Tímarit Máls og menningar - 05.12.2002, Side 31
studdu bjórfrumvarpið. Og þó að talsvert
stærra hlutfall þingmanna af höfuðborgarsvæð-
inu hafi stutt afnám bannsins en þingmanna úr
dreifbýli studdi þó lítill meirihluti þingmanna úr
dreifbýli frumvarpið. Meirihluti Alþýðubanda-
lagsins studdi hins vegar áfram bjórbann árið
1988. Athygli vakti ákall 15 prófessora úr
Læknadeild HÍ og lækna sem vinna við áfengis-
meðferð til Alþingis um að fella frumvarpið þar
sem bjórinn myndi ýta undir heildarneyslu
áfengis og auka um leið heilsufarsvanda þjóð-
arinnar. Í kjölfarið skrifuðu 133 læknar annað
bréf til Alþingis um að ekkert samband væri á
milli heildarneyslu áfengis og fjölda áfengis-
sjúkra og mæltu með leyfi fyrir bjór. Lækna-
stéttin taldi því bjórmálið heyra undir sérsvið
sitt um leið og hún opinberaði klofning sinn til
málsins.
Fleiri þættir en vaxandi þéttbýlismyndun og
breytt kjördæmaskipan á Alþingi áttu þátt í af-
námi bannsins. Ísland hefur í sífellt ríkari mæli
tengst og orðið hluti af hinu alþjóðlega samfé-
lagi á síðustu áratugum. Árið 1950 þegar íbúa-
tala Íslendinga var um 150 þúsund fóru aðeins
4300 Íslendingar til útlanda og 4400 ferðamenn
heimsóttu landið. Árið 1970 höfðu átt sér stað
veigamikil umskipti. Um það bil 27 þúsund Ís-
lendingar fóru þá utan og um 53 þúsund ferða-
menn heimsóttu landið. Árið 1988 þegar bjór-
bannið var afnumið á Alþingi fóru um 150 þús-
und Íslendingar utan, eða að jafnaði meira en
tveir af hverjum þremur og um 130 þúsund er-
lendir ferðamenn heimsóttu landið. Þróunin er
skýr vísbending um að landfræðileg einangrun
Íslendinga hafi verið rofin og stór hluti þjóðar-
innar kynnst menningu annarra vestrænna
ríkja, m.a. bjórdrykkju. Opnun landsins bæði út
og inn á við hefur því smám saman grafið und-
an tilvist bjórbannsins.
Þróun íslensks þjóðfélags í átt til nútímalegri
þjóðfélagshátta fól í sér fleiri hliðar. Áfengis-
stefna stjórnvalda hefur sömuleiðis færst í frjáls-
lyndari farveg á síðustu árum. Árið 1954 var ein-
ungis einn veitingastaður á Íslandi með vínveit-
ingaleyfi. Árið 1980 voru vínveitingastaðir orðnir
37, 1988 var fjöldi þeirra kominn í 148 og 1994
voru þeir orðnir 322. Á síðasta ári 2001 var fjöldi
vínveitingaleyfa síðan kominn í 512 og er vöxt-
urinn áþreifanlegastur á landsbyggðinni. Sama
þróun hefur átt sér stað í fjölda áfengisverslana
sem voru aðeins 7 á landinu öllu árið 1962, en
voru orðnar 24 árið 1994 og 38 árið 2002.
Áhrif bjórs á heildarneyslu
og drykkjumynstur
Hvaða áhrif hefur frjálslegri áfengisstefna haft
á heildarneyslu áfengis á Íslandi? Ef litið er á
neyslutölur sést að aukning hefur orðið á
áfengisneyslu landsmanna á undanförnum ára-
tugum. Árið 1966 nam heildarneysla áfengis
2,33 lítrum á mann en árið 1976 hafði hún auk-
ist í 2,88 lítra. Aukningin hófst því áður en lög-
gjöfin var gerð frjálslegri. Árið 1988, árið sem
bjórbanninu var aflétt, var neysla áfengis kom-
in í 3,39 lítra á mann. Árið 1990, fyrsta heila
árið eftir afnám bannsins jókst neyslan í 3,93
lítra á mann eða um tæp 20 prósent frá því árið
áður en bjórinn var leyfður. Árið 1995 var
neyslan hins vegar komin niður í 3,6 lítra á
mann sem er ekki miklu meira en fyrir afnám
bannsins.
Frjálslyndari áfengisstefna hefur þó óneitan-
lega ýtt undir heildarneyslu áfengis hér á landi
á síðustu árum og var hún orðin 4,86 lítrar af
hreinum vínanda á mann árið 2001. Fullvíst má
telja að afnám bjórbannsins er einungis einn
liður af mörgum bak við þessa aukningu. Ís-
lendingar drekka þó enn minna en flestar aðrar
vestrænar þjóðir en heldur hefur dregið úr bil-
inu milli okkar og annarra. Neyslumynstrið hef-
ur einnig breyst og hlutfall sterkra drykkja
minnkað. Færa má rök fyrir því að umgengni
við áfengi hafi almennt batnað á Íslandi en
vandi vegna áfengisfíknar ekki minnkað. Til-
koma bjórsins hefur ekki leitt til áfengisneyslu
á vinnustöðum eða meiri áfengisneyslu verka-
fólks en annarra einsog bjórandstæðingar ótt-
uðust lengi. Hins vegar er líklegt að áfengis sé
neytt oftar á Íslandi í kjölfar lögleiðingar bjórs
en líklegast minna í hvert sinn. Með breyttri
samfélagsgerð á Íslandi og opnun samfélags-
ins hefur kaupmáttur og frítími Íslendinga auk-
ist og viðhorf til áfengis orðið líkara því sem
tíðkast annars staðar í Vestur-Evrópu og heild-
arneysla áfengis vaxið að sama skapi.
Bjórbannið og stríðið
gegn fíkniefnum
Afnám bjórbannsins táknaði þó ekki endalok
baráttu Íslendinga við vímuefnin. Í kjölfarið
færðist nýr og aukinn kraftur í andstöðu Íslend-
inga við fíkniefni sem staðið hefur yfir linnulítið
síðan. Athyglisvert er að röksemdirnar eru ekki
ósvipaðar umræðunum um bjórbannið eins og
minnst var á hér að framan. Fíkniefnin, einsog
lengi var álitið með bjórinn, eru álitin sérstök
ógnun við unga fólkið og þar með framtíð þjóð-
arinnar enda sýna mælingar að neysla fíkniefna
er einkum bundin við yngri aldurshópa. Jafn-
framt er töluverð hætta talin á að neysla al-
gengasta fíkniefnisins kannabis leiði til neyslu
harðari fíkniefna rétt einsog álitið var með
neyslu bjórs og sterkara áfengis. Ekki er síður
athyglisvert að talsmenn bjórs á Alþingi héldu
því stundum fram að einmitt bjórinn væri
skaðminni en sterkara áfengi þar sem bjór
verkaði róandi en sterkt áfengi ýtti undir árásar-
girni. Á sama hátt hafa lögleiðingarsinnar í
Bandaríkjunum iðulega bent á að kannabis væri
róandi efni meðan sterkt áfengi æsti menn
meira uppi og áfengi væri því í raun skaðlegra
vímuefni en kannabis.
Í fyllingu tímans mun skyldleikinn milli áfeng-
isbannsins og núverandi fíkniefnabanns vafalít-
ið smám saman koma betur í ljós. Afleiðingar
bannstefnunnar eiga einnig sitthvað sameigin-
legt ekki síður en aukið frjálslyndi í vímuefna-
málum hvort sem um áfengi eða önnur vímu-
efni er að ræða. Smygl, ólagað og hættulegt
áfengi, sérsveitir lögreglu til að uppræta með-
ferð og neyslu áfengis með tilheyrandi fjölda-
handtökum og fangelsunum, ofbeldi í undir-
heimum, óheflaðir drykkjusiðir og mikill áfeng-
isvandi eiga sér skýra samsvörun í nútímasam-
félagi fíkniefnabannsins. En þrátt fyrir að hér sé
að mörgu leyti um sambærilegan málaflokk að
ræða er það efni í aðra sögu og stærri sem ekki
verður sögð frekar hér að sinni.
Helgi Gunnlaugsson (f. 1957) er prófessor í félagsfræði við
Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fjölda greina um vímu-
efnamál og er höfundur tveggja bóka þar sem komið er inn á
málaflokk vímuefna: Afbrot og Íslendingar. Háskólaútgáfan,
(2000) og Wayward Icelanders: Punishment, Boundary
Maintenance and the Creation of Crime. University of
Wisconsin Press, (2000).
bls. 31Fíkniefnavandi fortíðarinnar
28 Bjórinn Helgi Gunnlaugs 5.12.2002 16:52 Page 31