Skólavarðan - 01.08.2003, Qupperneq 13

Skólavarðan - 01.08.2003, Qupperneq 13
SAMRÆMD PRÓF Samræmd próf eru mjög til umræðu um þessar mundir og þá ekki síst í framhaldsskólum, en fyrstu samræmdu stúdentsprófin verða þreytt á vordögum 2004. Margir líta til grunnskólans sem hefur langa reynslu af fyrirlögn slíkra prófa og getur því miðlað af reynslu sinni. Umræðunni um samræmd stúdentspróf hefur þegar verið gerð talsverð skil í Skólavörðunni en við látum ekki deigan síga og höldum áfram að skoða samræmd próf og reynsluna af þeim frá ýmsum sjónarhornum. Að þessu sinni er það Jóna Benediktsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Ísafirði, sem segir frá efasemdum sínum varðandi framkvæmd samræmds prófs í náttúrufræði í grunnskóla. Hvert stefnum við? hugleiðingar að loknu samræmdu prófi í náttúrufræði Nú í vor var í annað skipti haldið samræmt próf í náttúrufræði á vegum Námsmatsstofnunar. Í mörg ár hef ég fylgst með nemendum mínum læra fyrir stærðfræðipróf og tvö síðustu ár einnig fyrir náttúrufræðipróf. Í prófatörninnni í vor vöknuðu með mér hugleiðingar um hvort við hefðum í raun og veru ætlað okkur í þann farveg sem við erum í núna eftir að við tókum upp samræmd próf í náttúrufræði og samfélagsfræði eða hvort okkur hafi borið einhvers staðar af leið. Námsgreinarnar náttúrufræði og samfélagsfræði hafa nokkra sérstöðu meðal þeirra greina sem samræmd próf eru þreytt í við lok grunnskóla. Í stærðfræði byrja nemendur til dæmis að læra margföldun í öðrum bekk og dýpka síðan þekkingu sína á henni jafnt og þétt þar til hún er orðin þeim öflugt vinnutæki við lausnir annarra verkefna. Það sama má segja um þekkingu nemenda í íslensku og í erlendum tungumálum. Nemendur byrja með ákveðna grunnþekkingu, til dæmis orðaforða, sem þeir síðan dýpka og bæta við en eftir sem áður eru þeir áfram að nota alla þá þætti sem þeir eru búnir að læra. Í náttúrufræði er þessu á nokkurn annan veg farið. Náttúrufræðin er byggð upp á nokkrum þáttum, þessir þættir tengjast að vísu en þekking í einum þeirra er ekki nauðsynlegur grunnur fyrir þekkingu í öðrum. Það er auðvitað gott að hafa nokkra þekkingu á efnafræði þegar verið er að læra erfðafræði eða um orku og orkunotkun en ekki bráðnauðsynlegt. Eins er með líffræðina, það er að sjálfsögðu gott að hafa skilning á kröftum og hreyfingu, eða starfsemi frumulíffæra, en það er engan veginn nauðsynleg undirstaða fyrir nám um lífshætti spendýra. Það sem ég er að reyna að segja er að náttúrufræðin er byggð upp af nokkrum ólíkum þáttum sem hafa ekki bein áhrif hver á annan og tengjast ekki innbyrðis, eins og til dæmis samlagning og frádráttur eða margföldun og deiling. Það er auðvelt að gleyma því sem maður lærir einu sinni og þarf svo ekki að nota við frekara nám á næstunni. Þetta er sá raunveruleiki sem blasti við mörgum nemendum sem stóðu frammi fyrir því að ætla í samræmt próf í náttúrufræði. Nemendur þurftu að lesa allt námsefni sem þeir höfðu verið með í 7.-10. bekk í grunnskólanum. Mér reiknast til að þetta séu nálægt eitt þúsund blaðsíður af frekar þungu efni og mjög mikið af ótengdum þekkingaratriðum. Þessar þúsund blaðsíður ná þó ekki yfir öll námsmarkmið sem tiltekin eru í Aðalnámskrá og þurfa kennarar að finna sjálfir til nauðsynlegt viðbótarefni. Afar misjafnt er eftir skólum hversu yfirgripsmikið þetta viðbótarefni er. Þetta vinnulag, að láta nemendur lesa upp efni margra námsára, tíðkaðist við landsprófið í gamla daga og við stúdentspróf en er nú að mestu aflagt eftir því sem ég best veit. En þetta höfum við tekið upp í grunnskólanum og ég spyr: Er vit í þessu? Ég hef ekki þá yfirsýn að geta fjallað um samfélagsfræðiprófið á sama hátt en hef grun um að málum sé eins háttað í þeirri námsgrein. Getur verið að við höfum ekki verið búin að sjá fyrir hvert sú leið sem við völdum liggur áður en við örkuðum af stað? Ég hef grun um að námsgreinin náttúrufræði fari að líða fyrir þær miklu námskröfur sem þar eru gerðar, að nemendur forðist hana, þar sem í náttúrufræðináminu felist allt of mikil vinna og yfirlega yfir námsefni ef árangurinn á að verða viðunandi. Áhersla á vísindalega þekkingu má ekki verða svo mikil að við gleymum ánægjunni sem fólgin er í að þekkja umhverfi sitt og njóta þess að vera hluti af því. Jóna Benediktsdóttir Höfundur er aðstoðarskólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði. Þetta er sá raunveruleiki sem blasti við mörgum nemendum sem stóðu frammi fyrir því að ætla í samræmt próf í náttúrufræði. Nemendur þurftu að lesa allt námsefni sem þeir höfðu verið með í 7. - 10. bekk í grunnskólanum. Mér reiknast til að þetta séu nálægt eitt þúsund blaðsíður af frekar þungu efni og mjög mikið af ótengdum þekkingaratriðum. 13

x

Skólavarðan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.