Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 7

Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 7
ERLEND SAMVINNA LEIKSKÓLA Á undanförnum árum hafa fimm leikskólar í Reykjavík tekið þátt í Comeniusarverkefnum. Verkefnin fela í sér þróun eða rannsóknir á einstökum þáttum í leikskólastarfi, þar sem bornar eru saman og skoðaðar aðferðir í leikskólauppeldi mismunandi landa. Verkefnið í Jöklaborg hefur staðið í þrjú ár og í byrjun júní var haldinn formlegur lokafundur þess. Þangað mættu fulltrúar frá þátttökuskólunum, í Noregi, Finnlandi, Skotlandi og Írlandi, auk Íslendinganna og margra gesta sem boðið var til fundarins. Þetta var litríkur og skemmtilegur fundur og nokkurs konar safnferð í leiðinni, því Jöklaborg var prýdd listmunum af ýmsum toga sem unnin höfðu verið í tengslum við verkefnið. Nemendur í Jöklaborg sýndu leikþátt sem unninn var út frá sögunni um geiturnar þrjár, en það ævintýri hefur verið í brennidepli í verkefninu hérlendis. Að því loknu kynntu fulltrúar hvers lands afurð starfsins og var gaman að sjá hve fólk tók á verkefninu með mismunandi hætti. Heiti verkefnisins er „Hlutverka- leikur og menningararfur - aðferð til félagslegrar þátttöku.“ Markmiðið var að gera grein fyrir því hvernig leikir barna tengjast þjóðlegri menningu og kanna hvort leikirnir séu mismunandi milli landa. Auk þess fól verkefnið í sér að þátttakendur kynntust mismunandi aðferðum sem stuðla að hlutverkaleikjum. Þátttakendur skiptust á heimsóknum og hefur Jöklaborg fengið heimsókn frá Írlandi og Skotlandi. Nokkrir starfsmenn í Jöklaborg fóru til Skotlands og Finnlands og dvöldu 7 til 10 daga í leikskólum þar. Vikulega voru sendar fréttir með tölvupósti milli leikskólanna þar sem fram kom hvað helst hafði gerst í vikunni, hvað börnin fengust við, hvert þau fóru, hverjir komu í heimsókn, hverskonar fundi starfsfólkið sat o.s.frv. Með fréttunum fylgdu gjarnan myndir af börnunum í starfi og leik. Pakkar voru einnig sendir á milli; s.s. bækur, hlutir og teikningar sem unnar höfðu verið af börnunum. Ein mynd segir meira en mörg orð og það verður að segjast að kynning finnska fulltrúans stóð upp úr. Sú finnska sýndi myndband af starfinu þar sem spratt fram ljóslifandi staðfesting þess hve hægt er að vinna markvisst og kveikja brennandi áhuga allra þátttakenda ef nálgunin er fjölbreytt og efniviðurinn sem unnið skal með liggur ljós fyrir. Fulltrúarnir tóku annars að sér að kynna mismunandi þætti verkefnisins, til dæmis lagði skoski fulltrúinn áherslu á samskiptaþáttinn og lýsti því hvernig samskiptin fóru fram og kostum og göllum við að finna tíma í skólastarfinu til samskiptanna. Áhugavert var að heyra hve fólk leit ólíkum augum á vikulegu samskiptin, ýmist voru þau aukavinna sem þó var að mestu leyti þess virði að standa í, hins vegar voru þau innlimuð í skólastarfið með fullri þátttöku nemenda og kostuðu ekkert aukastreð af hálfu kennara. Þeirri hugsun skaut að mér hvort viðhorfið færi eftir ólíkum kennsluháttum í leikskóla og grunnskóla, en skoski skólinn er í senn leik- og grunnskóli og sú skoska var grunnskólakennari eldri barna. Hún var ef til vill ekki vön því að vinna „í grasrótinni“ eða „á gólfinu“ ef svo má segja og kannski er líka meira svigrúm í leikskólastarfi fyrir ýmislegt „auka“ sem knýr dyra og því síður litið á það sem viðbótarvinnu. Almennt var fólk þeirrar skoðunar að ágóði verkefnsins væri mikill og hefði raunverulega stuðlað að auknum skilningi og áhuga á menningarsamskiptum og því að læra um önnur lönd, sem og tilfinningu fyrir og áhuga á eigin hefðum, sögum og leikjum. Sem gestur á lokafundinum gat ég ekki betur séð en tekist hefði með ágætum að ná markmiðum verkefnisins og vonandi að ekki verði látið staðar numið hér, það er beinlínis nauðsynlegt að vinna með fólki af öðrum þjóðernum. Í þessu verkefni var þáttur nemenda og kennara jafn, báðir hóparnir lögðu sig fram og höfðu gagn og gaman af samvinnunni. Akkurinn var því tvöfaldur og kannski er það meginkostur verkefnisins þegar upp er staðið. keg Comeniusarverkefni í leikskólanum Jöklaborg Leikskólabörn og erlend samvinna 7

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.