Skólavarðan - 01.10.2007, Page 28

Skólavarðan - 01.10.2007, Page 28
28 RANNUNG SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 7. ÁRG. 2007 Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) var komið á laggirnar síðastliðið vor. Aðalmarkmið rannsóknarstofunnar er að auka og efla rannsóknir á menntun og uppeldi ungra barna og vera vettvangur fræða- þróunar á því sviði. Í þessu skyni er henni ætlað að eiga frumkvæði að og sinna rannsóknum, miðla þekkingu og kynna niðurstöður rannsókna á sviðinu m.a. með útgáfu fræðigreina og fræðirita og með fyrirlestrahaldi. Auk menntamálaráðuneytis eru samstarfs- og stuðningsaðilar rannsóknarstof- unnar Kennarasamband Íslands, Reykjavíkurborg og Umboðsmaður barna. Rannsóknarstofan hefur aðsetur í Kennaraháskólanum og henni veitir forstöðu Jóhanna Einarsdóttir prófessor við skólann. Jóhanna er jafnframt höfundur fyrstu bókarinnar sem RannUng gefur út, í sam- vinnu við Háskólaútgáfuna. Bókin ber titilinn Lítil börn með skólatöskur og fjallar um menntun ungra barna á fyrsta áratug 21. aldar. Í bókinni dregur Jóhanna saman niðurstöður rannsókna sinna undanfarinn áratug og bætir ýmsu við s.s. umfjöllun um forvitnilegar rannsóknir annarra fræðimanna á þessu sviði. „Hugmyndin var að taka þetta efni saman og búa það út þannig að það væri sem aðgengilegast fyrir kennara, kennaranema og aðra áhugasama,“ segir Jóhanna. „Ég fjalla um leikskóla og fyrstu bekki grunnskóla, tengsl skólastiganna og breytingar á lífi barna þegar þau fara á milli þeirra.“ Leikskóli og grunnskóli byggja á ólíkri hugmyndafræði og hefðum og Jóhanna skoðar þetta hvorttveggja ásamt því að rýna í sögu og starfshætti og kennsluaðferðir. Einnig er staldrað við sjónarmið barna, foreldra og kennara til skólastarfsins. Í formála bókarinnar Lítil börn með skólatöskur segir meðal annars: „Ólíkt því sem áður var eru nú flest íslensk börn frá þriggja ára aldri í leikskólum og börnum frá 0–2 ára í leikskólum hefur fjölgað ár frá ári. Fyrir 1990 voru nær eingöngu börn námsmanna og einstæðra foreldra lengur en hálfan daginn í leikskóla en 2004 voru yfir 70% barna á aldrinum 3–5 ára skráð lengur en 7 klukkustundir á dag í leikskóla og 30% barna tveggja ára og yngri.“ Þetta er mikil samfélagsleg breyting sem ekki hefur verið rannsökuð sem skyldi og bók Jóhönnu er þarft framlag til þeirrar umræðu. Í bók hennar gætir víða nýrra og nýlegra hugmynda sem þegar eru farnar að endurspeglast í skólastarfi og hverfast um lýðræði, þátttöku, virkni og eflingu. Flókið fjölmenningarsamfélag og líf sem er breytingum undirorpið sprettur fram af síðum bókarinnar en þó fyrst og fremst hlustun á og umhyggja fyrir skoðunum og tilfinningum barnsins. RannUng er með margt á prjónunum og nefna má tvær stórar rannsóknir, annars vegar um viðhorf barna til skólastarfs en henni stýrir Jóhanna Einarsdóttir og hins vegar um viðhorf og starf kennara ungra barna en þeirri rannsókn stýra Jóhanna Einarsdóttir og Arna Jónsdóttir. Báðar rannsóknir miða við börn og kennara barna frá upphafi skólagöngu til átta ára aldurs. Þá ber þess að geta að í apríl nk. verður haldin ráðstefna á vegum RannUng og Reykjavíkurborgar undir yfirskriftinni Raddir barna. keg LÍTIL BÖRN MEÐ SKÓLATÖSKUR, KAFLASKIPTING Inngangur Skipulag leikskóla og grunnskóla Starfshættir í leikskólum og grunnskólum Tengsl skólastiganna Kenningar Rannsóknir á tengslum skólastiganna Leiðir til að tengja skólastigin Viðhorf barna Viðhorf foreldra Á leið úr leikskóla í grunnskóla Einn með osti, takk Bls. 172: „Ef þróunin heldur áfram á þessari braut má leiða líkur að því að smám saman verði farið að skipuleggja kennslustundir í leikskólum, formleg lestrar- og stærðfræðikennsla færist neðar og dregið verði úr áherslu á leik. Judith Wagner (2005) talar um það sem hún kallar í þessu samhengi Hamborgarlögmálið og vísar til þess að Norðurlandabúar eru áratug eða tveimur á eftir Bandaríkjamönnum og Bretum hvað ýmsa miður æskilega þætti varðar. Hún líkir alþjóðlegum áhrifum á norræna skóla við útbreiðslu hamborgarastaða á Strikinu í Kaupmannahöfn.“ Fyrsta bókin komin út á vegum RannUng og margt fleira spennandi á döfinni JuliAnna Kunzler, fimm ára, mætir fyrsta daginn í grunnskólann. Myndina tók Bob Donaldson árið 2002 og við fundum hana á www.post-gazette. com/lifestyle/20021229yearpic5p9.asp

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.