Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 5

Skólavarðan - 01.08.2003, Blaðsíða 5
5 GESTASKRIF Tilgangur menntakerfisins er margþættur, en mikilvægast er vitaskuld að búa fólk undir lífið, að koma því til þroska og að leggja rækt við þá hæfileika, sem því hlotnast í vöggugjöf. Fólk er misjafnlega gert og það gengur auk þess misjafnlega að draga fram styrk hvers og eins, sem verður ekki einfaldara þegar haft er í huga að skólakerfið leggur óhjákvæmilega áherslu á það sem mest gagnast fyrir meðaltalið. Inn í þetta fléttast svo fjöldi þátta á borð við sjálfstraust, sjálfsvirðingu, líkamlega getu, athyglisgáfu, skapferli og aðra persónubundna þræði sem gera einstaklinginn að því sem hann er. Við þekkjum svo mætavel hvernig fólki hættir til þess að afmarka áhugasviðin, þannig að krakkar, sem gengur vel í stærðfræði, eiga til að vanrækja íslenskuna eða þeim gengur vel í mannkynssögu á meðan líffræðin virðist þeim lokuð bók. Auðvitað gengur börnum misvel í skóla, en það er ástæða til þess að ætla að það megi virkja betur námsgetu hvers og eins yfir sviðið. Ekki síður er þörf á því að reyna að finna hvað liggur best fyrir fólki, rækta það og nota svo þá reynslu til þess að efla menn á öðrum sviðum þar sem síður gengur. Þetta eru engin ný sannindi, en samt hefur það vafist fyrir mönnum hvernig þetta verður best gert svo það nýtist sem flestum. Undirritaður hefur ekki bakgrunn í uppeldisfræðum, en ég hef á hinn bóginn verulega reynslu af barnastarfi á sviði skákarinnar. Það starf hefur gefið mér ómælda gleði og ég treysti því að börnin skemmti sér ekki síður við þessa hollu iðju, en ég er sannfærður um að skák geti komið að verulegum notum í menntakerfinu til þess að koma hverjum og einum til nokkurs þroska. Skák er skemmtileg, en hún er líka holl tómstundaiðja, sem þroskar bæði hugann og skapgerðina. Við taflið læra menn fljótt að beita rökhugsun, að hugsa fram í tímann, að sérhver athöfn felur í sér afleiðingar, gildi einbeitingar og að heilinn er sá „vöðvi“ sem mestu skiptir. Svo má ekki heldur gleyma því að í við taflborðið þurfa menn að læra að taka tapi rétt eins og kunna að vinna og það er lærdómur, sem dugar vel í lífinu sjálfu. Út af fyrir sig hjálpar skákin því einstaklingnum að þroska sjálfan sig, en ég er sannfærður um að skákin komi einnig að miklum notum í hefðbundnu skólastarfi, bæði fyrir nemendur og menntakerfið. Erlendis hefur verið gerður fjöldi rannsókna á gildi skákarinnar í þessu samhengi og þær hafa leitt ótvírætt í ljós (með eindreginni fylgni) að skák hefur afar jákvæð áhrif á vitsmunaþroska, rökhugsun og námsárangur. Námsárangur í undirstöðugreinum eins og reikningi og lestri tekur meiri framförum meðal barna, sem læra að tefla, og hið sama má segja um félags- og tilfinningaþroska auk þess sem þau tileinka sér góða námstækni langt umfram jafnaldra sína, sem ekki læra að tefla. Þessar rannsóknir hafa sýnt að taflmennska bætir sérstaklega: • Sjónminni • Einbeitingu • Minni • Rýmishugsun • Skilning á orsakasamhengi • Skilyrta ákvarðanatöku og greiningu á kostum • Munnlega röksemdafærslu Ég get alveg játað það að Skákfélagið Hrókurinn hóf barnastarf sitt af fremur eigingjörnum ástæðum, þetta var skáktrúboð með því augnamiði að ala upp nýjar skákkynslóðir, því eftir skákvakninguna, sem sigldi í kjölfar heimsmeistaramóts Fischers og Spasskys árið 1972, dvínaði skákáhugi nokkuð og nýir stórmeistarar hafa ekki skilað sér jafnört og tíðkaðist á árum áður. Til þess að blása í glæðurnar afréð Hrókurinn því að leggja mikla áherslu á barnastarfið og hefur félagið haldið tugi barnaskákmóta, farið í kynnisferðir í grunnskóla, starfrækt barnaskákskóla samhliða alþjóðlegum mótum á vegum félagsins, haldið fjöltefli skærustu stjarna skákheimsins og þar fram eftir götum. Viðamesta átakið felst þó í því, að í félagi við Eddu útgáfu hf. færðum við á síðasta vetri 3. bekkingum bókina “Skák og mát”. Þannig fengu fjögur þúsund og fimm hundruð börn, fædd 1994, þessa bráðskemmtilegu bók sem alls staðar slær í gegn, enda hönnuð af snillingunum hjá Walt Disney en innihaldið eftir sjálfan Karpov. Á vetrinum sem nú er að hefjast höldum við samvinnunni við Eddu áfram og nú munum við aka um landið á skákbílnum Ræsi, heimsækja hvern einasta grunnskóla landsins og afhenda börnunum bókina, setja þau inn í skákina og hvetja til frekari dáða. Við munum ekki láta þar við sitja því svona nokkuð kallar á eftirfylgni og þar höfum við notið samstarfs við sveitarfélögin. Við getum ekki kvartað undan árangrinum, því skákáhuginn hefur aukist hröðum skrefum með tilheyrandi félagsstarfi, þátttöku í mótum og svo framvegis. En hitt kom þægilega á óvart, að í kjölfar þessa átaks fórum við að fá viðbrögð langt umfram þau, sem okkur hafði upphaflega dottið í hug. Foreldrar, afar og ömmur hafa hringt og skrifað til Hróksins til þess að koma á framfæri þökkum, börnin hafi ekki einungis fundið sér hollt og uppbyggilegt áhugamál, heldur hafi heimilislífið batnað: börnin hafi í sér meiri eirð, kynslóðabilið er brúað á einu kvöldi þegar þau fá afa eða mömmu til þess að tefla við sig og áhuginn á því að verða betri skilar sér í aukinni fróðleiksfýsn, bóklestri og þar fram eftir götum. Hið mikilsverðasta er þó sjálfsagt það að börnin uppgötva sjálf sig, að þau hafi eitthvað til brunns að bera, sem þau höfðu ekki hugmynd um að væri þar, og þau verða að þroska með sér í stað þess að vera einungis viðtakendur fjöldamenningar og í besta falli þátttakendur í CounterStrike! Viðbrögðin eru þó fráleitt aðeins frá heimilunum, því viðbrögð skólastjórnenda og kennara hafa verið framúrskarandi. Hrókurinn hefur heimsótt fjölda skóla og árangurinn hefur verið undraverður. Skákáhuginn einn og sér hefur haft jákvæð áhrif á andrúmsloftið í skólunum: bekkjamót hafa eflt liðsanda, íþrótt þar sem aldur, hæð og aflsmunir skipta engu er einstaklega vel til þess fallin að kenna börnum að líta undir yfirborðið og hafna fordómum, börn sem af einhverjum ástæðum hafa verið „til baka“ ná allt í einu að blómstra og ég veit beinlínis dæmi þess að skákin hafi orðið börnum til bjargar á þann hátt. Ekki einungis á þann veg að þau öðlist virðingu jafningja sinna heldur ekki síður að þau öðlist sjálfstraust, sem getur riðið baggamuninn hjá lítilli sál. Í þessu sambandi kemur mér í hug telpa sem hafði átt við verulega námserfiðleika að stríða frá því hún byrjaði í grunnskóla. Þrátt fyrir góðan vilja fjölskyldu og skólafólks gekk illa að greina vandann eða finna lausnir. Telpan virtist dæmd til þess að verða utanveltu. En þá gerðist undrið. Í fyrravetur komst hún í kynni við skák, og fljótlega kom í ljós að þarna var mikil efnisstúlka á ferð. Hún hefur síðan tekið stöðugum framförum í skákinni og má mikils af henni vænta á þeim vettvangi. Hitt er þó ennþá gleðilegra, að samhliða þessum góða árangri í skák stórbatnaði frammistaða telpunnar í Skákin og skólakerfið

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.