Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 10

Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 10
NÁMSEFNI Stoðkennarinn er vefur sem nýtist við íslenskunám nemenda á efri stigum grunnskólans, einkum 9. og 10. bekk. Einnig þeim nemendum framhaldsskóla sem enn hafa ekki náð fullnægjandi tökum á íslenskunni. Vefurinn skiptist í stafsetningar- og málfræðihluta en síðar meir mun bókmenntahluti bætast við. Í stafsetningarhlutanum er boðið upp á kennsluhefti þar sem nemendur geta lesið sér til um allar helstu stafsetningarreglur íslenskrar tungu og æft viðkomandi reglu með eyðufyllingarverkefnum. Einnig er boðið upp á sóknarskrift þar sem nemendur sjá setningu í ákveðinn tíma og rita hana svo og senda til yfirferðar. Eftir tæpa sekúndu liggja niðurstöður fyrir og Stoðkennarinn fer fáum orðum um eðli villunnar og bendir á regluna sem brotin var með tilvísun í orðið sjálft. Þá má hlusta á þessar sömu setningar, sem eru 400 talsins, upplesnar. Einnig getur nemandi tekið stafsetningarpróf. Málfræðihlutinn skiptist í fjóra hluta: kennsluhefti, nafnorðaglímu, sagnorðaþríþraut og próf. Í kennsluheftinu er farið í almenn málfræðiatriði og þau æfð. Í nafnorðaglímunni þurfa nemendur að glíma við erfið nafnorð, fallbeygja þau, greina kyn og segja hvort um sé að ræða veika eða sterka beygingu. Sagnorðaþríþrautin er, eins og nafnið gefur til kynna, þríþætt. Fyrsta þraut felst í því að segja hvort sögn sé veik eða sterk. Sé sú þraut sómasamlega leyst glímir nemandi við aðra þraut þar sem honum er gert að rita kennimyndir og afleiddar myndir viðkomandi sagnar. Þriðja þrautin og sú erfiðasta er að rita rétta mynd sagnar í ákveðinni tíð, mynd, persónu, tölu og hætti. Í prófhlutanum gefst nemendum kostur á að spreyta sig á málfræðihluta gamalla samræmdra prófa. Stoðkennarinn fer yfir niðurstöður, merkir við villur og rétt svar og bendir nemanda að auki á þau atriði sem eru að vefjast fyrir honum. Gagnvirkur vefur og tekur til starfa í haust Allt kapp er lagt á að Stoðkennarinn standi undir nafni sem gagnvirkur vefur. Stoðkennarinn lætur sér aldrei nægja að segja svar rétt eða rangt, heldur ræðir hann alltaf eðli villu, vísar í regluna, bendir á undarntekningar, önnur orð, stofna, rót og þar fram eftir götunum. Stafsetningarhlutinn byggir á stórum kóða sem getur greint allar villur sem brjóta í bága við íslenskar stafsetningarreglur og stórum gagnagrunni undantekningaorða, stofna og róta. Hver nemandi fær eigið aðgangsorð að Stoðkennaranum og þannig er hægt að halda utan um gengi hvers og eins. Nemandi og kennari hans hafa aðgang að þessum upplýsingum og er því með skjótum hætti hægt að sjá hvar skórinn kreppir. Kennari getur því án mikillar fyrirhafnar séð hverjir hafa unnið sína heimavinnu og hvernig þeim hefur gengið og nemanda ætti að þykja hvetjandi að sjá einkunnir færðar inn á einkunnablað sitt. Á svæði kennara geta kennarar fylgst gengi nemenda sinna, prentað út setningar til upplestrar, breytt notandanöfnum nemenda sinna og skiptst á verkefnum til útprentunar. Stoðkennarinn mun taka til starfa í haustbyrjun. Munu kennarar og skólastjórnendur fá kynningarbréf og frían aðgang í takmarkaðan tíma til að kynna sér vefinn. Það eina sem kennarar þurfa svo að gera er að senda inn nöfn þeirra nemenda sem þurfa aðgangsorð. Verði mun stillt í hóf og er mismunandi eftir stærð skóla og fjölda aðgangsorða sem hver skóli kýs að hafa. Þannig mun skóli með 100 nemendur í 9. og 10. bekk borga um 30.000 kr. fyrir árið. Vefurinn er unnin á PHP tungumáli og er tengdur við MySql gagnagrunn. Hann virkar í nýrri útgáfum Netscape og Internet Explorer og hefur það verið haft að leiðarljósi að hafa hann einfaldan að gerð, léttan og verkefni aðgengileg. Slóðin er stodkennarinn.is Höfundur vefsins er Starkaður Barkarson. Hann nam íslensku við Háskóla Íslands og kenndi tvo vetur í framhaldsskólum. Hann er nú búsettur í Madríd þar sem hann freistar þess að leggja sitt á mörkum við kennslu móðurmálsins með hjálp nútímatækni og einnig dundar hann sér við skriftir. Stoðkennarinn margræður (vefur) Starkaðar stodkennarinn.is 10

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.