Skólavarðan - 01.08.2003, Qupperneq 6

Skólavarðan - 01.08.2003, Qupperneq 6
6 GESTASKRIF hinum hefðbundnu námsgreinum. Í Hafnarfirði mun í haust hefjast athyglisverð tilraun, því þá verður skák kennd í öllum skólum bæjarins. Þetta stórkostlega framtak má rekja til merkilegs uppbyggingarstarfs Steinars Stephensen kennara í Hafnarfirði, sem í vetur hefur yfirumsjón með skákkennslu fyrir 3. bekkinga. Þegar nafn Steinars er nefnt er freistandi að geta nokkurra skólamanna, sem sýnt hafa skilning á gildi skákarinnar. Arngrímur Gunnhallsson hefur unnið sérlega árangursríkt starf í Melaskóla, og er athyglisvert að skoða hve margir af efnilegustu skákmönnum okkar nú um stundir koma úr smiðju Arngríms. Tómas Rasmus er ekki minni kraftaverkamaður. Hann byggði upp blómlegt skáklíf á Eyrarbakka og víðar fyrir austan fjall, en er nú kominn til starfa í Salaskóla í Kópavogi. Salaskóli er einn yngsti skóli landsins og þar er skákin svo sannarlega hluti af stefnunni. Það var ævintýri líkast að koma á meistaramót skólans í sl. vetur, en þar kepptu sjötíu af hundrað og sextíu nemendum. Þá hefur skákundrið í Flataskóla í Garðabæ vakið mikla athygli. Þar er Skarphéðinn Gunnarsson potturinn og pannan, og er mikils af honum að vænta í framtíðinni. Upptalning af þessu tagi getur aldrei orðið tæmandi og ég gæti skrifað langt mál, bara um aðferðir og skoðanir Einars Ólafssonar skólastjóra, sem löngum hefur haft skákina á stundatöflunni í skólanum á Drangsnesi á Ströndum. Skákin er líka að slá í gegn hjá krökkunum á Suðurlandi, enda hafa bæjaryfirvöld og skólafólk í Árborg tekið beinan þátt í skákvakningunni. Ég get ekki skilið við dæmi af einstökum skólum án þess að nefna stærsta skóla landsins, Rimaskóla, sem í vor varð Íslandsmeistari barnaskólasveita stráka og stelpna. Varla hefði verið hægt að hugsa sér betri gjöf skólanum til handa á tíu ára afmælinu. Þessi árangur náðist undir handleiðslu Helga Árnasonar skólastjóra, sem með frumkvæði sínu í stærsta skóla landsins á mikinn þátt í þeirri skákvakningu sem þegar er orðin. Þetta er auðvitað ekki tæmandi yfirlit – víðar er unnið gott starf. Og ég er ekki í nokkrum vafa um árangur skákkennslunnar í þessum skólum. En þeim mun meiri ástæða er til þess að taka hana upp víðar og vonandi styttist í skipulega skákkennslu í öllum grunnskólum landsins. Það verður ekki gert öðru vísi en með því að taka skák á námsskrá, útbúa kennsluefni, leiðbeiningar fyrir kennara og kennslubúnað. Einhverjum kann að þykja það einkennilegt að taka skák umfram annað tómstundagaman og gera að námsgrein, en það má ekki gleyma því hversu fjölþætt gagn er af skákinni. Eins og rakið hefur verið að ofan nýtist hún almennt við það að efla í senn sköpunargáfu og rökhugsun, minni og einbeitingu. En það má ekki heldur gleyma hinu, að skákin kemur líka að beinum notum í öðrum námsgreinum. Það má nota hana til þess að auka áhuga á öðrum greinum, en ekki síður má benda nemendunum á að beita má kunnáttu úr skák í aðskiljanlegum greinum á borð við mannkynssögu, stærðfræði, tungumál og vísindi. Umfram allt er hún þó frábær til þess að dýpka skilning á umheiminum og hvernig við hugsum um hann. Skákin er ævaforn, en það er rétt að hafa í huga að í henni fólst forsögn um hlutverk vísinda við að skilja heiminn. Taflmenn eru ekkert annað en tákn, sem hlíta ströngum reglum: einfölduð mynd af raunheiminum þar sem búið er að tálga allt af nema það sem máli skiptir. Og skákin er ekki annað en nokkrar einfaldar reglur eða lögmál, sem óendanlega flókin kerfi geta spunnist af. Menn hafa leitt getum að því að Þales, faðir rökfræðinnar, hafi verið vel kunnugur skák eða skyldum leikjum og á síðari árum hefur leikjafræði hafist til vegs og virðingar í viðskiptum jafnt og vísindum. Það er engin tilviljun heldur hversu oft menn grípa til skáklíkinga í stjórnmálum, hernaðarlist og ótal athöfnum öðrum. Á sínum tíma hafa slíkar hugaræfingar örugglega haft áhrif til þess að menn féllu frá þeirri trú að heimurinn snerist um duttlunga goðmagna og áttuðu sig á því að honum yrði best lýst með einföldum lögmálum. Þetta eru uppgötvanir sem hver og einn þarf að gera sjálfur og þar er skákin enn góður leiðarvísir. Og hún nýtist víðar til þess að dýpka skilning á flóknum kenningum. Er til dæmis til auðveldari leið til þess að útskýra undirstöðu óreiðukenningarinnar? Eða hvernig á því stendur að afar fátæklegar leiðbeiningar geti verið uppskrift að nemandanum sjálfum? Þess vegna er nauðsynlegt, þegar hugað er að skákkennslu í grunnskólum, að horfa á heildarmyndina. Auðvitað er þess óskandi að slík kennsla skili herskörum af skákmeisturum framtíðarinnar, en markmiðið er vitaskuld að þroska heilsteyptari einstaklinga með ríkari skilning á umhverfi sínu og samfélagi manna. Því þarf að kenna meira en mannganginn og helstu varnar- og sóknartilbrigði. Það þarf að kenna nemendunum aðferðafræði, að þeir fylgi ákveðnu ferli við hvern leik. Áður en þeir hreyfa taflmann þurfa þeir að meta stöðu sína í heild, átta sig á því hvaða svæði skipta mestu máli, hvar þeir eru í mestri hættu, hvort þeir eigi að sækja fram eða verjast, hvar frumkvæðið í taflinu liggi, velta fyrir sér áhrifum hvers leiks, hugleiða mótleiki andstæðingsins og velja síðan besta leikinn. Að skákinni lokinni er nemendunum svo tamið að fara yfir hana leik fyrir leik, útskýra hvað hafi vakað fyrir þeim hverju sinni og rökstyðja einstaka leiki. Kennarinn getur svo tekið einstakar skákir og farið yfir þær fyrir allan bekkinn með þátttöku nemenda, en reynslan sýnir að það er einkar árangursrík aðferð til þess að draga fram hina ýmsu möguleika stöðunnar. Um leið er ítrekað mikilvægi þess að telja út menn til þess að meta styrkleika hvors um sig án þess að missa sjónar af stöðumatinu, að styrkur einstakra taflmanna er mismunandi eftir því hvort er snemma tafls eða seint og að stundum þurfi að fórna til þess að öðlast annan ávinning. Allt þetta nýtist vitaskuld víðar en á taflinu. Það er fleira, sem þarf að kenna og felur í sér víðtækari lærdóm. Þannig verður að leggja áherslu á íþróttamannslega framkomu, kurteisi og vinsemd. Skákmennirnir hefja til dæmis og ljúka hverri skák með handabandi og þegar farið er yfir skákina eftir á lærist mönnum að líta á málin frá fleiri en einni hlið og að geta farið yfir eigin breytni af hlutleysi. Eins er nauðsynlegt að fara yfir viðkvæm tilfinningamál eins og að kunna að taka sigri jafnt sem tapi. Þegar farið er að tefla með klukku bætist við að menn þurfa að læra að nýta tímann vel og sóa honum ekki, og vita hvenær leggja þarf höfuðið í bleyti. Við stefnumótun í skákkennslu í grunnskólum þarf að skilgreina markmiðin rétt. Tilgangurinn með skákkennslu er hvorki sá að „framleiða“ keppnismenn skák né að stytta nemendum stundir þó auðvitað sé ekki verra að þeir skemmti sér við skákina eða að fram komi skákefni í fremstu röð. Markmiðið er fremur að nota skákina til þess að styðja við annað skólastarf, hvort heldur er á sviði eiginlegrar menntunar, félagsþroska eða tilfinningagreindar. Til þess að þetta gangi eftir skiptir sköpum að það séu grunnskólakennarar sjálfir, sem annist kennsluna. Þeir þekkja nemendur sína og skilja öðrum betur hvernig tengja má skákina við annað námsefni. Í þessu samhengi á ekki að umgangast skákina sem áhugamál eða valgrein, heldur þurfa allir nemendur að taka virkan þátt þannig að þeir séu samstíga í skákinni og því hvernig beita megi lærdómi þaðan á öðrum sviðum. Um leið er ýtt undir samráð og samvinnu í lausn verkefna, en jafnframt verða nemendur að gera sjálfum sér og öðrum grein fyrir því hvernig þeir hugsa, færa rök fyrir því hvers vegna þeir telja einn leik betri en annan og leið eru þeir að kenna hverjir öðrum. Hrafn Jökulsson

x

Skólavarðan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.