Tímarit Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar - 05.12.2002, Side 27

Tímarit Máls og menningar - 05.12.2002, Side 27
Helga Þórarinsdóttir (f. 1956) ólst upp í stórfjölskyldu í litlu sjávarþorpi og gekk aldrei í leikskóla. Helga er sjúkraliði en hefur starfað fyrir utanríkisráðuneytið víða um heim. Hún hefur áður birt örsögur í Lesbók Morgunblaðsins. 3. Einu sinni þegar ég var lítil stelpa langaði mig að horfa á boltann með pabba. Þá spurði pabbi hvort ég ætlaði á meðan að vera strákur eins og hann eða hvort ég ætlaði að vera lítil, skrýtin stelpa. Ég fór í alltof lítinn bol og gallabuxur og lét bumbuna standa út fyrir og var flottur eins og pabbi. Settist í stóran hægindastól og reyndi að láta fæturna á skemilinn, en náði ekki alveg. Þá varð mamma svoldið skrýtin í framan alveg eins og hún væri að fara að hlæja. Þá sagði ég með þjósti, „hvernig er það kona, á ég ekki að fá frið til að horfa á boltann?“ Svo ropaði ég hátt eins og pabbi gerir þegar hann horfir á boltann. Mamma fór að skellihlæja og sagðist vilja fá litlu, skrýtnu stelpuna sína aftur en ekki eiga þessa fótboltabullu. Pabbi fór líka að hlæja en sagðist alveg vilja eiga litla, skrýtna stelpu sem væri fótboltabulla og með bumbuna út í loftið. Svo settumst við í sófann og horfðum á boltann. Öll með bumbuna út í loftið. Lítil, skrýtin fjölskylda sem horfði á fótbolta. 4. Einu sinni þegar ég var lítil, skrýtin stelpa heyrði ég mömmu segja við pabba, „stelpan er alltof mikið ein, hún er hreinlega að verða hálfundarleg“. Þá sagði pabbi að það væri vegna þess að það væri enginn heima til að ala mig upp. „Þegar báðir foreldrarnir vinna úti er enginn heima til að ala upp börnin,“ sagði hann. Eins og ásakandi. Ég fór þá til Freyju í næsta húsi sem var alltaf heima og spurði hana hvort hún mætti stundum vera að því að ala mig upp. Mamma og pabbi væru svo bissí og hefðu ekki tíma. Ég væri sjálf búin að reyna að uppala mig en ég kynni það bara ekki alveg og væri að verða hálfundarleg. Freyja vildi það alveg og sagði, „já, já, ég skal stundum ala þig upp og kannski hjálpar Jói okkur“. Jói er maðurinn hennar Freyju. Þau voru búin að ala upp þrjú börn sem voru ekkert undarleg. En ég var lítil, skrýtin stelpa sem var að verða hálfundarleg. 5. Þegar ég var lítil stelpa langaði mig oft til að vera sjórinn og fjöllin og trén og langaði líka til að vera inni í skýjunum. Þá sagði amma, „þú getur alveg verið sjórinn og fjöllin og trén og líka verið inni í skýjunum, en þú getur það bara í andanum“. Ég vissi ekkert hvað „í andanum“ var en amma sagði að ég myndi skilja það þegar ég yrði stór. Þá varð ég óþolinmóð og var alltaf að spyrja, „amma er ég núna orðin stór?“ Lítil, skrýtin stelpa sem langaði strax til að vera stór. 26 Ljóð Helga Þórarins 5.12.2002 16:52 Page 27

x

Tímarit Máls og menningar

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit Máls og menningar
https://timarit.is/publication/1109

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.