Morgunblaðið - 11.06.2016, Blaðsíða 6
6 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. JÚNÍ 2016
Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
Eigendur Bryggjuhússins svonefnda við
Vesturgötu 2 vilja opna að nýju ganginn
fyrir miðju hússins og koma húsinu að því
leyti í sama horf og á 19. öld þegar það var
nokkurs konar borgarhlið Reykjavíkur. Mál-
ið er til umfjöllunar í umhverfis- og skipu-
lagsráði sem leitað hefur álits Minjastofn-
unar, Borgarsögusafns og fleiri aðila. Í
húsinu er nú starfrækt Restaurant Reykja-
vík.
Fram kemur í fundargerð um málið að
auk þess að opna ganginn vilja eigendur fá
að stækka lóð hússins til suðvesturs, hækka
mæni hússins og breyta þakhalla ásamt því
að gera kvisti til norðurs. Þá vilja þeir grafa
út kjallara undir öllu húsinu, og fleira, allt
eftir teikningum Andrúms arkitekta.
Þegar húsið var reist árið 1863 var um-
hverfið talsvert frábrugðið því sem nú er.
Sjór var þar sem Tryggvagata er og
bryggja fyrir aftan húsið. Danskur útgerð-
armaður, C.P.A. Koch, lét byggja húsið.
Skip hans fluttu vörur og póst til landsins
frá Kaupmannahöfn. Bæjarstjórn samþykkti
framkvæmdina með því skilyrði að opinn
gangur skyldi ávallt vera gegnum húsið að
bryggjunni fyrir aftan. Um þennan gang
fóru margir þeir sem komu sjóleiðis til
Reykjavíkur að utan eða annars staðar að af
landinu. Fischerverslun eignaðist húsið 1880
og var þá bryggjan nefnd Fischerbryggja.
Árið 1904 tók Duusverslun við eigninni og
bryggjunni sem þá var farið að kalla Duus-
bryggju. Árið 1888 var ákveðið að númera
öll hús í Reykjavík. Bryggjuhúsið fékk
fyrsta númerið; Vesturgata 2, og var notað
sem miðpunktur og öll götunúmer miðuðu
út frá húsinu.
Ganginum var lokað seint á þriðja áratug
síðustu aldar. Byggt hefur verið við húsið
sem nú er talsvert breytt frá upprunalegu
útliti. Upphaflega var húsið einlyft með
portbyggðu risi. Yfir ganginum var stór
kvistur sem vísaði út að Aðalstræti.
Hugmyndir um að opna ganginn að nýju
hafa nokkrum sinnum verið viðraðar á und-
anförnum árum en ekki hefur orðið að fram-
kvæmdum. Bryggjuhúsið var lengi notað til
ýmiss konar verslunarreksturs. Þar var
Áfengisverslun ríkisins, heildsala, skrif-
stofur, vefnaðarvöruverslun, verslunin Ála-
foss og blaðaútgáfa. Síðustu ár hafa þar ver-
ið rekin veitingahús undir ýmsum nöfnum.
Ljósmynd/Pétur Brynjólfsson
„Borgarhliðið“ Þannig var húsið fram til 1907 nema hvað hér er komið bárujárn á þakið.
Ljósmynd/Vefur Restaurant Reykjavík
Í dag Bryggjuhúsið eins og það lítur út í dag. Þar er nú veitingahúsið Restaurant Reykjavík.
Vilja opna „borgarhliðið“ að nýju
Vesturgata 2 byggð 1863 Opinn gangur átti ávallt að vera gegnum húsið að bryggju
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Tíu fyrrverandi skipverjar á frysti-
togaranum Pétri Jónssyni RE-69
fóru til Flateyrar um sjómannadags-
helgina, fyrstu helgina í júní. Þar
rifjuðu þeir upp atburð sem enginn
þeirra getur gleymt.
Áhöfnin á togaranum kom fyrst á
vettvang eftir að mannskætt snjó-
flóð féll á Flateyri aðfaranótt 26.
október 1995. Fimmtán skipverjar
fóru í land og tóku ásamt heima-
mönnum þátt í leitinni að þeim sem
lentu í snjóflóðinu. Þeir komu að því
að finna nítján manns, þar af eina
stúlku á lífi. Morguninn eftir fór tog-
arinn í veiðiferð sem stóð í þrjár vik-
ur og þurftu sjómennirnir að vinna
sjálfir úr erfiðri reynslu sinni.
Björgunarafrek skipverjanna á
Pétri Jónssyni RE var rifjað upp í
Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 16.
nóvember síðastliðinn.
Ólafur William Hand, einn skip-
verjanna á Pétri Jónssyni RE, var í
hópi þeirra sem fóru til Flateyrar
um sjómannadagshelgina. Hann
sagði að einungis tveir úr hópnum
hefðu komið til Flateyrar eftir snjó-
flóðið þar til nú. Annar þeirra er
kvæntur konu frá Flateyri og hefur
því komið þangað nokkrum sinnum.
Hinn hafði komið þangað einu sinni
síðan snjóflóðið féll.
„Ferðin var fyrst og fremst hugs-
uð sem uppgjör okkar við liðna tíð,“
sagði Ólafur. „Við hittum Slysa-
varnafélagið, björgunarsveitar-
menn, kvenfélagið og fleiri Flateyr-
inga á laugardeginum. Við fórum í
mjög skemmtilega göngu um bæinn
með þeim þar sem þau útskýrðu að-
stæðurnar og hvernig þau höfðu
upplifað þetta.“ Þá fengu þeir að sjá
kort sem sýndi hvar snjóflóðið fór
yfir bæinn og hvar þeir höfðu verið
að grafa. Síðan lá leiðin í félagsheim-
ilið þar sem sýnd var stutt heimild-
armynd um snjóflóðið.
„Svo áttum við saman kyrrð-
arstund í kirkjunni og hugleiddum
aðeins liðna tíð. Einnig vottuðum við
þeim sem komust af og eins þeim
sem létust virðingu okkar,“ sagði
Ólafur.
Ljósmynd/Raggi Óla
Flateyri Tíu skipverjar af frystitogaranum Pétri Jónssyni RE við minnisvarða um þá sem fórust í snjóflóðinu á Flat-
eyri 1995. Togarinn var fyrstur á vettvang til að veita hjálp eftir snjóflóðið og unnu skipverjarnir við að leita að
fólki. F.v.: Andrés Magnússon, Kristján Pétursson, Magnús Þórarinn, Ólafur William Hand, Friðgeir Bjarkason,
Ragnar Ólason, Pétur Blöndal, Ingþór Sigurðsson, Sigurður Þórsson og Birgir Kjartansson.
Gerðu upp reynslu sína
úr snjóflóðinu 1995
Skipverjar á Pétri Jónssyni RE komu fyrstir til hjálpar
Fyrirhuguðum samningafundi Fé-
lags íslenskra flugumferðarstjóra
(FÍF) og Samtaka atvinnulífsins í
gær var frestað fram á mánudag.
Sigurjón Jónasson, formaður FÍF,
þurfti að vinna í fyrrinótt því að
ekki tókst að manna næturvakt.
Ríkissáttasemjari hafði boðað deilu-
aðila á fund klukkan 8.30 í gær.
„Fundinum var frestað að beiðni
stéttarfélagsins. Það kom fram í
[gær]morgun. Þeir áttu erfitt með
að manna fundinn og því var honum
frestað til mánudagsmorguns,“ seg-
ir Ragnar Árnason, forstöðumaður
vinnumarkaðssviðs Samtaka at-
vinnulífsins, en SA semja við flug-
umferðarstjóra fyrir hönd Isavia.
Lög voru sett á kjaradeilu FÍF sl.
miðvikudag, en yfirvinnubann hafði
þá verið hjá flugumferðarstjórum
frá byrjun apríl sl. Hafa flugum-
ferðarstjórar frest til 24. júní til að
leysa úr kjaradeilunni. Takist það
ekki verður skipaður gerðardómur
til að úrskurða um laun þeirra. Í
ályktun frá félagsfundi FÍF kemur
fram að u.þ.b. fimmta hver klukku-
stund hjá flugumferðarstjórum hafi,
vegna manneklu í stéttinni, verið
unnin í yfirvinnu.
Ragnar segir að frestunin hljóti
að vera eitthvað tilfallandi og hann
neiti að trúa að FÍF sé enn í að-
gerðum. „Það eru ekki aðgerðir að
mæta ekki á samningafundi. Við
tökum bara upp þráðinn á mánu-
dag. Við ætlum að nýta tímann til
24. júní, sem er þessi gluggi sem er
opinn samkvæmt lögunum. Annars
tekur gerðardómur við,“ segir
Ragnar.
Fundi frestað
vegna næturvinnu
Formaður FÍF komst ekki á fund