Skólavarðan - 01.12.2008, Qupperneq 3
3
FORMANNSPISTILL
Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa
formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag
framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara
(FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT),
Skólastjórafélag Íslands (SÍ).
SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 8. ÁRG. 2008
Björg Bjarnadóttir
„Ein ríkasta þjóð í heimi hefur alla burði til að skapa kennurum og
nemendum á öllum skólastigum enn betri starfsaðstæður og kjör en
nú eru í boði“. Þessi orð voru niðurlag formannspistils sem fjallaði
um upplifun mína eftir heimsþing kennara sem haldið var í Berlín í
fyrrasumar. Meining orðanna var að þó við sætum við allsnægtarborð
miðað við margar aðrar þjóðir þá mætti betrumbæta ýmislegt í
íslenska skólakerfinu, m.a. kjör kennara.
Síðan þetta var ritað hefur mikið vatn runnið til sjávar. Við erum
ekki lengur ríkust þjóða í þeim skilningi og þarna er átt við, þvert á
móti. Það hefur komið fram að Íslendingar verða eftir efnahagshrunið
ein skuldugasta þjóð í heimi, langt fram í tímann. Þjóðfélagið hefur
síðustu vikurnar verið meira og minna á hvolfi, lífið er öðruvísi, allt
er undirlagt af stanslausri umfjöllun um efnahagsmálin, margir
eru áhyggjufullir, kvíðnir og svartsýnir Þvílíkur umsnúningur hjá
hamingjusömustu þjóð í heimi. Við fengum aldeilis á baukinn. En
allt um það, lífið heldur áfram og nauðsynlegt að horfa á björtu
hliðarnar og hið jákvæða, ekki síst í mesta skammdeginu þegar
myrkrið grúfir yfir nær allan sólarhringinn.
Fyrirsögn pistilsins vísar í ljóð sem heitir Lítill heimur og er eftir
Friðrik Guðna Þórleifsson. Mig langar að deila þessum texta með
ykkur vegna þess að mér finnst hann innihaldsríkur og eiga erindi
til allra.
Þar er gott að vera sem gleðin býr
þar sem gerast sögur og ævintýr.
Svona er veröldin okkar
sem laðar og lokkar
svo ljúf og hýr.
Lítill heimur, ljúfur hýr,
lítill heimur, ljúfur hýr,
lítill heimur, ljúfur hýr
eins og ævintýr.
Þessi texti ómar gjarnan í leikskólum og það er unun að hlusta á
tærar barnsraddir flytja þennan fallega boðskap. Mér finnst að við
skólafólk getum heimfært hann upp á skólann, hvort sem hann hýsir
smáar manneskjur eða stórar. Það hlýtur að vera eftirsóknarvert að
skólinn sé „lítill heimur“ þar sem gott er að vera og gleðin býr, þar
sem gerast sögur og ævintýr, eins og segir í vísunni. Í skólanum á
öllum að líða vel, en það gerist vitanlega ekki af sjálfu sér. „Heiminn“
verðum við kennarar og skólastjórnendur að skapa í samvinnu við
alla sem tilheyra skólasamfélaginu og þar eiga nemendur og líðan
þeirra að vera í brennidepli.
Nú er brýnt að hlúa að jákvæðum gildum og hefja mannlega
þáttinn til vegs og virðingar sem aldrei fyrr. Ábyrgð skólanna er
mikil að þessu leyti. Þar kunna menn til verka enda snýst starfið að
stórum hluta um mannleg samskipti. Börnum þarf að búa styðjandi
og skapandi umhverfi til að þau njóti sín og fái útrás fyrir tilfinningar
sínar og úrlausnarefni. Við þurfum að vera sérstaklega meðvituð um
þetta á þessum tímum.
Það er lærdómsríkt að styðja og hjálpa börnum að takast sjálf á
við verkefni sem lífið færir þeim, ekki síst á erfiðum tímum. Þá þarf
að gefa ennþá meira af sér en á móti kemur sú nærandi vissa að
maður gerir gagn, er jákvæð fyrirmynd, fræðari og vinur. Viðfangsefni
kennara og skólastjóra eru margslungin og og verkefnin mörg og
breytileg frá degi til dags. Þess vegna er starfið svo áhugavert og
gefandi.
Einhverjum kann að finnast að efni pistilsins feli í sér afneitun
og að efnahagskreppunni eigi að úthýsa úr skólum. Það er þó ekki
mín skoðun því hlutverk skóla í þessum darraðardansi er meðal
annars að vera vakandi yfir áhrifum kreppunnar og að hjálpa
börnunum að vinna úr þeim. En hvað um kjörin, kann einhver að
spyrja. Hefði ekki verið viðeigandi að ræða um þau í þessum pistli,
í ljósi aðstæðna og þeirrar staðreyndar að kjarasamningar tveggja
aðildarfélaga í KÍ, leikskólans og tónlistarskólans, eru lausir? Jú,
vissulega, ef eitthvað væri komið fram þegar þetta er skrifað. Vegna
efnahagsástandsins hafa viðræður gengið hægt og í raun lítið annað
að segja um málið en að þessir hópar þurfa að fá kjarabætur. Ég
vona að kjarasamningsgerð verði lokið áður en jólahátíðin gengur í
garð og kjarasamningar þar með í höfn hjá öllum aðildarfélögum KÍ
á árinu 2008.
Ég óska öllum félagsmönnum Kennarasambands Íslands
gleðilegrar hátíðar.
Björg Bjarnadóttir
Þar er gott að vera sem gleðin býr
Skólinn á að vera „lítill heimur“ þar sem gott
er að vera og gleðin býr, þar sem gerast sögur
og ævintýr. Á erfiðum tímum þurfa kennarar
að gefa ennþá meira af sér en ella, á móti
kemur sú nærandi vissa að maður gerir gagn,
er jákvæð fyrirmynd, fræðari og vinur.