Skólavarðan - 01.10.2007, Page 30

Skólavarðan - 01.10.2007, Page 30
30 SMIÐSHÖGGIÐ SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 7. ÁRG. 2007 Margir skólar á öllum skólastigum eru þó að gera góða hluti sem ber ekki mikið á. Af eigin reynslu og annarra veit ég að til dæmis Akurskóli í Innri Njarðvík hefur á sér mjög gott orð fyrir fjölbreyttar kennsluaðferðir og að þar er tekið sérstakt tillit til þarfa nemenda sem þurfa að fara óhefðbundnar námsleiðir. Virðing er borin fyrir barninu og fjölskyldu þess og reynt að koma til móts við óskir um hvernig námi hvers og eins sé háttað. Menntaskólinn á Egilsstöðum fær einnig hrós fyrir tilraun til að veita nemendum með ADHD í menntaskóla stuðning en í skýrslu Sigrúnar Harðardóttur kennara við skólann kemur berlega í ljós hvað þörfin á að hjálpa börnum og ungmennum við að halda utan um námið og skipuleggja það er mikil. Þó fannst Sigrúnu að gera mætti meira og er ég þar sammála. Hvað skyldi það vera sem hindrar samfélagið í að breyta skólakerfinu okkur öllum til góðs? Vinna kennara gæti orðið auðveldari og ef hegðunarvandkvæði minnka þá græða aðrir nemendur á því líka, en oftast heyri ég spurt: „Hvað með hin börnin?“ Já, hvað með þau? Eru þau ekki fær um að sýna skilning á því að við erum ekki öll eins og þurfum að fara mismunandi leiðir? Hjólastólar og gleraugu venjast, því ættu ekki þau hjálpartæki sem ADHD einstaklingar þurfa á að halda að venjast líka? Eigum við kannski ekki jafnan rétt á menntun eins og segir í lögum eða erum við misrétthá í skólakerfinu? ADHD markþjálfun er samvinna á milli þjálfara og skjólstæðings hans. Hlutverk þjálfarans er vel afmarkað þar sem markmið hans er eingöngu að veita skjólstæðingnum möguleika á að þroska sjálfan sig og hæfileika sína og öðlast meiri lífsgæði. ADHD þjálfari getur hjálpað einstaklingum með ADHD greiningu að vinna úr henni og nýta sér einkennin til góðs. Samvinnan felst í því að skjólstæðingurinn sé tilbúinn að reyna ýmislegt sem hann hefur ekki reynt áður og opna augun gagnvart ónýttum möguleikum, nálgast gamla drauma og setja sér markmið. Hæfileikar eru forsendan fyrir velgengni skjólstæðingsins og marka oft áhugasvið hans. Við hættum að hamast í veikleikunum því að sannað er að enginn hefur náð langt á þeim en styrkjum í staðinn allt það sem einstaklingurinn getur og hefur fram að bjóða. Hugmyndafræðin sem ég vinn eftir byggist á að einstaklingurinn er sérfræðingur í sjálfum sér og hvernig hann virkar. Foreldrar ADHD barna eru einnig sérfræðingar og talsmenn barnanna í leik,- grunn- og framhaldsskóla þar til þau eru átján ára gömul. Í aðalnámskrá grunnskóla er tekið fram að áhugasvið nemenda sé virt en það er erfitt í framkvæmd þegar svo margt annað í námskránni er tekið fram fyrir í forgangsröðuninni, til dæmis að komast yfir sem mest efni án þess að tillit sé tekið til gæðanna og frammistaðan mæld í prófum þar sem niðurstöður gefa greinilega til kynna hvað nemendur kunna ekki. Margir grunnskólakennarar eru á móti þessari námsmatsaðferð en fá ekki rönd við reist. Niðurstaðan fylgir ADHD krökkum út ævina og hefur áhrif á hvers konar líf þeir öðlast í stað þess að fundið sé út hvað þeir kunna í reynd og námið skipulagt út frá því. Sumir kennarar skella skollaeyrum við óskum foreldra þó að hlutverk grunnskólans sé skýrt tekið fram í lögum í I. kafla. Markmið og skólaskylda. Þar segir: „Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið. Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.” Fylgja allir skólar á Íslandi þessum lögum? Það gæti komið fólki á óvart hversu hæfileikaríkir ADHD einstaklingar eru og hvað þeir eru fróðleiksfúsir. Mörg, að sumra mati öll, börn með ADHD eru venju fremur skapandi og mikil búbót fyrir samfélagið ef það leyfir sköpunargáfu þeirra að blómstra. Við þurfum að fara aðrar leiðir en viðurkenndar eru í skólakerfinu. Af hverju komast þær ekki til framkvæmda? Vegna hræðslu við að henda úreltum hugmyndum út og taka nýjar inn? Þótt ég telji að einstaklingar séu sérfræðingar í sjálfum sér og börnum sínum þá er trú þeirra á sjálfum sér byggð á frammistöðumati annarra. Það getur tekið einstaklinginn langan tíma að öðlast sjálfstraust á ný og byggja upp nýja sjálfsmynd. Hegðun sem hefur verið æfð í mörg ár er erfitt að breyta á stuttum tíma en um leið og einstaklingurinn finnur að hann er stærsti áhrifavaldurinn í eigin lífi og getur hannað það eftir eigin höfði þá fara hlutirnir að gerast. Þjálfunarsamvinnan getur gert skjólstæðingnum kleift að finna hvaða leiðir henta honum og það getur haft stórkostleg áhrif á líf hans og líðan. Oft þarf ekki kostnaðarsamar aðgerðir til að gera ADHD einstaklingum lífið léttara. Það getur verið jafneinfalt og að bjóða nemanda upp á að sauma út um leið og hann hlustar á sögu. Breytt viðhorf, skilningur og vilji til að breyta geta gert gæfumuninn fyrir ADHD einstaklinga og með hjálp skólakerfisins er allt mögulegt. Það gæti dregið úr hegðunarerfiðleikum og aukið möguleika ADHD einstaklinga á að öðlast hamingjuríkt líf og meiri lífsgæði. Kristjana B. Svansdóttir (kitta) Höfundur er leikskólakennari og ADHD coach. simnet.is/adhdcoach adhdcoach@simnet.is Oft hefur verið sagt við mig: „Ég er bara að benda þér á ...“ og þá er ekki verið að benda mér á styrkleika mína. Það hefur sem sagt verið lögð ofuráhersla á vankanta, vanhæfni og galla í fari mínu sem hefur greypt sig í sálina og verður seint afmáð.

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.