Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 7. ÁRG. 2007 Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). Eiríkur Jónsson Það hefur verið mikið um að vera í íslensku samfélagi nú á haustmánuðum. Gríðarlegur vandi hefur blasað við skólakerfinu vegna starfsmannaeklu. Þetta hefur einkum bitnað á nemendum leik- og grunnskóla. Launaþróun hefur verið óhagstæð þeim sem vinna innan skólakerfisins og fjölmargir hafa horfið til annarra og betur launaðra starfa. Það virðist sem svo að enginn sé í raun tilbúinn til að taka af skarið og koma skólunum til bjargar. Ríkisstjórnin ber vissulega ein ábyrgð á því að laun í framhaldsskólum halda ekki í við þróun launa annarra háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna. Horfi ríkisstjórnin á þessa þróun aðgerðalaus mun vandinn vaxa og verða mönnum illviðráðanlegur þegar loks kemur að því að sest verður að samningaborði næst. Ástand mála í grunn- og leikskólum ætti að vera nægjanlegt víti til varnaðar þar sem ekkert bendir til annars en að sambærilegt ástand muni skapast í framhaldsskólum á næstu misserum verði ekkert að gert. Þó að ábyrgð á rekstri leik-, grunn- og tónlistarskóla sé alfarið á ábyrgð sveitarfélaga er staðreyndin sú að ríkisstjórnin ber ekki síður ábyrgð á því ófremdarástandi sem nú ríkir í launamálum á þessum skólastigum. Hér kemur einkum tvennt til. Í fyrsta lagi vil ég benda á að allar götur frá því að sveitarfélögin yfirtóku að fullu rekstur grunnskóla árið 1996 hefur hlutdeild þeirra í þjóðarkökunni verið allt of rýr. Í meira en tíu ár hefur Kennarasambandið bent á þessa staðreynd en ávallt talað fyrir daufum eyrum. Árlega hefur ríkisstjórnin gumað af góðum rekstri og miklum tekjuafgangi en jafnframt horft upp á fjölmörg sveitarfélög engjast vegna fjárskorts. Svo virðist sem einhvers konar samtrygging stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka sé þess valdandi að menn geti ekki samið um skynsamlega skiptingu gæðanna. Hvað skýrir það til dæmis að fjölmargir sveitarstjórnarmenn, sem ná kjöri til Alþingis og tilheyra flokkum sem fara í ríkisstjórn og setjast jafnvel sjálfir í ráðherrastól, skuli aldrei setja á oddinn að tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga verði breytt sveitarfélögunum til hagsbóta. Hvað hafa til dæmis margir sveitarstjórnarmenn setið á þingi frá því 1995? Hve margir þessara þingmanna hafa flutt raunhæfar tillögur um að auka hlut sveitarfélaga í þjóðarkökunni og fylgt þeim tillögum eftir? Mér finnst þetta rannsóknarefni. Hitt atriðið er að ríkisstjórnin ákvað í nóvember 2004 að setja lög á verkfall í grunnskólum. Þó svo að samningar hafi verið gerðir í framhaldi af því er ljóst að það voru ekki frjálsir samningar. Með lagasetningunni ákvað þáverandi ríkisstjórn að lögbinda að laun í grunnskólum skyldu vera það lág að engar líkur væru á því að nokkur sátt gæti náðst milli sveitarfélaganna og þeirra starfsmanna sem við kjörin áttu að búa. Þessi sama lagasetning varð þess síðan valdandi að kjörin í leik- og tónlistarskólum tóku mið af þeim kjörum sem með óbeinum hætti voru lögþvinguð í grunnskólunum. Það eru því stuðningsmenn áðurnefndra laga sem ættu nú að stíga fram og bæta fyrir mistökin sem þeir gerðu haustið 2004. Það er að mínu mati lífsnauðsyn að laun allra sem vinna í skólum landsins verði hækkuð verulega og ég set spurningarmerki við hvort hægt er að bíða með það fram til næsta vors. Ég óttast að fleiri og fleiri flýi kjörin og taki tilboði um betur launuð störf. Það væri verðugt verkefni fyrir nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur að axla nú ábyrgð og sýna gott fordæmi með því að grípa þegar til aðgerða til að stöðva flóttann úr skólunum. Það verður ekki gert nema með því að hækka launin verulega. Það þarf ekki að bíða næstu samninga þar sem fjöldi leiða er fær til að bæta kjörin og brúa bilið þar til samningar losna á næsta ári. Starfsmannavandi skólanna verður ekki leystur með því að hræra endalaust í einhverjum vinnutímaskilgreiningum, hann verður einungis leystur með því að hækka kaupið. Vegna afskipta ríkisvaldsins af samningamálum í grunnskólum og þar með óbeint í leik- og tónlistarskólum er eðlilegt að ríkið komi að þessum málum á öllum skólastigum enda ber menntamálaráðherra og þar með ríkisstjórnin höfuðábyrgð á menntamálum þjóðarinnar. Við höfum ítrekað heyrt um mikilvægi skólastarfs og nauðsyn þess að í skólunum starfi velmenntað og ánægt starfsfólk. Við þurfum ekki fleiri yfirlýsingar í þá veru. Við þurfum raunhæfar aðgerðir og úrbætur og það strax. Eiríkur Jónsson 19.10. 2007 Ófremdarástand eða nýtt upphaf?

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.