Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 29

Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 29
SMIÐSHÖGG SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 7. ÁRG. 2007 Í tilefni af ADHD dögum, sem ég stóð fyrir í Reykjanesbæ dagana 26. og 27. október 2007, langar mig að skrifa nokkrar línur um ADHD markþjálfun (coaching) og málefni ADHD einstak- linga. Ég skráði mig í fjarnám í ADDCA (ADD Coaching Academy) fyrir einu og hálfu ári. Skólinn er í New York og fer námið fram í gegnum síma en öll hóp- og verkefnavinna í gegnum netið (www.addca.com). Ég hlaut styrk frá Velferðarsjóði barna fyrir tilstilli ADHD samtakanna, án þeirrar hjálpar hefði ég líkast til ekki komist í gegnum þetta nám og vil ég nota tækifærið og þakka þeim kærlega fyrir veittan stuðning. Ég útskrifaðist úr Fósturskólanum árið 1995 og hef unnið sem leikskólakennari síðan. Mér hefur alltaf fundist það mjög gefandi og skemmtilegt starf. Ég hef alið börnin mín upp ein og er því sjálfstætt foreldri. Eftir að við börnin mín vorum greind með ADHD voru úrræðin fyrir fullorðna nánast engin önnur en þau að fá lyf og reyna að fræðast um ADHD. Lesefni um ADHD hjá fullorðnum var af skornum skammti, það sem var til á íslensku fyrir þremur árum var nánast eingöngu um ADHD einkenni barna og hvernig mætti nota hegðunarmótandi/bætandi aðferðir til að ná stjórn á einkennum hjá þeim. Úrræðin fyrir börnin voru miðuð við þarfir grunnskólans, þ.e. að verkefnaskil væru í lagi, mætingar og hegðun í samræmi við reglur skólanna og að nemendur með ADHD færu sömu námsleiðir og aðrir nemendur í skólanum. Kennsluaðferðir kennaranna voru ekki til umræðu. Það var vandkvæðum bundið að fara fram á breytingar vegna þess að ég vissi ekki sjálf fyrr en seinna hvað börnin mín þurftu. Heimilislífið snerist fyrst og fremst um að ná markmiðum skólans. Oft var ég úrvinda og hætti að endingu að lifa félagslífi og dró mig í hlé. Ég fann mig knúna til að leita mér fræðslu sem gæfi mér jákvæða mynd af sjálfri mér og börnunum mínum, það hlyti að vera til eitthvað meira en námskeið í hegðunarstjórnun og sjálfstyrkingu sem tók bara á yfirborði vandans. Sem betur fer hefur mikið vatn runnið til sjávar í skólakerfinu síðan þá en við eigum langt í land enn til að uppfylla og mæta þörfum ADHD einstaklinga. Það sem vegur þyngst er að þeir sem eru með ADHD fræðist um einkenni sín en þau eru einstaklingsbundin og staðbundin. Það þýðir að engir tveir eintaklingar eru með eins einkenni, þau koma fram við mismunandi aðstæður og hafa mismikil hindrandi áhrif á líf einstaklingsins. Margir einstaklingar með ADHD eru með mjög lélega sjálfsmynd og vantrúaðir á eigið ágæti enda líka margir hverjir búnir að heyra í mörg ár hversu ómögulegir þeir séu. Oft hefur verið sagt við mig: „Ég er bara að benda þér á ...“ og þá er ekki verið að benda mér á styrkleika mína. Það hefur sem sagt verið lögð ofuráhersla á vankanta, vanhæfni og galla í fari mínu sem hefur greypt sig í sálina og verður seint afmáð. Það var ekki fyrr en ég hóf þetta nám að ég gerði mér grein fyrir hversu mikilvægt er að hamra stöðugt á því góða í fari manns. Það vex sem við veitum athygli en hitt veslast upp. Það segir sig því sjálft að við eigum að ýta því frá okkur sem er neikvætt í fari einstaklings, sama hver hann er og hvort hann er með ADHD eða ekki, en hlúa að og styrkja það jákvæða. Þegar athyglin bregst hjá ADHD einstaklingum, hvað eftir annað, þá stendur einungis neikvæð upplifun eftir en sá sem ætlaði að hjálpa með því að segja: „Ég er bara að benda þér á ...” nær ekki markmiði sínu. Þess í stað brotnar sjálfsmyndin meira, athyglisbresturinn hreiðrar enn betur um sig og styrkleikarnir skríða enn dýpra inn í skuggana. Við ADHD fólk erum með viðkvæm skynfæri sem gefa heilanum mjög ýktar upplýsingar. Við þolum misvel lýsingu, hljóð og áreiti, til dæmis geta hátíðnihljóð og sterk ljós haft gríðarlega truflandi áhrif. Umhverfi með miklu áreiti sem getur haft hamlandi áhrif á einn virkar skapandi og hvetjandi fyrir annan. Tónlist dregur úr umhverfishljóðum og er ein besta hjálp í námi fyrir einstakling sem á erfitt með að einbeita sér. Mp3 spilarar og ipodar eru eitur í beinum sumra kennara en þeir vita ekki hve mikil hjálp er að því að geta útilokað hljóð sem trufla einbeitinguna. Fyrir suma ADHD einstaklinga er það líkt og fyrir sjóndapran einstakling að fá að nota gleraugu. Aðrir þurfa hreyfingu og það er ein stærsta hindrun sem ADHD einstaklingur verður fyrir ef hann þarf að sitja alveg kyrr. Heilinn lokar á upplýsingastreymið og lærir þar af leiðandi ekki neitt á meðan. Ein af mörgum hindrunum í lífi ADHD einstaklings er að hann getur ekki haldið athygli ef hann hefur ekki áhuga á viðfangsefninu. Þetta er nokkuð sem ADHD einstaklingur ræður ekki við, annars væri hann líkast til ekki með ADHD. Það getur kostað hann námið því hegðunarbrestir koma oftast fram á barnsaldri og tilraunir til að ná stjórn á hegðun með því að refsa eða umbuna mistakast vegna þess að áhugasvið og þarfir einstaklingsins eru ekki höfð að leiðarljósi í náminu. Álagið getur aukið einkennin sem svo valda auknum erfiðleikum við að fylgja eftir hegðunarreglum stofnana. Mikið vatn hefur runnið til sjávar en við eigum enn langt í land Í fjölskyldu leikskólakennarans og ADHD markþjálfarans Kristjönu B. Svansdóttur eru allir með ADHD, hún sjálf og börnin hennar. Það var vandkvæðum bundið að fara fram á breytingar vegna þess að ég vissi ekki sjálf fyrr en seinna hvað börnin mín þurftu. Heimilislífið snerist fyrst og fremst um að ná markmiðum skólans. Oft var ég úrvinda og hætti að endingu að lifa félagslífi og dró mig í hlé. Kristjana B. Svansdóttir

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.