundurleitu ríkjabandalagi. Til þess þurfi að steypa ESB-ríkjunum saman í eina efnahagslega og pólitíska heild. Þrátt fyrir orð þessara virtustu hagfræðinga, er til fólk á Íslandi sem enn lemur hausnum við íslenska grjótið og hvetur til bumbusláttar á Austurvelli um ESB-aðild í nafni lýðræðis. Á sama tíma er allt í kalda koli í vöggu lýðræðisins í Grikklandi, sem þó átti að vera í öruggum höndum eftir inngöngu í ESB … eða hvað? /HKr. LOKAORÐIN Að brauðfæða jörðina Bændasamtök Íslands urðu í maímánuði fullgildir aðilar að Alþjóðasamtökum bænda, World Farmers Organisation (WFO), á grundvelli samþykktar Búnaðarþings frá því í byrjun mars. WFO eru ung samtök, stofnuð á grunni Heimssamtaka búvöruframleiðenda sem liðu undir lok. Um þessar mundir er heimssýningin EXPO-2015 haldin í Mílanó undir yfirskriftinni „Feeding the Planet, Energy for life“, sem í lauslegri þýðingu útleggst sem „Að brauðfæða jörðina – orka lífsins“. Það var því vel til fundið að halda allsherjarþing WFO í Mílanó undir sömu yfirskrift í borginni nú í lok júnímánaðar og ánægjulegt fyrir Bændasamtök Íslands að vera loks þátttakandi í því mikilvæga samtali sem þar fer fram. WFO eru samtök bænda alls staðar úr veröldinni auk þess sem samvinnufélög bænda eru einnig aðilar að samtökunum. Víðast hvar í heiminum er litið á hagsmuni bænda og samvinnufélaga þeirra sem hina sömu. Sem dæmi eru Evrópusamtök bænda, COPA-COGECA, sameiginleg samtök bænda og samvinnufélaga bænda í Evrópu. Þó svo að dæmi séu um öflug samvinnufélög bænda á Íslandi er langt frá því að þessu rekstrarformi sé gefinn nægur gaumur hér á landi. Mikilvægi þess að taka ábyrga afstöðu Aðalritari Aameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, ávarpaði fundinn með hjálp nýjustu tækni og þar lagði hann áherslu á mikilvægi bænda af báðum kynjum við að tryggja fæðuöryggi með sjálfbærum landbúnaði. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) er þegar orðin aðili að starfi WFO og lýsti aðalritarinn sérstakri ánægju með það samstarf. Hann lagði einnig mikla áherslu á rekstur fjölskyldubúa og sagði að verkefni landbúnaðarins verði ekki leyst af hendi nema með aðkomu þeirra. Enn fremur lagði hann áherslu á það allir legðust á eitt í að útrýma hungri í heiminum og mikilvægi þess að taka ábyrga afstöðu til loftslagsmála. Áhugavert er að geta þess að Sameinuðu þjóðirnar telja samvinnufélög mikilvæg í baráttu gegn hungri í heiminum og hafa kallað þau „rekstrarform með samvisku“. Það voru fleiri stórmenni sem létu frá sér heyra á þinginu. Frans páfi sendi kveðju og fagnaði þeirri áherslu sem lögð var upp þar, enda mikilvægt að þróa landbúnaðinn til að takast á þær miklu áskoranir sem fram undan eru við að brauðfæða heiminn sem þyrfti jafnframt að ræða í félagslegu samhengi. Á þinginu kusu bændur nýjan forseta samtakanna og varð dr. Evelyn Nguleka fyrir valinu. Þar fer ung kona sem er menntaður dýralæknir og bóndi frá Zambíu. Hún er mjög frambærilegur og öflugur einstaklingur sem án nokkurs vafa á eftir að tala máli landbúnaðarins með sóma hvar sem hún kemur og halda hagsmunum bænda og samvinnufélaga þeirra á lofti. Það er skemmtileg tilviljun að hún skuli vera kosin sama dag og síðasta Bændablað kom út, en í leiðara þess var ítrekað mikilvægi þess að konur tækju virkan þátt í félagsmálum bænda. Í ályktun þings WFO er tekið á mörgum mikilvægum atriðum er varða starfsskilyrði bænda í heiminum og mikilvægi samvinnufélaga í virðiskeðjunni. Ljóst er að landbúnaður er afar breytilegur eftir heimsálfum og áherslur bænda eru mismunandi. Þrátt fyrir það er flest sem WFO fjallar um ekki fjarri því sem íslenskir bændur ræða á Búnaðarþingi og bændafundum um allt land, eins og sjá má hér að neðan þar sem helstu atriði ályktunar þingsins eru tekin saman. Landbúnaður er kjarni sjálfbærrar þróunar Þingið leggur áherslu á að landbúnaður er kjarni sjálfbærrar þróunar. Bændur og dreifbýlissamfélög bera ábyrgð á fæðuöryggi, fullnægjandi næringu og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni. Bændur skapa hagvöxt og atvinnu með framleiðslu afurða til frekari vinnslu og viðskipta. Með því bætum við hag samfélagsins í heild auk okkar sjálfra. Landbúnaðurinn mun leggja sitt af mörkum til að efla framleiðslu endurnýjanlegrar orku svo sem með lífeldsneyti, orkuframleiðslu úr lífmassa og annarri nýsköpun. Ræktun skóga er eitt af því sem mun skipta verulegu máli til að vinna gegn loftslagsbreytingum og tryggja framboð á hreinu vatni. Bændur eru vörslumenn landsins og hafa hag af því að halda landinu ræktanlegu og frjósömu, enda gengur landbúnaður ekki upp án þess. Samvinnufélög í landbúnaði, í krafti skipulags þeirra og uppbyggingar, ættu að geta átt verulegan hlut að því að minnka orsakavalda matarsóunar. Landbúnaður hefur mótað landslag og menningu um allan heim. Landbúnaðarframleiðsla er undirstaða dreifbýlissamfélaga, bæði félags- og menningarlega, um leið og þau samfélög geta boðið upp á sjálfbæra ferðaþjónustu. Landbúnaðurinn hefur því bæði félagslegt og menningarlegt hlutverk. Sem markaðsdrifnir framleiðendur á heimsmarkaði leitast bændur sífellt við að framleiða meira með því að nota minna. Hagkvæm og skilvirk notkun aðfanga leiðir til aukinnar framleiðni og minni umhverfisáhrifa. Aðgengi að aðföngum þarf að vera tryggt svo sem að landi, auðlindum mörkuðum og fjármagni. Bændur þurfa sanngjarnt afurðaverð. Í virðiskeðju þar sem bændur eru oft í þröngri stöðu á milli afurðastöðva og aðfangabirgja, hafa þeir oft lítið svigrúm til samninga. Við erum þakklát fyrir stuðning og traust neytenda og myndum vilja nánara samband þar á milli. Við þurfum allan þann stuðning sem mögulegt er til að styrkja stöðu bænda innan virðiskeðjunnar. Ef bændum er ekki umbunað á sanngjarnan hátt fyrir framleiðslu sína í formi afurðaverðs, þá verður ekki um neitt fæðuöryggi að ræða, engin framleiðsla endurnýjanlegrar orku og engin þróun í hinum dreifðari byggðum. Þangað verður ekkert að sækja. Það er ljóst að hinar alþjóðlegu áskoranir fyrir landbúnað í heiminum eru miklar. Eftir að hafa kynnst viðhorfum og aðstæðum margra þingfulltrúa er ljóst að víða þarf gríðarlegt átak til að takast á við þessar áskoranir. Þar getum við vestrænu þjóðirnar orðið að liði, með því að styðja við uppbyggingu innviða og deila þekkingu. Umræða um landbúnaðarmál hér á landi er oft á tíðum óvægin og hljómar stundum eins og markmið hennar sé eingöngu að tala niður íslenskan landbúnað. Ekkert er hafið yfir gagnrýni, en stundum er gott að horfa á hlutina í stærra samhengi. Bændur um allan heim eru einfaldlega mjög mikilvægir … fyrir okkur öll. /SSS Austurbrú, þróunarfélag Austurlands, hefur ásamt samstarfsaðilum á Borgundar- hólmi í Danmörku, Suðurey í Færeyjum og Vesterålen í Noregi unnið að viðamikilli rannsókn þar sem leitast er við að kortleggja virði brottflutts ungs fólks til heimahaganna í gegnum menningarviðburði. „Heima er þar sem Eyjahjartað slær“. Flestar jaðarbyggðir eiga það sameiginlegt að ungt fólk flyst þaðan í miklum mæli, oftast til að sækja sér aukna menntun. Þetta unga og vel menntaða fólk hefur ekki skilað sér til baka og hefur af mörgum verið álitið sem svo að svæðin séu að missa mannauð varanlega. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar bent til þess að snúa þurfi sjónarhorninu og líta á unga brottflutta fólkið sem fjölþætta auðlind. Markmið rannsóknarinnar „Eyjahjartað“ var að skoða þá nálgun betur og gera tilraun til þess að mæla þá auðlind sem felst í hinum brottfluttu. Litið var til efnahagslegra, menningarlegra og félagslegra þátta. Frumkvæði brottfluttra Þátttakendur í rannsókninni voru aðilar á jaðarsvæðum í þremur löndum auk Austurlands; Bornholm í Danmörku, Suðurey í Færeyjum og Vesterålen í Noregi. Litið var til hátíða, höldnum að frumkvæði brottfluttra. Til að meta áhrif og virði brottflutts fólks á Austurlandi voru notaðar fjórar austfirskar hátíðir: Sviðamessan á Djúpavogi, Eistnaflug í Neskaupstað, Bræðslan á Borgarfirði og LungA á Seyðisfirði. Allar eiga þessar hátíðir sameiginlegt að brottfluttir Austfirðingar annaðhvort standa fyrir þeim og skipuleggja eða spila stórt hlutverk við undirbúning þeirra og framkvæmd. Mannauður Í ljós kom að meirihluti hátíðanna er gríðarlega stórt innlegg í svæðisbundna ferðamennsku, félagslíf og menningu á þeim stöðum þar sem þær eru haldnar. Því er hægt að álykta að framlag brottfluttra sé mikilsvirði fyrir svæðin sem flutt er frá. Þessi niðurstaða getur nýst sem innlegg í stefnumótun og áætlanagerð á jaðarsvæðum og ýtir undir mikilvægi þess að hlú vel að ungmennum á mótunarárum þeirra og mynda sterk tengsl við svæðin. Enn fremur að veita þurfi brottfluttum tækifæri til að viðhalda tengslum og leggja sitt af mörkum án þess endilega að flytja til baka. Í því liggur mikill mannauður sem jaðarbyggðir geta nýtt sér. /MÞÞ Blekking til sölu Austurbrú: Áhrif brottfluttra eru mikil − Laugardaginn 11. júlí − kl. 13.30-17 − Farmall í 70 ár − Fornbílar − Markaður − Listsýningar Kvenfélagskaffi, Skemman kaffihús Fróðleikur, skemmtun og afþreying af ýmsu tagi. Maður er manns gaman...! Hátíð á Hvanneyri

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.