Morgunblaðið - 11.02.2016, Qupperneq 30
30 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 11. FEBRÚAR 2016
Evonia eykur hárvöxt með því að
veita hárrótinni næringu og styrk.
Evonia er hlaðin bætiefnum sem
næra hárið og gera það gróskumeira.
Bætiefni ársins í Finnlandi 2012.
Evonia
www.birkiaska.is
SVIÐSLJÓS
Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
Haustið 1861 bað Ralph Gordon No-
el, 22 ára gamall enskur ferðalang-
ur, um hönd 16 ára gamallar stúlku
á bænum Grenjaðarstað í Aðaldal,
Guðnýjar Halldórsdóttur. Hún var
heitbundin öðrum pilti í sveitinni og
sagði nei. Hefði hún játast Noel
hefði hún orðið
greifynja á Eng-
landi. Líklegt er
að hún hafi vitað
að vonbiðillinn
var af aðalsætt-
um og dóttur-
sonur frægasta
og dáðasta skálds
Breta, Byrons lá-
varðar, er ástin á
heitmanni henn-
ar, Benedikt Jónssyni (1846-1939),
hefur vegið þyngra í hennar huga.
Heimili það sem Guðný og Benedikt
stofnuðu á Auðnum varð landsfrægt
fyrir menningarbrag. Þar var Bóka-
félag Þingeyinga sem Benedikt
stofnsetti. Af fimm dætrum þeirra
er kunnust skáldkonan Hulda (Unn-
ur Benediktsdóttir Bjarklind) sem
orti þjóðhátíðarlagið Hver á sér
fegra föðurland. Föðursystir Guð-
nýjar var nafna hennar, skáldkonan
Guðný frá Klömbrum.
Stórbýlið Grenjaðarstaður
Guðný fæddist á Geitafelli 1848,
dóttir Halldórs Jónssonar bónda.
Ung fluttist hún til föðurafa síns,
merkisklerksins séra Jóns Jóns-
sonar á Grenjaðarstað (1772-1866).
Hann stundaði lækningar í Eyja-
fjarðar- og Þingeyjarsýslum með-
fram prestsstörfum og fræðaiðk-
unum; hafði hann til þess leyfi
landlæknis og konungsbréf.
Grenjaðarstaður var stórbýli og
þangað lögðu margir leið sína. Hafa
bæjarhúsin varðveist eins og þau
voru á 19. öld og eru nú í umsjón
Þjóðminjasafnsins. Erlendir ferða-
menn voru fastagestir, en í þá tíð
voru ferðir hingað bundnar við efn-
aða yfirstéttarmenn. William Morris
var meðal gesta og nokkru fyrr
Frakkinn Paul Gaimard og ferða-
félagar hans. Höfðu þeir með sér úr
landi einstakt altarisklæði frá 14. öld
sem varðveitt var í kirkjunni á
staðnum. Það er nú í Cluny-safninu í
París.
Lærbrotinn aðalsmaður
Einn þeirra sem kvöddu dyra á
Grenjaðarstað var ungur Englend-
ingur, fyrrnefndur Ralph Gordon
Noel (1839-1906). Hann var af
enskri aðalsætt og hafði fengið mik-
inn áhuga á íslenskri menningu.
Ákvað hann að heimsækja landið og
kom sumarið 1861. Virðist hann hafa
verið einn á ferð. Noel varð fyrir því
óhappi að hrasa í einhverri hraun-
breiðunni fyrir norðan og lærbrotna.
Var hann fluttur til séra Jóns til
umönnunar. Það hefur líklega orðið
hlutskipti Guðnýjar að annast um
gestinn. Í minningargrein um hana
1935 er komist svo að orði að hún
hafi verið „hin glæsilegasta mær“.
Svo mikið er víst að hann varð ákaf-
lega ástfanginn af henni, gat ekki
hugsað sér lífið án hennar og bað um
hönd hennar. En Guðný var, þrátt
fyrir ungan aldur, þegar heitbundin
sveitunga sínum á svipuðum aldri,
Benedikt Jónssyni frá Þverá, og
hafnaði bónorðinu sem fyrr segir.
Frásögn Baring-Gould
Sumarið 1862 kom hingað til lands
enskur prestur og afkstamikill rit-
höfundur, Sabine Baring-Gould
(1834-1924). Ritaði hann bók um Ís-
landsferðina og fjallar einnig um
kynni sín af landi og þjóð í endur-
minningum sínum. Skrif hans ein-
kennast af talsverðu yfirlæti og for-
dómum. Hann kveðst hafa rekist á
Noel á Þingvöllum og hafi hann þá
verið á heimleið. Baring-Gould segir
að Noel hafi dvalist á Grenjaðarstað
(sem hann reyndar nefnir Gríms-
tungu) allan veturinn til þess að
reyna að fá Guðnýju til að giftast
sér. „Stúlkan var aðlaðandi en ekki
falleg,“ skrifar Baring-Gould sem
kveðst hafa komið á bæinn. Hún hafi
heillast af óþrifalegum pilti með
mikinn lubba sem hafi annast um
hesta hans þegar hann var þar á
ferð. „Ég fylgdist með honum klóra
sér ákaft á öllum líkamanum og
ályktaði að þar væri þéttbýlt,“ segir
Baring-Gould og gefur í skyn að
Benedikt hafi verið lúsugur. „Ef hún
hefði vitað hvaða framtíð biði hennar
sem greifynju, og getað skilið hvað í
því fælist, hefði hún kannski hafnað
hestasveinum,“ bætir hann við og
spyr sig síðan án þess að svara: „En
hefði þessi urt orðið hamingjusam-
ari í öðrum jarðvegi?“
Baring-Gould sér líka ástæðu til
að fræða lesendur sína um að hann
þekki til fjölskyldu Noels. Hann sé
næstelstur sona jarlsins af Lovelace.
Elsti bróðir hans, Ockham lávarður,
hafi verið sérkennilegur maður. Hafi
hann þrátt fyrir stéttarstöðu sína
starfað sem hafnarverkamaður í
Chatham. Þegar hann hafi látist hafi
Noel erft aðalstign föðurins, fyrst
orðið greifi og loks jarl af Lovelace.
Móðir Noels, Ada Lovelace, dóttir
Byrons lávarðar, var rómuð fyrir
tölvísi sína. Hún hefur verið kölluð
fyrsti forritarinn. Um sögu hennar
var grein hér í blaðinu 30. nóvember
í fyrra.
Borin vel sagan
Hjónaband Guðnýjar og Bene-
dikts mun hafa orðið gæfuríkt. Er
Guðnýju borin vel sagan í minning-
argrein Jónasar Þorbergssonar út-
varpsstjóra í Tímanum. Hafi kær-
leika hennar til þeirra sem mest
þurftu kærleika við, manna jafnt
sem málleysingja, verið við brugðið.
„Af höndum allt þú inntir / með ást
og von og trú,“ orti Unnur (Hulda),
dóttir Guðnýjar, að henni látinni.
Benedikt naut mikilla vinsælda og
virðingar, var hreppstjóri, þjóðmála-
skörungur og bókavörður. Kallar
Jónas hann „hina bjartsýnustu hetju
sem uppi hafi verið Þingeyjarsýslu
síðustu mannsaldrana.“
Af Ralph Gordon Noel, jarlinum
af Lovelace, er það að segja að ekki
er vitað um nein tengsl hans við Ís-
land eftir dvölina hér. Vegna auðæfa
fjölskyldunnar þurfti hann engu
föstu starfi að gegna, en átti mörg
áhugamál, iðkaði fjallgöngur í sviss-
nesku Ölpunum af miklu kappi, las
fagurbókmenntir, hlustaði á klass-
íska tónlist og fylgdist með mynd-
list.
Hefði orðið greifynja á Englandi
Dóttursonur Byrons lávarðar varð 1861 yfir sig ástfanginn af 16 ára gamalli íslenskri sveitastúlku
Guðný Halldórsdóttir hafnaði bónorði hans Vildi frekar bókhneigðan sveitastrák á næsta bæ
Ljósmynd/www.mats.is
Grenjaðarstaður Bæjarhúsin eru að mestu með sama svip og á ofanverðri 19. öld þegar Guðný Halldórsdóttir bjó þar hjá séra Jóni Jónssyni, föðurafa sínum.
Ljósmynd/Þjóðminjasafn Íslands
Hjónin Guðný Halldórsdóttir og Benedikt Jónsson stóðu fyrir miklu menn-
ingarheimili á Auðnum í Þingeyjarsýslu. Þar var Bókasafn Þingeyinga.
Byron lávarður (1788-1824) var frægasta
og dáðasta ljóðskáld Breta á 19. öld. Þátt-
taka hans í frelsisbaráttu Grikkja jók
hróður hans meðal menntamanna um alla
Evrópu. Ekki spillti hve glæsilegur hann
var útlits. Sagt er að mörgum konum hafi
legið við yfirliði við það eitt að vera í ná-
vist hans. Frjálslegt munaðarlíf hans
vakti í senn hrifningu og hneykslan. Hann
var fordæmdur heimafyrir þegar spurðist
að hann hefði átt barn með hálfsystur
sinni, notið ásta með öðrum karlmönnum
og neytt eiturlyfja..
Grímur Thomsen varð einna fyrstur til
að vekja athygli Dana á ljóðum Byrons
með prófritgerð um hann við Hafnarhá-
skóla. Skáldin Gísli Brynjúlfsson, Matt-
hías Jochumsson og Steingrímur Thor-
steinsson þýddu mörg ljóð eftir Byron á íslensku. Matthías sneri
sorgarleiknum Manfred. Þar er fræg sena sem talið er að vísi til sam-
bandsins við hálfsysturina:
Astarta! elska! viltu ei tala við mig
eg hef svo lengi, lengi kvalist, kvalist. -
Lít á mig, þú ert ekki meira umbreytt
af gröfinnni, en eg em sakir þín;
þú unnir mér úr hófi, eg þér eins, -
var okkur þetta áskapað, að kvelja
hvort annað svo, þótt dauðasynd við drýgðum
með ástum þeim, sem okkur brann í milli?
Skáldbræðurnir og vinirnir Halldór Laxness og Jóhann Jónsson tign-
uðu Byron. Tólf ára gerði Halldór stóra teikningu af honum sem enn er
varðveitt. Um Jóhann var sagt: að hann væri „fagur eins og Byron, skáld
eins og Byron, haltur eins og Byron.“
Var frægastur og dáðastur
SKÁLDIÐ BYRON LÁVARÐUR
Byron lávarður.
Ralph Gordon Noel