Skólavarðan - 15.01.2001, Blaðsíða 9

Skólavarðan - 15.01.2001, Blaðsíða 9
Skól i og samfélag 11 Gildandi grunnskólalög og reglugerðir kveða ótvírætt á um að nemendur með ann- að móðurmál en íslensku eigi rétt á sérstök- um stuðningi í íslensku. Í reglugerð með lögunum stendur að nemendur eigi rétt á tveimur tímum í sérstakri íslenskukennslu á viku. Þar er einnig viðurkennd sú staðreynd að uppruni nemenda, menning og móður- mál skipta miklu máli um hversu fljótir þeir eru að tileinka sér íslensku að því marki að þeir geti nýtt sér hana sem verkfæri til hugsunar, samskipta og upplýsingaöflunar. Hins vegar er hvergi kveðið á um hversu lengi nemendur eigi rétt á stuðningi né hvernig sé heppilegt að stuðningurinn eigi að fara fram. Undirritaðri er kunnugt um að einstök sveitarfélög hafa ákveðin viðmið, svo sem að nemendur fái stuðning í tiltekinn tíma eftir komuna til landsins, oft á bilinu 2-4 ár. Ég vara eindregið ósveigjanleika í þessum efnum því að rannsóknir sýna að það tekur að meðaltali 5-7 ár (jafnvel allt að 10 ár ef nemandi kemum fá mjög ólíkum menning- arheimi) að ná nægilegri færni í læsi á öðru tungumáli til að geta óhindrað stundað nám á málinu. Hafa verður í huga að ungir nemendur ná oft undrafljótt tökum á fram- burði og formbyggingu tungumáls og virð- ast því kunna málið en þegar að er gáð er læsi þeirra á málinu lítið sem ekkert, þ.e. þeir skilja ekki námsbækurnar sem ætlast er til að þeir lesi. Allt of stór hópur missir því af inntaki náms í grunnskóla og er illa í stakk búinn að takast á við nám í fram- haldsskóla. Ekki hafa allir nemendur með annað móðurmál en íslensku fengið þann stuðn- ing sem þeir eiga rétt á að undanförnu en það er mjög misjafnt eftir sveitarfélög- um/skólum hvernig staðið er að stuðningi við þennan hóp nemenda. Flest sveitarfélög á landinu fá framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til kennslu í ís- lensku sem öðru tungumáli. Hann greiðir að jafnaði tvo tíma á viku með hverjum nemanda. Sum sveitarfélög gera betur og bæta við tímum sem er að sjálfsögðu gott, en brýnt er að kanna hvernig fénu er varið og hvort hægt sé að nota það betur. Einstök sveitarfélög sem ekki fá stuðning úr jöfnun- arsjóði hafa sjálf metið þörf nemenda sinna fyrir stuðning og standa sig misvel gagnvart lögum. Móttökudeildir Þar sem nemendur á byrjunarstigi í ís- lensku eru margir hefur verið unnt að skipuleggja svokallaðar móttökudeildir. Hver skóli hefur að sjálfsögðu sinn háttinn á skipulagningu móttökudeilda en mark- miðið hjá þeim öllum er að kenna börnun- um íslensku og reyna að sjá til þess að nem- endur missi sem minnst úr inntaki náms á meðan þeir eru að tileinka sér nægilega færni í íslensku til að geta stundað nám í al- mennum bekkjum. Móttökubekkir hafa al- mennt gefið góða raun, sérstaklega þeir sem hafa á að skipa túlki eða móðurmáls- kennara sem getur útskýrt námsefnið að hluta til á móðurmáli nemanda. Þar sem nemendur með annað móðurmál en íslensku eru of fáir til að unnt sé að koma á móttökudeild fá þeir annaðhvort aðstoð inni í bekk eða eru teknir út úr tímum í námsgreinum, sem talið er að geti ekki nýst þeim til náms vegna íslenskunnar. Viðamiklar bandarískar rannsóknir sýna að seinni aðferðin gagnast mörgum nemend- um lítið og því fer fram í Bandáríkjunum og á Norðurlöndum allmikil tilraunakennsla með óhefðbundnum kennsluaðferðum sem gefa að því er virðist mun betri raun. Það er margt að gerast í íslenskum skól- um þessi misserin og mikið rætt um mis- munandi kennsluaðferðir og mismundandi greind einstaklinga. Þessi umræða er já- kvæð fyrir þarfir tvítyngdra nemenda og margar nýjungar og óhefðbundnar aðferðir henta þeim mun betur en hefðbundin kennsla íslenskum skólum hefur gert. Sem dæmi má nefna að innfyllingarverkefni í ís- lenskri málfræði getur ef til vill verið til gagns fyrir barn sem hefur alist upp í ís- lensku málumhverfi frá fæðingu og hefur sterka tilfinningu fyrir móðurmálinu. Börn sem hafa ekki öðlast slíka skynjun í máltöku sinni hafa hins vegar ekkert upp úr slíkri vinnu annað en leiðindin og tilgangsleysið. Niðurstaða mín eftir þessar hugleiðingar er að margt má bæta og laga í þjónustu grunnskólanna við nemendur með annað móðurmál en íslensku í grunnskólunum okk- ar, sumt án mikils kostnaðar, annað kostnað- arsamara. Eitt er alveg ljóst, að það er orðið afskaplega brýnt að taka kennslu tvítyngdra nemenda alvarlega. Til að svo geti orðið verður að endurmennta kennara og fá nýbúa- fræðslu inn í grunnnám þeirra menntastofn- ana sem sinna menntun kennara. Ingibjörg Hafstað Höfundur er kennari, hefur starfað árum saman að málefnum nýbúa og rekur nú fyrirtækið Fjölmenning ehf Lengri gerð greinar er á heimasíðu KÍ.. Margt má bæta og laga „Allt of stór hópur missir af inntaki náms í grunnskóla og er illa í stakk búinn að takast á við nám í framhaldsskóla,“ segir Ingibjörg Hafstað. Nýbúi og nýbúafræðsla eru hugtök sem hafa öðlast sess í íslenskri tungu á undanförnum áratugi. Í upphafi var nýbúi notað í merkingunni: hver sá sem er búsettur á Íslandi og á sér annað móðurmál en íslensku og lifir í tveimur tungumála- og menningar- heimum. Tungumál fylgir, sem kunn- ugt er, sínum eigin þróunarlögmálum og nú er orðið nýbúi notað á marg- víslegan hátt og oft í miklu þrengri merkingu en þeirri sem getið er hér að ofan.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.