Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 7

Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 7
7 KJARAMÁL SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 7. ÁRG. 2007 Fyrir um tveimur árum skrifaði ég um veikindarétt hér í Skólavörðuna, hversu mikill hann er m.v. starfsaldur, hvenær beri að skila vottorðum, hvenær megi krefjast þeirra og rétt foreldra vegna veikinda barna yngri en þrettán ára. Nú er ætlunin að skrifa um hvað gerist þegar starfsmaður fullnýtir veikindaréttinn og hverjir eru þá möguleikar hans. Veikindaréttur Veikindaréttur miðast við starfsaldur og verður mest 360 dagar eftir átján ár í starfi. Laun í veikindum eru þó ekki greidd lengur en ráðningu er ætlað að standa. Þegar starfsmaður hefur unnið hjá sama vinnuveitanda á opinberum markaði í eitt ár samfellt flytur hann með sér allan uppsafnaðan veikindarétt milli vinnuveitenda. Sá sem aldrei hefur náð að vinna samfellt í eitt ár hjá sama vinnuveitanda getur aftur á móti ekki flutt með sér veikindarétt milli vinnuveitenda. Í fyrstu viku veikinda skal greiða föst laun og fastar greiðslur, s.s. yfirvinnu, enda sé um að ræða fyrirfram ákveðinn vinnutíma. Eftir fyrstu viku veikinda er að auki greitt meðaltal tilfallandi yfirvinnustunda. Samkvæmt þessu fær starfsmaður því greitt í veikindum föst mánaðarlaun, fasta yfirvinnu og meðaltal tilfallandi yfirvinnu. Allir dagar telja í veikindum, líka laugardagar og sunnudagar, og starfsmenn eiga ekki inni viðbótarorlofsdaga vegna veikinda í jóla- og páskafríum, það á eingöngu við um veikindi í sumarorlofi. Veikindaréttur fullnýttur En hvað gerist þegar starfsmaður fullnýtir veikindaréttinn? Starfsmaður á rétt á að halda stöðu sinni launalaust jafnlengi og veikindaréttur varði, þ.e. starfsmaður með fullan veikindarétt sem hefur verið á launum í veikindum í 360 daga heldur stöðunni í aðra 360 daga, launalaust. Sjúkradagpeningar Hægt er að sækja um sjúkradagpeninga hjá Sjúkrasjóði KÍ sem greiðir þá til sjóðfélaga sem eru í starfi en lenda tíma- bundið út af launaskrá eða verða fyrir skerðingu á launum vegna veikinda eða slysa. Sjúkradagpeningar eru greiddir í allt að 360 daga, kr. 5.800 á dag miðað við fullt starf síðastliðna tólf mánuði eða samkvæmt meðalstarfshlutfalli þann tíma. Þar eð eitt af skilyrðum þess að geta sótt um sjúkradagpeninga hjá Sjúkrasjóði er að ráðningarsambandi sé viðhaldið eftir að veikindarétti lýkur, er mjög mikilvægt að starfsmaður nýti rétt sinn til að halda stöðunni launalaust. Í sérstökum tilvikum er sjóðsstjórn Sjúkrsjóðs þó heimilt að greiða sjúkradagpeninga í allt að sex mánuði eftir að ráðningartímabili lýkur. Sjúkradagpeningar að viðbættum örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum eða Trygg- ingastofnun ríkisins geta aldrei orðið hærri fjárhæð en sem nemur launaskerðingu sjóðfélaga. Lausnarlaun Þegar starfsmaður hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og hann átti rétt á að halda launum í veikindum má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Starfsmanni er þá veitt lausn frá störfum enda votti læknir að hann sé varanlega óvinnufær og skal hann fá greidd svokölluð lausnarlaun sem eru föst laun í þrjá mánuði. Þó skal það tekið fram að ekki er nauðsynlegt að nýta sér rétt sinn til að vera launalaus áður en lausnarlaun eru tekin, starfsmaður getur því ef læknir vottar farið á lausnarlaun í beinu framhaldi af veikindarétti. Örorkulífeyrir Starfsmaður getur líka átt rétt á að sækja um örorkulífeyri til síns lífeyris- sjóðs, annaðhvort jafnframt greiðslu sjúkradagpeninga og/eða þegar dag- peningatímabili lýkur. Hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eiga sjóðfélagar í A-deild rétt á örorkulífeyri ef þeir þurfa að minnka við sig vinnu eða hætta störfum sökum örorku sem metin er 40% eða meira og áunnið hafa sér a.m.k. tvö stig. Sjóðfélagar í B-deild sem þurfa að minnka við sig vinnu eða hætta störfum sökum örorku sem metin er 10% eða meira eiga einnig rétt á örorkulífeyri. Hjá Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga eiga þeir rétt á örorkulífeyri í A-deild og S-deild sem þurfa að minnka við sig vinnu vegna örorku sem metin er a.m.k. 40% eða meira, hafi þeir greitt lágmarksiðgjald til sjóðsins og orðið fyrir tekjuskerðingu vegna örorkunnar. Um upphæð örorkulífeyris fer samkvæmt reglum lífeyrissjóðanna. Aftur til starfa Komi starfsmaður aftur til starfa að loknum veikindum þarf hann að skila svokölluðu starfshæfnisvottorði hafi hann verið óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í einn mánuð eða lengur. Starfsmaður má ekki hefja störf að nýju án þess að læknir votti að heilsa hans leyfi og krefjast má vottorðs trúnaðarlæknis. Það er mjög mikilvægt fyrir starfsmann að skila inn 100% starfshæfnisvottorði enda byrjar hann ekki að ávinna sér veikindarétt að nýju nema það sé gert. Ég vil benda félagsmönnum á að mikil- vægt er að leita upplýsinga hjá KÍ áður en til uppsagnar vegna veikinda kemur svo að réttindum sé ekki fyrirgert með ótímabærri uppsögn. Ef þið hafið einhverjar spurningar um þetta eða annað er ykkur velkomið að hringja til mín í síma 595 1111 eða senda mér tölvupóst á netfangið ingibjorg@ki.is Ingibjörg Úlfarsdóttir launafulltrúi KÍ Ingibjörg Úlfarsdóttir launafulltrúi KÍ Lj ó sm y n d : S te in u n n J ó n a sd ó tt ir Sjúkradagpeningar, lausnarlaun, örorkulífeyrir. Veikindaréttur, hvað svo?

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.