Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 23

Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 23
um sálina. Þau svara því til að ýmsar tilfinningatengdar hugsanir eigi sér bústað þar en mestöll hugsun fari samt fram í heilanum. Með „hugann“ er hægt að setja samasemmerki við „heilann“ til að byrja með. Það endar oftast á því að við höldum okkur við heilann. Við höfum því staðsett heilann í höfðinu og hugsunina í heilanum. Þá prófa ég að setja upp tvær ímyndaðar aðstæður. Setjum svo að við séum af þjóðflokki sem á sér enga læknisfræði með eiginlega þekkingu á starfsemi líffæranna. Þar sé aðallega notast við töfraþulur til lækninga og jurtaseyði sem fólk hefur ekki læknisfræðilega skýringu á hvernig verka. Þetta fólk veit vísast af einhverjum líffærum, til dæmis að hjartað dæli blóði og matur meltist í maganum, en veit það að hugsunin fer fram í heilanum? Hvað höfum við til marks um að hugsun fari þar fram? Hér komum við að spurningunni hvort hugsun sé líffræðilegt/efnislegt fyrirbæri eins og annað í líkamanum. Og nú fara að koma svör: „Heilinn er fyrirbæri í hausnum en hugurinn er það sem við notum.“ „Meðvitundin stjórnar.“ Sum svara því til að hægt sé að mæla hugarstarf í heilanum. Við setjum ímyndaðan mæli á heilann og komumst að því að mismunandi svið hugsunar virkja mismunandi svæði í heilanum. Skákgáfa sýnir virkni á einum stað og ljóðagerð á öðrum stað. Þetta virðast mörg börn hafa lesið sér til um eða séð í sjónvarpi. En mælir mælirinn hugsanir? Hvað sýnir hann í raun og veru? Ein stúlka svaraði þannig: „Ekki hægt að mæla hvað við hugsum en bara að einhver sé að hugsa.“ „Við mælum bara taugaboð,“ segja börnin, „hugsunin tengist taugaboðum en er ekki taugaboð sjálf.“ Börnin vita að við sjáum ekki leikfléttur í skák eða að ljóð komi fram á skermi mælisins. Í hvers konar miðli fer hugsun fram? Ég er að reyna að fiska eftir fyrirbærum eins og tungumálinu, tölum, reglum, tónum, litum og formum en það gengur misjafnlega, þó erum við alltaf komin með einhverja slíka hugsunarmiðla á skrá. Stundum verð ég að skrá þessi fyrirbæri án þess að hafa veitt þau og stundum læt ég það vera ef umræðan fer inn á skemmtilega hliðargötu, til dæmis um skynfærin og taugaboðin. Hvert þessara fyrirbæra, eða hugsunartækja eins ég kalla þau stundum, virðist tengjast tilteknu svæði í heilanum. En geta hugsunartækin verið án ímyndunarafls og (skilnings)? Hvar staðsetjum við þá þau fyrirbæri í heilanum? Og börnin skynja að ég er að leiða þau út úr umsjá heilans. „Getur maður hugsað í roti? Þá hlýtur heilinn að hugsa,“ staðhæfir einn. Annar svarar: „Heilinn er stór og ímyndunaraflið getur verið alls staðar.“ Og enn: „Við drekkum vatn til að hugsa.“ En hvaða fyrirbæri er þetta ímyndunarafl ef við getum ekki staðsett það í heilanum. Er það raunverulegt? „Notkun segir okkur frá tilvist,“ segir einn nemandi. „Við vitum að við notum það þegar við sjáum hluti fyrir okkur.“ Annar er dálítið gáttaður en slær fram af töluverðu öryggi: „Maður getur ímyndað sér heilann en heilinn getur ekki ímyndað sér ímyndunina.“ Stundum er reynt að komast framhjá vandanum: „Hugsun sem gengur of langt er ímyndun“, eða þá að farið er út í hið þverstæðukennda: „Ímyndunaraflið er ekki til nema í ímyndunarafli okkar.“ Eins og sjá má eru fangbrögð barnanna hin skemmtilegustu, en alls staðar leiftrar skýr hugsun og meitlaðar staðhæfingar og oft nálgast svörin að vera ljóðræn spakmæli. Eftir að slík spekimál koma fram á varir barnanna kýs ég að greina þau ekki frekar og leyfi þeim að standa sem fullgild svör þó svarið sé ekki tæmandi. Hið ljóðræna andartak tel ég hápunkt samræðunnar en ekki endilega hina heimspekilegu greiningu og lái mér hver sem vill. Jón Thoroddsen Höfundur er kennari í Grandaskóla. SAMRÆÐULIST OG HEIMSPEKI 23

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.