Morgunblaðið - 19.08.2016, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 19.08.2016, Blaðsíða 31
MENNING 31 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. ÁGÚST 2016 VIÐTAL Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Starfsárið verður mjög fjölbreytt. Við ætlum að sinna hefðinni með rússnesku óperunni Évgení Onegin auk þess sem við verðum með nýja og ferska uppfærslu af Mannsröddinni. Við munum kynna nýja söngvara til leiks á hádegistónleikum í Norður- ljósum undir yfirskriftinni Kúnstpása og svo munum við uppfræða börnin og unga fólkið um óperulistformið með markvissu átaki,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Ís- lensku óperunnar, en tilkynnt var um nýtt starfsár í gær. Ljóst er að í vetur má kenna ýmissa grasa, en stjarna frá Bolshoj-leikhúsinu í Moskvu, Andrey Zhilikhovsky, mun meðal annars ljá rússnesku óperunni rödd sína. Tvær erlendar stjörnur „Við erum að hugsa lengra fram í tímann en við höfum gert áður. Það kemur til bæði af því að við erum hérna í húsi sem er bókað langt fram í tímann og svo er það nauðsynlegt í dag fyrir margra hluta sakir að huga að langtímaplönum, bæði svo það geti verið stöðugleiki í rekstri og við höf- um betri aðgang að listamönnum. Við erum núna að kynna heilt starfsár, sem ég held að hafi ekki verið gert áð- ur hjá Íslensku óperunni. Við byrjum á þessari rússnesku óperu sem er ein vinsælasta ópera Tsjaíkovskíj. Það er til að mynda búið að sýna hana sam- fleytt í Bolshoj-leikhúsinu frá því að hún var samin. Við erum með stjörn- una sem syngur þetta á Bolshoj í titil- hlutverkinu hjá okkur og er það mjög spennandi. Þó að Íslenska óperan hafi verið stofnuð til að veita íslensk- um söngvurum atvinnutækifæri, og það verði alltaf hluti af meginmark- miðum Íslensku óperunnar, er mjög gaman að geta boðið svona fram- úrskarandi erlendum gestum að taka þátt í uppfærslum okkar. Svo verðum við líka með margverðlaunaðan leik- stjóra, Anthony Pilavachi, sem hefur meðal annars hlotið hin virtu Echo- verðlaun fyrir uppfærslu sína á Nifl- ungarhringnum. Hann þykir mikill galdramaður í uppsetningu ópera og mig grunar að hann lumi á nokkrum óvæntum töfrabrögðum þegar hann setur upp Évgení Onegin fyrir okk- ur,“ segir hún. Sópransöngkona Þóra Einarsdóttir fer með hlutverk hinnar ungu Tatjönu og Elmar Gilbertsson tenór syngur hlutverk skáldsins Lenskís. Franski hljómsveitarstjór- inn Benjamin Levy mun einnig stjórna hjá Íslensku óperunni í annað sinn, en hann hélt um sprotann síðast í Don Giovanni frá síðasta leikári. Sýningarnar verða að sjálfsögðu í Eldborg, en leikmyndin verður í höndum Evu Signýjar Berger, bún- ingar eru í höndum Maríu Th. Ólafs- dóttur og Björn Bergsteinn Guð- mundsson sér um lýsingu. Steinunn Birna bætir við að sem óperustjóri verði hún að finna jafnvægið á milli þess að sinna hefðbundnum upp- færslum og þróa listformið áfram og gera eitthvað nýtt og ferskt. „Þar komum við einmitt að næstu uppfærslu okkar, sem heitir Manns- röddin og er eftir Francis Poulenc, en við verðum með alveg nýja sviðsetn- ingu í leikstjórn Brynhildar Guðjóns- dóttur. Það mun ekki einungis verða söngur, en verkið er einþáttungur um síðasta símtal konu, sem er á barmi örvæntingar, til elskhuga síns sem er orðinn ástfanginn af annarri konu. Mjög dramatískur efniviður, eins og reyndar í flestum óperum. Leikkonan Elva Ósk Ólafsdóttir fer með aðal- hlutverkið Elle, ásamt Auði Gunn- arsdóttur sópransöngkonu, og það verður mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr þessari nýju nálgun á óp- eru sem margir þekkja,“ segir hún. Byrja með óperuuppeldi „Síðan munum við standa fyrir mánaðarlegum hádegistónleikum í Norðurljósum sem við köllum Kúnst- pása. Þar munu nokkrir af okkar framúrskarandi söngvurum koma fram ásamt ungum söngvurum sem eru að stíga sín fyrstu skref. Það verður enginn aðgangseyrir á við- burðina og því tilvalið fyrir fólk að koma og gera sér menningarlegt há- degi. Efnisskráin á þessum tónleikum verður mjög fjölbreytt, allt frá óperu- tónlist og jafnvel yfir í ljóðasöng. Til viðbótar við þetta ætlum við að byrja með ákveðið listauppeldi í janúar. Við munum setja á laggirnar krakka- óperuklúbb og ungliðahreyfingu og vinnum þannig markvisst að óperu- uppeldi því það er augljóst að list- formið á sér ekki mjög glæsta framtíð ef ekki verða til nýir áhorfendahópar. Við vitum líka að ef við hrífumst ekki af einhverju í bernsku eru minni líkur á því að við gerum það seinna á æv- inni. Börnin í krakkaklúbbnum munu síðan taka þátt í uppfærslum okkar og hjálpa okkur við að búa til leik- muni fyrir sýningar og fleira spenn- andi,“ segir Steinunn Birna. „Meirihluti söngvaranna er ís- lenskur, fyrir utan Færeyinginn Rúna Brattaberg sem fer með hlut- verk greifans Gremin í Évgení Oneg- in. Hann er mjög flottur söngvari og er að syngja víða um heim, þar á með- al í Metropolitan. Það er mikill áhugi fyrir uppfærslunni í Færeyjum og það væri ekki leiðinlegt ef við fengj- um nokkra frændur þaðan í heim- sókn á sýninguna. Við erum einmitt að huga meira að menningarferða- mennskunni og erum núna til dæmis farin að selja miða í Rússlandi á þessa uppfærslu okkar, enda verður þetta í fyrsta skipið sem ópera er sett upp á rússnesku hér á landi. Mér þykir það mjög mikilvægt að óperur séu fluttar á frummálinu. Þessi melankólíska rómantík sem rússneskan hefur í för með sér myndi tapast svolítið ef við færum að syngja þetta á íslensku. Þó verður texta varpað á skjá þannig að fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að skilja ekki það sem fram fer,“ segir hún og kveður jafnframt að óperan hafi einu sinni verið flutt áður á Ís- landi, nánar tiltekið í Gamla bíói, en þá á íslensku. Eldborgarsalur göldróttur Steinunn Birna kveður það hafa verið mikið í umræðunni að Eldborg sé ekki salur byggður fyrir leikhús og óperur, og slíkar sýningar sem settar eru þar upp líði fyrir það. „Mér finnst það í sjálfu sér ekki skipta öllu máli vegna þess að það er svo dásamlegur hljómburður í salnum. Það er þó vissulega áskorun að láta leikhúsgaldurinn gerast í saln- um. Ef við horfum hins vegar til dæmis til Finnlands er verið að setja þar upp óperur í kastölum þar sem er ekki einu sinni hljómsveitagryfja. Á Íslandi hættir okkur svolítið til að hugsa um það sem við erum ekki með í stað þess að vinna úr því sem við höfum. Ég sé þarna mjög mikil sókn- artækifæri sem þurfa alls ekki að líða fyrir það að Eldborg sé ekki óp- erusalur eða leikhús með turni og tjöldum. Ég held þvert á móti að þarna geti átt sér stað uppfærslur sem geta notið sín enn betur, þá sér- staklega vegna hljómburðarins. Salurinn er líka ótrúlega göldróttur í allri sinni dýrð, hann hefur svo mikla dýpt,“ segir hún. Þá er gaman að segja frá því að Steinunn Birna hefur verið valin ásamt tólf listrænum stjórnendum víðs vegar að úr heim- inum til þess að taka þátt í virtu al- þjóðlegu prógrammi sem er hannað til þess að veita framúrskarandi stjórnendum listastofnana tækifæri til þess að vinna saman yfir lengri tíma að því að móta starfsemina fyrir þær stofnanir sem þeir stjórna og skiptast á reynslu og þekkingu. Steinunn Birna var meðal þeirra sem valin voru úr 450 manna hópi stjórnenda og mun taka þátt í þessu verkefni sem leitt er af Michael Kai- ser, fyrrverandi forseta Kennedy Center í Washington, þar sem það fer fram næstu þrjú sumur. Hefur Steinunn nýlokið fyrsta hlutanum en vinnan heldur áfram allt árið þess á milli. Í tilkynningu segir að þetta sé í fyrsta sinn sem Íslendingur er valinn í þetta eftirsótta prógramm, sem þykir mikill heiður. „Þetta er ótrúlega skemmtilegt tækifæri og persónulegur heiður sem ég er þakklát fyrir. Það er líka frábært fyrir Íslensku óperuna að fá að vera þátttakandi í svona al- þjóðlegu starfi. Þetta er ómetanlegt tækifæri til þess að vinna með leið- andi listrænum stjórnendum víða að úr heiminum. Þessi stofnun hefur það að markmiði að styrkja og styðja við þá stjórnendur sem hún velur að starfa með og snýst um að stuðla að velgengni listastofnana og glæstri framtíð sviðslista,“ segir hún. Listin gefur lífinu innihald „Það er með ólíkindum að þjóð sem telur jafn marga og tvær götur á Manhattan eða í borginni Malmö í Svíþjóð skuli eiga þjóðaróperu. Fólk leiðir ekki oft hugann að því að það sé ekki sjálfgefið. Það vekur alltaf talsverða athygli þegar ég ræði við erlenda kollega mína hvað við eigum glæsilegt lista- og menningarlíf. Þeir búa flestir við talsvert aðrar aðstæður með talsvert lengri hefð og sögu í listforminu. Við þykjum vera að gera alveg ótrúlega hluti hérna og ég tel vera margar ástæð- ur fyrir því. Við höfum mikla þörf fyrir að gefa lífi okkar innihald og tilgang vegna þess að við höfum gengið í gegnum ýmislegt mótlæti. Þegar allt annað bregst, bankar og annað forgengilegt, er það listin og menningin sem koma til sögunnar og gefa lífinu það innihald og þann lit sem við þurfum. Listastofnanir okkar eru verðmæti sem við verðum að fara vel með og vanda okkur því þær eru margar hverjar sprottnar upp úr erfiðum kringumstæðum og brýnni þörf. Þær hafa mikla þýð- ingu fyrir þjóðina og hennar menn- ingarlega fingrafar,“ segir hún að lokum. Jafnvægi hefðar og nýjabrums  Nýtt starfsár Ís- lensku óperunnar liggur nú fyrir  Rússneskt óp- eruverk verður í forgrunni í ár Morgunblaðið/RAX Tækifæri Steinunn Birna óperustjóri kveður Eldborg bjóða upp á mikla möguleika vegna góðs hljómburðar. » Við munum setja álaggirnar krakka- óperuklúbb og ung- lingahreyfingu og vinnum þannig mark- visst að óperuuppeldi því það er augljóst að listformið á ekki mjög glæsta framtíð ef ekki verða til nýir áhorf- endahópar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.