Skólavarðan - 15.01.2001, Blaðsíða 4

Skólavarðan - 15.01.2001, Blaðsíða 4
Umræðan 5 Kristinn Breiðfjörð Guðmundsson: Í nýgerðum kjarasamningi grunnskólans er fólgin nokkurs konar stefnulýsing og hún mun hafa áhrif á skólastarf ef menn vinna í takt við og nýta sér samninginn. Hvort þessi samningur muni leiða til betri grunn- skóla er ekki hægt að fullyrða um sem stendur. Það gerist ekki sjálfkrafa en ég sé þarna möguleika til skólaþróunar. Skóla- stjórnendur fá meiri tíma til verkstjórnar, boðið er upp á verkaskiptingu og mismun- andi áherslur eftir persónuleika og áhuga- sviði hvers og eins sem hægt er að nýta til skólanámskrárgerðar, í innra mat og önnur störf sem hafa að einhverju leyti legið á hillunni. Í samningnum er fólgin viðurkenning á að kennsla felist ekki bara í að kenna marg- földunartöfluna, sem ég tel mjög mikil- væga. Eins og við vitum er margt sem hrjáir nemendur okkar og sem oft og tíðum hamlar námi. Þetta eru töluvert tímafrek og krefjandi verkefni sem kennarar hafa sinnt en nú er hægt að vænta þess að þau verði metin til launa. Ef litið er til framtíðar gefur þessi samn- ingur von um að auðveldara verði að manna skólana, bæði að ráða velmenntaða kennara og halda í reynda kennara, sem vegur mjög þungt í rekstri skólanna í fram- tíðinni. Við getum þá einbeitt okkur meira að faglegu starfi og náð betri árangri í því starfi sem snýr að andlegri líðan og uppeldi nemenda. Samfélagið hefur breyst verulega á und- anförnum fimm árum og ég sé það til dæm- is í mínu umhverfi. Þjóðum sem sækja hingað og við veitum ýmsa þjónustu hefur fjölgað og nemendur með alls konar bak- grunn koma inn í skólana. Þetta er mikil á- skorun og mun gera starf kennara og stjórnenda töluvert flóknara en verið hefur, en um leið litríkara og að vissu leyti skemmtilegra. Annað sem hefur breyst mikið undanfar- in ár er tæknin. Áskorunin þar felst í að kennarar öðlist þekkingu til að nýta tæknina á fjölbreyttan hátt í skóla- starfi. Þetta kallar á mikla endur- menntun en mun tvímælalaust skila sér í betra skólastarfi ef vel tekst til. Ég hef þó ekki oftrú á tengslum nemanda og tölvu. Kennarinn verð- ur áfram í fyrirrúmi um langa fram- tíð að mínu mati. Loks er það hlutverk stjórnenda sem þegar er byrjað að breytast. Kröfur til skólastjóra og millistjórn- enda hafa aukist og samhliða þarf að auka námsframboð fyrir stjórnendur, annars vegar grunnmenntun og hins vegar símenntun en hún er ekki síður mikilvæg en fyrir kennnara og grundvallaratriði í skólaþróun. Daníel Gunnarsson: Að forminu til hefur grunnskólinn ekki breyst mikið síðustu ár en mjög margt í kennslunni hefur breyst. Við verðum alltaf að hafa í huga að skólastarf snýst um fólk, það er nemendur og kennara. Því miður virðist mér sem ríkt hafi þjóðarsátt um að gera kennarastarfið að láglaunastarfi. Hér sem annars staðar á við að mestu veldur hver á heldur og því þarf ánægt, metnaðar- fullt og velmenntað fólk að starfa í grunn- skólanum. Nú hafa verið gerðir nýir kjara- samningar og verður að koma í ljós hvort og þá hvaða áhrif þeir hafa á skólastarfið. Ef þeir leiða af sér að kennarar sem eru við kennslu í grunnskólanum verði sáttir við kjör sín, kennarar sem hætt hafa kennslu vegna launa geti hugsað sér að koma aftur til starfa og síðast en ekki síst að kennara- nám verði valkostur fyrir ungt og hæfileika- ríkt fólk, hafa þeir náð tilgangi sínum. Ann- ars eru þeir ónýtir. Grunnskólinn þarf að breytast og verða einstaklingsmiðaðri vegna þess að nem- endahópurinn verður sífellt fjölbreytilegri. Hér á ég við fjölgun nemenda af erlendu þjóðerni, fjölgun fatlaðra nemenda í al- menna grunnskólanum og síðast en ekki síst virðist mér munurinn á kunnáttu og færni almennra nemenda alltaf vera að aukast. Áherslur á heimilum barnanna eru svo misjafnar og börnin endurspegla þær í skólanum. Kennarastarfið verður hér eftir sem hing- að til mannræktarstarf. En ég held að það muni breytast nokkuð á næstunni. Því er oft haldið fram að skólinn hafi einkum þrjú hlutverk, þ.e. kennslu,- uppeldis- og gæslu- hlutverk. Hér áður fyrr hafði hann einkum kennsluhlutverkið. Ég held að sá tími sé runninn upp að þetta fyrrum aðalhlutverk skólans verði með skýrari hætti meginvið- fangsefni kennara. Ég held að bekkjafyrir- komulagið muni leysast upp og kennarar í vaxandi mæli stýra nemendum í sjálfsnámi, gera áætlanir með þeim, aðstoða við val á heimildum og gögnum í stað þess að miðla af eigin reynslu og þekkingu. Ég sé fyrir mér meiri sérhæfingu kennara og mjög auknar kröfur til þeirra. Þeir þurfa ekki ein- ungis að vera vel að sér í uppeldis- og kennslufræðum. Þeir þurfa að búa yfir haldgóðri almennri þekkingu og fylgjast sí- fellt með tækninýjungum á tölvusviðinu því að með þeim tækjum fer gagna- og upplýs- ingaöflunin fram. Kennararnir eru auður hvers skóla og ég get alveg séð fyrir mér mismunandi áherslur í skólum byggðar á þeim mannauði sem fyrir er á hverjum stað. Þrátt fyrir að allir grunnskólar starfi eftir grunnskólalögum og aðalnámskrá um grunnskóla eru þeir ólíkir. Aðstæður eru misjafnar, nemenda- og kennarahóparnir ó- líkir, áherslur mismunandi, metnaður og geta sveitarstjórna misjöfn og fleira mætti ef- laust telja upp. Ég held að sá tími sé framundan að stefna hvers skóla verði mörk- uð með skýrari hætti en áður og endurspegli sérstöðu hvers skóla. Því held ég að skólar verði ólíkari hver öðrum í næstu framtíð. Ég get vel trúað því að ekki sé langt í að foreldrar óski eftir að geta valið skóla fyrir barn sitt. Þetta á einkum við í þéttbýli. Á sama hátt get ég séð fyrir mér að skólar geti hafnað nemendum sem takast ekki á við það nám sem kynnt er í námskrá skólans. Valið hlýtur að verða á báða bóga. Lengri gerð greinar er á heimasíðu KÍ. Skólavarðan fékk tvo skólastjóra, þá Kristin Breiðfjörð Guðmundsson, skóla- stjóra Grunnskólans á Ísafirði og Daníel Gunnarsson, skólastjóra Öldu- selsskóla, til þess að velta vöngum yfir á hvern hátt grunnskólinn muni breytast á næstu árum. Skóli morgundagsins

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.