Iðjuþjálfinn - 01.08.2011, Blaðsíða 18

Iðjuþjálfinn - 01.08.2011, Blaðsíða 18
18 • IðjuþjálfInn 1/2011 það áfall sem atvinnuleysi er hverjum og einum til að búa sig undir ný tækifæri í atvinnu með námi, námskeiðum eða mannbætandi tómstundum og menningarstarfsemi. Við vorum svo lánsöm að fá inni í þeim góðu húsa kynn­ um sem Virkjun hefur upp á að bjóða fyrir öll námskeiðin fyrir mæðurnar. Virkjun er staðsett á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Fjármálaráðgjöfin fólst í að skoða allar tekjur og útgjöld, meta ráðstöfunartekjur heimilisins með tilliti til hvað hver og ein fjölskylda þurfti til framfærslu og til að greiða niður skuldir. Með þessu móti sáu mæðurnar svart á hvítu hvernig fjármál þeirra stóðu og hvernig væri hægt að forgangsraða. Til að mynda voru margar sem stöldruðu við þegar þær sáu að af 115.000 kr. mánaðarframfærslu voru t.d. 38.000 kr. að fara í tóbak. Margar mæðranna áttu ekki fyrir mat síðustu dagana í mánuðinum og var ekki óalgengt að heyra að kvöldmatur fjölskyldunnar samanstæði af kornflexi eða núðlusúpu. Ljóst var einnig að skortur var á kunnáttu við að versla hagkvæmt inn til heimilisins, þekking á næringu var lítil sem og matreiðslukunnátta. Við ákváðum að tengja fjármálanámskeiðið við námskeiðið „Athafnir daglegs lífs“. Þar leiðbeindi ég sem iðjuþjálfi í því hvernig gott væri að skipuleggja daginn, forgangsraða og setja sér markmið. Þjálfun fólst í því að leiðbeina þeim með innkaup til heimilisins, versla á tilboðum, skipulagi við allar daglegar athafnir og heimilisstörf, eldhúsþjálfun þar sem þær lærðu að elda almennan hollan heimilismat, elda í frystinn og þess háttar. Fyrir jólin fengum við svo veislukokkinn Örn Garðars til okkar og hann kenndi þeim að búa til tvenns konar jólamat. Í tengslum við þetta námskeið settum við líka inn fræðslu um næringu, bæði fyrir fullorðna og börn. Einnig fengu þær fræðslu um heilsufar og heilbrigði. Nokkrar mæðranna voru þungaðar og flestar reyktu svo að að þeirra beiðni var sett inn reykinganámskeið frá Krabbameinsfélaginu. Við fengum til okkar félagsráðgjafa til að fjalla um foreldrahlutverkið og í samvinnu við sálfræðinga Heil brigðis­ stofnunar Suðurnesja var sett upp nám skeið sem bar heitið „Uppeldi til árangurs“. Það kom fljótlega í ljós, að eitt af því sem mæðurnar höfðu ekki tileinkað sér, voru tómstundir. Við settum á laggirnar námskeið í skartgripagerð, glerlist og þæfingu. Þar fóru konurnar að blómstra. Þarna gátu þær einnig útbúið jólagjafir handa sínum nánustu, en það hafði einmitt verið töluvert áhyggjuefni hjá þeim flestum hvernig þær ættu að fjármagna jólagjafainnkaup sín. Hvert listaverkið á fætur öðru leit dagsins ljós og allir voru glaðir. ASEBA­mælitækið var síðan aftur lagt fyrir um miðbik verkefnisins og aftur í lokin. Það sem kom í ljós í viðtölum mínum við þessar ungu konur, var að þær höfðu flestar orðið fyrir einhvers konar ofbeldi á lífsleiðinni. Í flestum tilvikum var um kynferðisofbeldi að ræða. Fæstar höfðu fengið viðeigandi aðstoð, þó svo að þær hafi verið flestar í sálfræðiviðtölum og í hinu svokallaða „kerfi“ um áraraðir. Margar voru á þunglyndis­ og/eða kvíðastillandi lyfjum. Að auki komu mæðurnar einnig flestar frá brotnum heimilum þar sem þær höfðu bæði séð og upplifað ýmis áföll. Hinn svokallaði félagslegi arfur virðist á góðri leið með að yfirfærast á kynslóðir, því eins og áður er nefnt eru margar kvennanna búnar að missa forræði yfir börnum sínum eða eru undir eftirliti barnaverndarnefndar. Þegar þessi vitneskja varð ljós voru þeim konum sem við átti boðinn viðeigandi stuðningur og aðstoð. Einhverjar þáðu, en aðrar treystu sér ekki til að vinna úr sínum áföllum að svo komnu. Sú staðreynd að konurnar höfðu orðið fyrir ofbeldi vakti hjá mér spurningar eins og: „Er möguleiki á að mæðurnar glími við áfallastreitu sem orsaki færniskerðingu og lélegt heilsufarsástand?“ Margar virtust með augljós einkenni áfallastreitu, sjálfar greindu þær sig gjarnan með athyglisbrest. Eitt var ljóst, það var ekki að ástæðulausu að þessar ungu konur voru komnar í það endurhæfingarúrræði sem við gátum boðið þeim upp á. Þær höfðu margar farið áður í gegnum ýmiss konar endurhæfingu og þjálfun er beindist að því að koma þeim á vinnumarkaðinn eða í nám. Með þetta að leiðarljósi sótti ég um að gera rannsókn á því hvort áfallasaga einstæðra mæðra hafi áhrif á félagslegar aðstæður þeirra og heilsu. Vísindasiðanefnd samþykkti rannsóknina án nokkurra athugasemda og er niðurstaðna að vænta um miðbik sumars. Úrtakið mun ná til fleiri mæðra en íhlutun fór fram á. Mun þetta verða fyrsta rannsókn sinnar tegundar hér á landi. Af þeim 26 mæðrum sem boðin var þátttaka, luku 10 verkefninu. Í lok verkefnis settu þær sér markmið. Flestar vilja þær mennta sig svo þær geti boðið börnum sínum upp á betri lífskjör. Í samvinnu við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, var því hafist handa við að skipuleggja grunnnám fyrir konurnar sem gæti búið þær undir frekari skólagöngu. Sex konur taka nú þátt í þessu námi, ein flutti burt og þrjár taka ekki þátt. Munu þær ljúka þessu grunnámi nú í maí. Í grunnnáminu verður haldið áfram að vinna með sjálfstyrkingu auk þess sem konurnar fá að spreyta sig í hinum ýmsu námsgreinum, bæði verklegum og bóklegum. Áhugasviðsmat er gert í lokin og hver og ein kona fær ráðgjöf hjá náms­ og starfsráðgjafa um áframhaldandi nám eða störf og viðeigandi stuðning til að takast á við það. Eftir að hafa lokið þessu sex mánaða verkefni tel ég að þær konur sem luku námskeiðinu og ekki síður þær sem héldu áfram séu þær konur sem eru hvað sterkastar í þessum hópi. Það sýnir okkur að við þurfum aðra nálgun til að ná til hinna sem ekki tóku þátt. Mögulega mun rannsókn mín leiða okkur nær því hvers konar aðstoð það er sem þessar konur þurfa og svara spurningunni hvort að áfallasaga sé sterkur áhrifavaldur á færniskerðingu einstæðra mæðra. Heimildaskrá Achenbach, T. M. (2009). The Achenbach System of Empirically Based Assessment (ASEBA): Development, Findings, Theory, and Applications. Burlington, VT: University of Vermont, Research Center for Children, Youth and Families. UNICEF (e.d.). Áhrif efnahagsþrenginga á börn. Samantekt frá UNICEF Ísland. Sótt 3. maí 2011, frá http://www.velferdarraduneyti.is/media/ velferdarvakt09/EfnahagsthrengingaBorn.pdf

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.