Skólavarðan - 01.08.2003, Qupperneq 3

Skólavarðan - 01.08.2003, Qupperneq 3
Allmikil umræða hefur átt sér stað um þá staðreynd að yfir 200 tónlistarskólanemum hefur verið neitað um skólavist til að stunda framhaldsnám í tónlistarskólum Reykjavíkur nema viðkomandi sveitarfélög greiði fyrir. Ég get út af fyrir sig skilið að Reykjavíkurborg hafi ekki áhuga á að greiða fyrir framhaldsnám allra tónlistarnema í landinu en borgin ber engu að síður ábyrgð eins og önnur sveitarfélög og ríkisvaldið. Við gerð síðustu kjarasamninga tónlistarskólakennara var töluvert rætt um hver ætti að standa straum af kostnaði við kennslu á framhaldsstigi og kom fram sú skoðun sveitarfélaganna að eðlilegast væri að ríkið kostaði þá menntun eins og aðra framhaldsmenntun í landinu. Þessu var ekki mótmælt af fulltrúum tónlistarskólakennara í samninganefndinni. Forystumenn kennara og sveitarfélaga í samninganefndinni fóru á fund þáverandi menntamálaráðherra og kynntu honum þessi sjónarmið en þegar þetta er skrifað hefur ekkert gerst og á meðan líða nemendur fyrir aðgerðarleysið. Mönnum hættir oft til þess að líta á tónlistina sem sjálfsagðan hlut líkt og ferskt vatn sem áfram streymir endalaust og allir geta teygað. Menn gleyma því hins vegar oft að hvoru tveggja er hægt að spilla. Það er ólíðandi að ágreiningur ríkis og sveitarfélaga annars vegar og sveitarfélaga innbyrðis hins vegar standi í veginum fyrir menntun tónlistarmanna. Íslendingar eiga fjölmarga framúrskarandi tónlistarmenn sem borið hafa hróður landsins víða um heim. Ekki skortir á að stjórnmálamenn eru stoltir sem og aðrir landsmenn þegar Íslendingar slá í gegn á tónlistarsviðinu heima eða erlendis. Sveitarfélögin nýta sér gjarnan þekkta einstaklinga á sviði íþrótta og lista til að kynna viðkomandi sveitarfélag. Þannig tengja menn t.d. Kristján Jóhannsson við Akureyri og Völu Flosadóttur við Bíldudal og hafa bæði verið sveitarfélögum sínum og landi góð kynning. Oft er líka talað um að Björk sé besta landkynning sem Ísland hefur fram að færa um þessar mundir. Ef við Íslendingar viljum áfram eiga listamenn í fremstu röð er eðlilegt að gera þá kröfu að sveitarfélögin og ríkið komist að samkomulagi um hver eigi að bera ábyrgð á kostnaðarhlutdeild hins opinbera í framhaldsnámi tónlistarmanna. Annað er lítilsvirðing við nemendur og hætt er við að margir þeirra þurfi að hverfa frá námi. Nú er Verslunarmannahelgin nýliðin og menningarnótt í Reykjavík sömuleiðis. Í báðum tilfellum er tónlistin í fyrirrúmi. Þannig bitust sveitarfélög og mótshaldarar um bestu tónlistarmennina til að draga fólk að um Verslunarmannahelgina og Reykjavíkurborg leggur áherslu á að bjóða upp á gæðatónlist á menningarnótt. Þetta er hægt vegna þess að við höfum á að skipa fjölmörgu hæfu listafólki. Krafan er að þetta geti haldið áfram. Ef allt fer hins vegar á versta veg er hætt við að gæði og fjölbreytileiki í íslensku tónlistarlífi fari hnignandi og ýmsar hátíðir verði fátæklegri en verið hefur. Viljum við kanski upplifa það í framtíðinni að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands leiði fjöldasöng án undirleiks þegar þjóðsöngurinn er sunginn á Austurvelli 17. júní? Eiríkur Jónsson Hvers eiga nemendur að gjalda? FORMANNSPISTILL 3

x

Skólavarðan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.