Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 20

Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 20
20 MÁLÞING KHÍ: INGÓLFUR ÁSGEIR JÓHANNESSON SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 7. ÁRG. 2007 Svo hljóða upphafsorð Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar aðalfyrirlesara á rann- sóknamálþingi KHÍ um miðjan október. Fyrirlesturinn vakti verðskuldaða athygli og hóað var í Ingólf í viðtöl í fjölmiðlum sem er sérstaklega gleði- legt enda alltof fátítt að uppeldis- og menntaumræða fái rými á þeim vettvangi. Fyrirlesturinn er líka kominn á netið og slóðin er www.ismennt.is/ not/ingo/umhy.htm Hér grípum við niður í fyrirlestur Ingólfs á nokkrum stöðum, án efa verður það til þess að vekja áhuga á að lesa hann í heild á fyrrgreindri vefsíðu. Millifyrirsagnir eru blaðsins. ...fullvaxta nemendur þurfa líka umhyggju „Ég er hér með tvenns konar líkingar um umhyggju. Í fyrra lagi móðurlega umhyggju sem ég lít á sem vinnubrögð þar sem er fast að því hugsað fyrir nemendur eða skjólstæðinga, fylgst með þeim frá degi til dags eða viku til viku... Móðurleg umhyggja getur líka falist í því að koma sér upp nægum áhuga á íþrótt sem drengur horfir á eða þeirri tónlist sem hann hlustar á, eða horfa á myndböndin, jafnvel tölvuleikina, sem eru vinsæl á meðal unglinga ... Í síðara lagi er til hugtakið prestleg umhyggja sem er þýðing á pastoral care – þ.e. umhyggja fyrir sálinni og velferð hennar í framtíðinni, tilhneiging til þess að breyta barninu og bæta það (Popkewitz, 1998). Enda þótt ég hafi ekkert á móti umhyggju fyrir sálinni og þeim rökum, sem ég þurfti oft að beita hér „í fyrndinni“ fyrir meira en tuttugu árum þegar ég var sögukennari (í Menntaskólanum við Sund og enn fyrr í Breiðholtsskóla), að sagnfræðileg þekking væri nauðsynleg í framtíðinni, þá eru mín rök þau að það er ekki nóg að hugsa til framtíðar heldur verður að skoða þarfir nemenda sem við tökum þátt í að ala upp í núinu. Og þetta á líka við um framhalds- og háskóla – gleymum því ekki – nemendur þeirra hafa líka þörf fyrir umhyggju – eins og ég nefndi áðan. ...dregur umtal um kvennamenningu úr umhyggju? Ég óttast verulega að umtal um að kvenna- menning sé mikil í leikskólum og að hún leggi undir sig skóla á öðrum stigum geti orðið til þess að kennslukonur og kennslukarlar á öllum skólastigum forðist að sýna móðurlega umhyggju eða forðist að halda því á lofti að hún sé kjarnagildi skólastarfsins. Móðurleg umhyggja er auðvitað samlíking um þau vinnubrögð og viðhorf sem kennarar af báðum kynjum og á öllum aldri þurfa að tileinka sér – pínulítið stríðnispúkaleg samlíking til að undirstrika að það eru ekki bara konur sem þurfa að geta haslað sér völl á vettvangi karla heldur er líka nauðsynlegt að karlar eigi tækifæri á vettvangi sem hefur einkum verið vettvangur kvenna. Hér hef ég leikskóla sérstaklega í huga því að í raun og veru er stutt síðan grunnskólar voru ekki síður, jafnvel fremur, vettvangur karla en kvenna. Umhyggja á heima í öllum skólum: Hlutverk, viðfangsefni og sjálfsmynd kennara á 21. öld Opnunarfyrirlestur á málþingi Kennara- háskóla Íslands 18.–19. október 2007 „Umhyggja er orð sem vekur upp notalegar til- finningar, það er tákn um hlýju og fallegar hugsanir. En er umhyggja fyrsta hugtakið sem kemur í hugann þegar rætt er um skóla? Umhyggja er örugglega ein af fyrstu hugmyndunum sem kemur í hugann um leikskóla og líka um grunnskóla, a.m.k. yngstu bekki hans. – En er hún fyrsta hugmyndin um háskóla- eða framhaldsskólastarf? Það er ég ekki viss um. Þó ætla ég að halda því fram að umhyggja eigi að vera kjarni skólastarfsins í öllum skólum á öllum skólastigum og líka í skólum utan skólakerfisins, svo sem í endur- og símenntun starfsgreina, raunar hvarvetna þar sem kennsla fer fram.“ Ingólfur Ásgeir Jóhannesson kallar eftir því að umhyggja verði miðlæg í sjálfsmynd kennarans og öllu starfi hans.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.