Morgunblaðið - 13.11.2015, Síða 18
18
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. NÓVEMBER 2015
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Pyntingar erubannaðarmeð lögum í
Kína. Engu að síður
eru pyntingar al-
gengar og mikið um
að lögregla pynti
fanga til að knýja fram játn-
ingar.
Mannréttindasamtökin Am-
nesty International sendu í gær
frá sér skýrslu, sem meðal ann-
ars er byggð á viðtölum við 37
lögfræðinga. Lögfræðingarnir
hafa sérhæft sig í málum sem
snúast um réttindi og eru þyrnir
í augum kommúnistastjórnar
landsins. Sumir þeirra hafa
sjálfir sætt ofbeldi fyrir að verja
skjólstæðinga sína.
Í skýrslunni segir frá marg-
víslegum pyntingaraðferðum.
Fangar eru beittir raflosti og
barsmíðum, haldið vakandi og
hlekkjaðir í járnstóla þar sem
þeir þurfa að vera í óþægilegri
stöðu svo klukkutímum skiptir.
Pyntingum er beitt um allt
landið. Samkvæmt opinberum
gögnum barst saksóknaraemb-
ætti Kína 1.321 tilkynning um að
pyntingum hefði verið beitt til
að knýja fram játningar frá 2008
fram á mitt þetta ár. Á þeim
tíma voru 279 einstaklingar
dæmdir fyrir að beita valdi.
Að sögn höfundar skýrsl-
unnar beinast pyntingarnar
einkum gegn lögmönnum, sem
hafa látið að sér kveða í mann-
réttindamálum, embætt-
ismönnum í varðhaldi vegna
spillingar og fylgjendum hreyf-
ingarinnar Falun Gong.
Kínversk stjórnvöld hafa sagt
að taka eigi pynt-
ingar föstum tök-
um, en svo virðist
sem það hafi lítinn
árangur borið.
Mannréttinda-
frömuðir halda því
fram að pyntingar hafi færst í
vöxt eftir að Xi Jinping komst til
valda fyrir þremur árum. Hann
hafi gefið út fyrirmæli um að
uppræta alla andstöðu við
kommúnistaflokkinn.
Kommúnistaflokkurinn í Kína
hefur innleitt ýmsar breytingar
á undanförnum áratugum og
margt hefur þokast í frjálsræð-
isátt. Línan er þó dregin við ein-
okun kommúnistaflokksins á
völdum í landinu. Forusta
flokksins er staðráðin í því að
fara ekki sömu leið og sovéski
kommúnistaflokkurinn fyrir
aldarfjórðungi.
Þess vegna er allt andóf kæft
og öllum brögðum beitt til að
þurrka blóðbaðið á Torgi hins
himneska friðar 1989 út úr
minni landsmanna.
Talsmaður kínverska utanrík-
isráðuneytisins sagði á blaða-
mannafundi í gær þegar spurt
var um skýrsluna að Kína væri
réttarríki. Haldið yrði áfram að
gera umbætur í mannréttinda-
málum og bæta réttarvernd
þannig að allir nytu sanngirni og
réttlætis.
Embættismenn kínverska
kommúnistaflokksins um allt
Kína virðast ekki líta málin
sömu augum. Í þeirra huga er
flokkurinn hafinn yfir lögin. Á
meðan svo er verður bið á um-
bótum.
Fögur fyrirheit um
umbætur hafa litlu
skilað og vandinn
virðist fara vaxandi}
Pyntingar í Kína
Lyfjaneysla erskuggahlið af-
reksíþrótta. Til-
fellin eru allt of
mörg. Á sínum tíma
fylgdist heimurinn
agndofa með þegar
Ben Johnson skaust af stað eins
og elding og setti heimsmet í 100
metra hlaupi. Hann hafði vart
tekið við ólympíugullinu þegar í
ljós kom að hann hafði fallið á
lyfjaprófi og var sviptur verð-
laununum.
Freistingin virðist mikil að
taka lyf til að bæta árangur. Í
Austur-Þýskalandi var slík
lyfjagjöf ríkisrekin og er ljóst að
ekki er ein báran stök í þeim
efnum.
Nú hefur Alþjóðalyfjaeft-
irlitið sett fram ásakanir um
kerfisbundna misnotkun lyfja í
frjálsum íþróttum í Rússlandi
og markvissa eyðingu sýna úr
íþróttamönnum. Rússum hefur
verið veittur frestur þar til í dag
til að svara ásökununum. Þeir
eiga yfir höfði sér að verða
meinuð þátttaka í ólympíu-
leikunum, sem fram fara í Bras-
ilíu á næsta ári.
Vitaly Mutko, ráðherra
íþróttamála í Rússlandi, brást
ókvæða við á mið-
vikudag, sagði
ásakanirnar tilraun
til að sverta ímynd
landsins og losna
við einn helsta
keppinautinn.
Vladimír Pútín Rússlands-
forseti sýndi meiri yfirvegun í
gær. Hann sagði að Rússar yrðu
að gera allt til að stöðva mis-
notkun lyfja í íþróttum, en bætti
við að ekki mætti láta alla frjáls-
íþróttamenn landsins gjalda fyr-
ir brotin. „Íþróttamenn, sem
aldrei hafa snert á lyfjum, ættu
ekki að gjalda fyrir þá, sem hafa
brotið af sér,“ sagði hann.
Misnotkun lyfja verður seint
útrýmt í íþróttum. Stundum
virðist sem eina ráðið sé að leyfa
lyfjanotkun og þá sigrar sá, sem
tekur bestu lyfin og innbyrðir
mest af þeim. Hann gæti þá deilt
verðlaununum með lyfja-
framleiðandanum.
En lyfjanotkun er bönnuð og
banninu verður að fylgja eftir af
hörku. Pútín hefur hins vegar
fyllilega rétt fyrir sér þegar
hann bendir á að sú barátta
megi ekki leiða til þess að þeim
verði líka refsað, sem hafa hald-
ið sér hreinum.
Með lyfjum er hægt
að fljúga hátt, en
brotlendingin getur
orðið hörð}
Afreksíþróttir og lyf
É
g hef nokkuð gaman af auglýs-
ingaherferðinni hjá Sorpu. Hef
séð verri auglýsingar en þessar.
Það er eitthvað mjög fyndið við
að sjá Helga Björns í þessu maf-
íósahlutverki. En punkturinn í herferðinni er
kannski sá að Sorpa fær til sín alla mannlífsflór-
una eða svo gott sem. Hvort sem henni líkar það
betur eða verr og er þar stóru sem smáu fargað.
Magnað atvik sem kunningi minn lenti í hjá
Sorpu rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá aug-
lýsingu frá fyrirtækinu á dögunum. Stóð kunn-
inginn þá í þeim undarlegu sporum að fara með
fullan kassa af hjálpartækjum ástalífsins til
förgunar. Kassinn og innihaldið hafði verið um
nokkurt skeið á heimili hans.
Útgáfa kunningjans er sú að sonurinn hafi
haldið upp á tvítugsafmæli með pomp og prakt.
Einhverra hluta vegna hafi vinir afmælisbarnsins ákveðið
að gefa honum ævibirgðir af kynlífshjálpartækjum. Son-
urinn sýndi þessari afmælisgjöf ekki nokkurn áhuga. Þeg-
ar kassinn hafði staðið óhreyfður nokkurn tíma inni í skáp
á heimilinu hafi eiginkonan sent kunningja minn af stað
með herlegheitin á haugana. Innihald þessa kassa yrði
ekki stundinni lengur á huggulegu setri fjölskyldunnar.
Útgáfa kunningja míns af tildrögum þess að hann fór
þessa ferð er í það minnsta á þessa leið.
Rólegt var um að litast í endurvinnslunni en kunninginn
býr í fremur fámennu samfélagi. Kassanum hafði hann lok-
að ágætlega í þeim tilgangi að forðast vandræðalegt augna-
blik ef hann skyldi rekast á einhvern sem hann
þekkti. Þegar hann hafði hent kassanum í
þjöppuna gafst honum tækifæri til þess að hafa
sig á brott og ljúka þessum óvenjulegu erinda-
gjörðum. Þá greip hann hins vegar einhver for-
vitni og löngun til að sjá þegar innihaldið lenti í
þjöppunni. Hugðist hann standa flissandi með
sjálfum sér þegar að því kæmi. Hefði hann bet-
ur forðað sér af vettvangi því í þann mun kem-
ur starfsmaður Sorpu askvaðandi. Nú vildi ein-
mitt svo leiðinlega til að starfsmaðurinn bjó í
sömu götu og kunningi minn. Þekktust þeir því
ágætlega. Kunningi minn er með allra
skemmtilegasta móti og því skiljanlegt að
starfsmaðurinn vildi ræða við hann um daginn
og veginn.
Þegar starfsmaðurinn ætlaði að hefja sam-
ræðurnar verður honum litið niður í þjöppuna.
Kassinn sem kunningi minn hafði verið að skila af sér lenti
á því augnabliki í þjöppunni. Afleiðingarnar urðu þær að
gervikynfæri bæði karla og kvenna þeyttust upp í loftið til
skiptis og minntu einna helst á erótíska útgáfu af flugelda-
sýningunni á Menningarnótt. Stóðu þeir nágrannarnir
þarna við þjöppuna og gátu ekki annað en starað á það
sem fyrir augu bar. Ekki fór framhjá starfsmanninum að
kunningi minn hafði þarna fargað ýmsum leikföngum sem
bera hugmyndaflugi og framtakssemi mannskepnunnar
fagurt vitni. Við svo búið litu þeir hvor á annan, horfðust í
augu, og röltu hvor í sína áttina án þess að segja eitt ein-
asta aukatekið orð. kris@mbl.is
Kristján
Jónsson
Pistill
Sýning erótískra muna í Sorpu
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen
BAKSVIÐ
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Veðurstofan hefur í áratugigefið út viðvaranir til sjósog lands þegar þörf hefurverið talin á slíku. Unnið
er að endurbótum á núverandi
viðvaranakerfi þar sem litaskiptar
viðvaranir verða nýttar til þess að
koma upplýsingum um möguleg
samfélagsleg áhrif veðurs til al-
mennings. Stefnt er að upptöku
kerfisins á fyrstu mánuðum næsta
árs, og í kjölfarið er fyrirhugað að
útfæra litaskipt viðvaranakerfi fyrir
alla náttúruvá.
Samfélagsleg áhrif eru lykil-
atriði í þeirri vinnu, sem nú fer fram
á vegum Veðurstofunnar. Theodór
Freyr Hervarsson, framkvæmda-
stjóri eftirlits- og spásviðs, segir að
stefnt sé að því að heildstætt viðvör-
unarkerfi verði komið í notkun fyrir
lok næsta árs.
Mat lagt á áhrif veðurs
„Í þessu kerfi munum við leggja
mat á hver áhrif veðurs verða og lita-
kóðað viðvörunarstig tekur mið af
því,“ segir Theodór. Viðvaranir
verða gefnar út í samráði við Al-
mannavarnir og verða í fjórum þrep-
um. Grænt táknar eðlilegt ástand og
enga hættu. Gult þýðir að fólk þurfi
að taka veður með í reikninginn en
ekki er reiknað með að það valdi
tjóni eða truflunum.
„Með appelsínugulum lit hefur
viðbúnaðarstig verið hækkað og
þýðir að veðrið geti haft í för með sér
staðbundnar truflanir og tjón,“ segir
Theodór. „Rautt lýsir þá alvarlegri
atburðum sem geti haft víðtæk áhrif
eins og að samgöngur fari algerlega
úr skorðum á landsvísu eða í lands-
hlutum. Svo dæmi sé nefnt gæti 50
millimetra úrkoma á tólf tímum haft
mikil áhrif á höfuðborgarsvæðinu,
en á Suðausturlandi myndi slíkt
tæpast hafa sömu áhrif, að minnsta
kosti ekki undir Vatnajökli því þar
er alvanalegt að rigni mjög mikið.
Reynt verður að taka tillit til
þess hvernig samfélagið er á hverju
svæði og innviðir þess. Horft verður
til margra þátta og viðvörun gefin út
á þeim grunni.
Þetta kerfi mun síðan þróast yf-
ir í aðra nátttúruvá eins og eldgos og
dreifingu ösku og annarra efna af
þeirra völdum, jarðskjálfta og flóða-
hættu. Vöktun á náttúruvá er undir
þaki Veðurstofunnar, en mengun af
mannavöldum fellur undir Um-
hverfisstofnun, sem við erum í góðu
samstarfi við.“
Breytt starf veðurfræðinga
Fjallað er um breytingar á vef
Veðurstofunnar og þar segir m.a.:
„Bakgrunnur þessara breytinga
liggur í því að starf veðurfræðings
hefur verið að breytast mikið að
undanförnu vegna tæknilegra fram-
fara, þróunar veðurlíkana og nú-
tímamiðlunar veðurupplýsinga.
Segja má að starf veðurfræð-
ings sé að færast frá skrifum veð-
urspáa yfir í túlkun og mat á áhrifum
veðurs á íslenskt samfélag, þótt
vissulega muni veðurfræðingar
halda áfram að skrifa veðurspár.
Starf veðurfræðings í framtíðinni
mun því beinast meira að ráðgjöf til
samfélagsins og viðbragðsaðila en
verið hefur.“
Theodór segir að með þessum
breytingum verði fækkun á útgáfu-
tímum veðurspáa og breytingar á
lestri í útvarpi. Eflaust telji ein-
hverjir að dregið verði úr þjónustu,
en hann segir markmiðið þvert á
móti að bæta veðurþjónustuna. Það
sé tímafrekt að skrifa veðurspá og til
að veðurfræðingar geti sinnt túlkun
og ráðgjöf hafi þurft að draga úr og
breyta annarri þjónustu. Breytingar
í þessa átt séu að verða víða um heim
og eigi án efa enn eftir að aukast.
Áhrif á samfélag í for-
gang í veðurþjónustu
Morgunblaðið/Eva Björk
Snjór í borginni Áhrif veðurs á samfélagið geta verið mikil og marg-
breytileg, leikir krakka í Foldaskóla voru t.d. öðruvísi í gær en í fyrradag.
Aðgangur að
upplýsingum
um veður og
spálíkönum
er mun opn-
ari og að-
gengilegri
heldur en fyr-
ir áratug.
Theodór seg-
ir að almenna
reglan sé sú að gögn sem sé
aflað fyrir almannafé séu að
mestu opin. Ef stofnanir þurfi
hins vegar að leggja í vinnu við
afhendingu gagna geti þær
rukkað fyrir þá þjónustu. Ríkis-
reknar veðurstofur séu í lönd-
um Evrópu, Bandaríkjunum og
víðar.
Veðurstofan notar eigið
reiknilíkan fyrir Ísland og haf-
svæðið í kring. Þar er einnig
stuðst við líkan frá Evrópsku
reiknimiðstöðinni og er það
ákveðinn grunnur í starfinu
eins og víða annars staðar.
Með eigið
reiknilíkan
OPNARI AÐGANGUR
AÐ UPPLÝSINGUM
Theodór Freyr
Hervarsson