Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 30

Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 30
SMIÐSHÖGGIÐ þjóðarinnar. Gæfan er m.a. fólgin í því að sjá þetta unga fólk taka út þroska eins og sagt er. Hvert ár er risaskref í þeim efnum og það ungmenni sem ég kveð að vori hefur stikað heila þingmannaleið þegar við heilsumst að hausti. Og oftar en ekki er það hinn líkamlegi þroski sem er nokkrum skrefum á undan þeim andlega þó yfirleitt nái andinn líkamanum að lokum, - en ekki alltaf! Oftast gerist það við tvítugsaldurinn en þangað til er ungmennið (og kennarinn) að vinna úr því misræmi andlegs og líkamlegs þroska sem hefur skapast. Það tekur tíma og tilgangslaust að flýta sér því móttökustöðvar einstaklingsins þurfa að vera tilbúnar. Þessu má líkja við það að hella vökva í gegnum trekt ofan í flösku, við hellum ekki hraðar en trektin og flöskuhálsinn taka við í einu. Að vísu gætu sum ungmennin tileinkað sér ýmsar staðreyndir hins formlega náms á skömmum tíma (og núverandi skipulag gerir ráð fyrir því) en eru þau öll þess umkomin að nýta sér þær á sjálfstæðan hátt? Hafa nemendurnir hlotið þann alhliða þroska sem kveðið er á um í lögum um framhaldsskóla „svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi“ fyrr? Er framhaldsskólinn þess umkominn að „þjálfa nemendur í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun“ á skemmri tíma en nú er gert? Ég tel að hér sé ekki réttur aðili spurður því skólinn getur í sjálfu sér boðið upp á kennslu í ýmsum greinum og með ýmsum hætti en nemendurnir verða að vera í stakk búnir að nema það sem fram er borið og sjálfstæð vinnubrögð og gagnrýnin hugsun eru að mínu mati með mikilvægari þáttum sem einstaklingurinn hefur í farteskinu út í lífið. Ef eitthvað er þá hefur skólakerfinu mistekist í þeim efnum, eins og íslenskt samfélag er til vitnis um, og tekst þá varla betur á skemmri tíma. Hér togast á andstæð sjónarmið: Efnisleg viðmið því hagvöxturinn krefst þess að koma liðinu út á vinnumarkaðinn árinu fyrr (og stundum getur gagnrýnin hugsun verið þar til trafala), og andleg verðmæti, þ.e. að einstaklingurinn hafi þroska til að taka ákvarðanir er varða líf hans um alla framtíð. Nauðvörn íslenskunnar Það er manninum nauðsynlegt að sjá tilganginn með sínu streði hér í þessum táradal. Öðru hvoru vaknar sú spurning hjá mér og mínum nemendum hver sé tilgangurinn með því sem við erum að gera. Slíkar spurningar eru hollar, - og jafnvel lífsnauðsynlegar. Í mínu tilviki og minna nemenda leiða þær gjarnan til þessarar grundvallarspurningar: Hvað greinir okkur Íslendinga frá öðrum? Sannast sagna er það aðeins tungumálið en á því byggir ýmislegt annað. Við hugsum og tjáum okkur á því máli en hugsun og tjáning mótar að sjálfsögðu lífsmynstur okkar. Á herðum þessa tungumáls hvílir líka menning okkar og saga. Undanfarnar tvær aldir hafa landsmenn flestir líklega fremur viljað halda í þetta tungumál þó einhverjir hafi viljað taka upp annað samhliða því af hagkvæmnisástæðum. Eitt sinn var það danska en nú er það líkast til enska og e.t.v. verður það spænska innan skamms. Það er t.a.m. dýrt að þýða allt sem að utan kemur og fyrirhöfn í því fólgin að vera samræðuhæfur á erlendri grund. Samt sem áður höldum við í þetta útkjálkamál og að öllum líkindum má sjá vilja stjórnvalda til þess í verki þegar þau ákveða að meðal samræmdra prófa á öllum skólastigum skuli íslenskan vera. Nú ætti auðvitað að vera óþarft að tíunda í hvers konar nauðvörn þetta blessaða mál okkar er þessi misserin, - bæði talmál og ritmál, - það vita sjálfsagt kennarar manna best. Heima fyrir situr fjölskyldan þegjandi yfir bandarískum kvikmyndum og sín á milli rita erfingjar menningararfsins með bloggi og SMS-skeytum. Kannski er skólinn eini staðurinn þar sem þokkalega heildstæð íslenska er töluð og skrifuð. Þess vegna legg ég til að móðurmálskennarar fái töluverðan kennsluafslátt til þess að geta sinnt starfi sínu kinnroðalaust. Ég er tilbúinn til þess að færa nánari rök fyrir því sjái einhver ástæðu til þess. Knútur Hafsteinsson, Höfundur er framhaldsskólakennari og formaður Samtaka móður- málskennara. 30

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.