Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.06.2016, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.06.2016, Blaðsíða 37
aðeins um tólfti hver launamaður í verkalýðsfélagi. Þetta er svipuð þróun og sést hefur í öðrum stærri ríkjum, svo sem í Þýskalandi, þar sem hlutfallið hefur farið úr rúmum þriðjungi í innan við fimmtung, og í Bandaríkjunum, þar sem hlutfallið hefur frá árinu 1960 hrapað úr um þriðjungi launamanna í um tíunda hvern launamann. Ísland er afar ólíkt að þessu leyti; talið er að um fjórir af hverjum fimm launamönnum hér á landi séu í stéttarfélagi, sem er langhæsta hlutfallið á meðal OECD-ríkjanna, sem eru þau ríki sem við viljum helst bera okkur saman við. Jafnvel Svíþjóð, Dan- mörk og Finnland eru með lægra hlutfall en við og í Noregi er aðeins um helmingur í stéttarfélagi. Meðaltalið í OECD er innan við fimmtungur. Ástandið hér á landi er því umhugsunarvert að þessu leyti, sem og þau tök sem stéttarfélög og sam- tök fyrirtækja fá að hafa þegar kemur að atvinnu fólks, sem það mætti að ósekju hafa meira sjálft um að segja. Og í þessu sambandi er það ekki aðeins félagsaðildin sem skiptir máli; tökin ná einnig um margt til þeirra sem utan félaga standa. Reynt að þvinga frönsk dagblöð Félagsaðildin er sem sagt ekki endilega það sem mestu ræður um vinnumarkaðinn og ekki heldur um átökin sem þar kunna að verða eða um þau meðul sem beitt er. Þó að verkalýðsfélögin frönsku hafi ekki innan sinna vébanda nema um 8% launafólks eru þau engu að síður áhrifamikil langt úr hófi fram. Þannig gerðist það til að mynda á dögunum að hinu harð- snúna verkalýðsfélagi CGT líkaði ekki við afstöðu franskra dagblaða til birtingar á grein eftir formann félagsins. Dagblöðin höfðu ekki áhuga á að taka við fyrirmælum um að birta greinina í öllum frönskum dagblöðum og höfnuðu birtingunni. Átti þetta jafnt við um dagblöð sem jafnan eru talin til hægri og hin sem þykja vinstra megin í pólitíska litrófinu. Á þessu var þó ein undantekning; dagblaðið L‘Humanité, sem áður var opinbert blað franska Kommúnistaflokksins, birti greinina. Þennan dag var blaðið L‘Humanité eina dagblaðið sem kom út á prenti í Frakklandi; önn- ur blöð urðu að láta vefútgáfu nægja. Þetta var alvarleg aðför verkalýðsfélags að tján- ingarfrelsinu. Eins og gefur að skilja kvörtuðu dag- blöðin sem urðu fyrir barðinu á aðgerðunum undan því að hafa verið tekin í gíslingu fyrir að hafa neitað að beygja sig undir vilja verkalýðsforkólfanna en sú kvörtun skilar litlu eftir að útgáfan hefur verið hindruð. Ef ekki má reka vilja færri ráða Ekki er að undra að við þessar aðstæður skuli ríkis- stjórnin, sem liggur vinstra megin og naut hefðbund- ins stuðnings verkalýðsfélaganna, hafa lagt til breyt- ingar á franskri vinnulöggjöf. Þar er um að ræða að veita meiri sveigjanleika, einkum um vinnutíma, en hann er lögboðinn stuttur og lítt sveigjanlegur. Sama gildir um möguleika á uppsögnum starfsmanna; þær eru miklum takmörkunum háðar, sem hefur þær óhjákvæmilegu afleiðingar að frönsk fyrirtæki eru mjög hikandi við að ráða nýja starfsmenn. Franska löggjöfin á þessu sviði er engin smásmíði, heilar 3.280 blaðsíður, svo að ekki þarf að koma á óvart að François Hollande forseti og Manuel Valls forsætisráðherra skuli hafa breytt um stefnu og vilji nú, þrátt fyrir þrýsting margra hefðbundinna stuðn- ingsmanna, reyna að létta á löggjöfinni. Um tíundi hver Frakki er atvinnulaus og hátt í fjórðungur þeirra sem yngri eru. Þetta eru ógnvekjandi tölur og um leið óþarfar. Þetta mikið atvinnuleysi leggur of miklar byrðar á velferðarkerfið og eykur ójöfnuð í landinu, eins og atvinnuleysi gerir jafnan, auk þess að ýta undir óróa innanlands. Hafi fólk ekkert við að vera, ekki síst yngra fólk, er miklum mun líklegra að það leiðist út á glapstigu en ef það finnur kröftum sínum viðnám á uppbyggilegan hátt. Ísland getur ekki án flugsins verið Íslendingar hafa fengið að kynnast verkföllum eða annars konar átökum á vinnumarkaði þó að þau séu sem betur fer mun óalgengari en í Frakklandi. Nýj- asta dæmið er aðgerðir flugumferðarstjóra, en sá hópur hefur einnig látið finna fyrir sér í Frakklandi að undanförnu. Þar eins og hér eru flugumferðar- stjórar á meðal þeirra sem geta, þrátt fyrir að vera ekki margir, haft gífurleg áhrif á allt samfélagið. Í greinargerð með frumvarpi til nýsamþykktra laga Alþingis gegn aðgerðum flugumferðastjóra má lesa um þau áhrif sem samfélagið getur orðið fyrir fái slíkar aðgerðir að halda áfram óáreittar, að ekki sé talað um að færast í aukana. Landsmenn geta ekki búið við það, sér í lagi þegar haft er í huga hvar landið er á hnettinum og umlukið sjó á alla vegu, að þeir sem stjórna flugumferð leggi niður störf og hindri aðra í að vinna þau. Í Frakk- landi eru slíkar aðgerðir bagalegar en þeir sem þang- að vilja eða þaðan komast hafa önnur ráð. Þeir sem þurfa að komast hingað eða héðan hafa almennt enga aðra raunhæfa kosti en flugleiðina. Ógnvaldar af ýmsu tagi, hvort sem þeir eru frá náttúrunni komnir, eins og Zika-veiran, eða illvirkjar sem kjósa að lifa utan siðaðs samfélags manna, eins og hryðjuverkamennirnir í Frakklandi og Belgíu, valda þeim sem vilja lifa í sátt og samlyndi innan hins siðaða samfélags miklum erfiðleikum. Óþarfi er að auka á þann vanda með því að þeir sem vilja lifa í góðu samfélagi við aðra menn beiti þá þvingunum, eins og gerðist til dæmis í því tilviki þegar dagblöð fengust ekki prentuð í Frakklandi vegna óréttmætra aðgerða verkalýðsfélags. Ágreiningur um kaup og kjör kemur óhjákvæmi- lega upp með reglulegu millibili en þær aðferðir sem stundum eru notaðar til að leysa hann eru ekki til þess fallnar að auka velferð og hagsæld í samfélag- inu. Gestgjafar Evrópumótsins þurfa mjög á því að halda að taka til í því sem snýr að vinnumarkaði og atvinnu. Hjá okkur, ólíkt því sem þekkist hjá fyrr- nefndum gestgjöfum, er blessunarlega næg atvinna og lítið um margvíslega annars konar óáran sem aðr- ir glíma við. Væri ekki gott ef okkur auðnaðist líka að leysa samninga um kaup og kjör án óhóflegra átaka? Morgunblaðið/Ómar ’ Þennan dag var blaðið L‘Humanité eina dagblaðið sem kom út á prenti í Frakklandi; önnur blöð urðu að láta vef- útgáfu nægja. Þetta var alvarleg aðför verkalýðsfélags að tjáningarfrelsi. 12.6. 2016 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 37

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.