Dagblaðið Vísir - DV - 31.07.2015, Side 19
Helgarblað 31. júlí–4. ágúst 2015 Umræða 19
Þ
að fylgir kúltúrnum á Íslandi
að fólk þarf að láta eins og
skepnur við og við til þess að
fá útrás.“ – Svo mælti læknir í
samtali við DV sumarið 2001
og átti þar við útihátíðirnar, „Jörfa-
gleðir samtímans“, sem einkenndust
af „fylleríi, keleríi, slagsmálum, rign-
ingu, ástarsorgum og lerkuðu fólki á
líkama og sál“. Hér verða rifjuð upp
minningarbrot frá útihátíðum fyrri
ára.
Húsafellsskógur
Útihátíðir eiga sér langa sögu hér-
lendis. Lengi var hvítasunnuhelgin
vinsælasta skemmtanahelgi ungs
fólks, en á sjöunda áratugnum færð-
ist í vöxt að efna til hátíða um versl-
unarmannahelgina. Ein frægasta
hátíð þess tíma var haldin mörg ár í
röð í Húsafellsskógi. Jakob Frímann
Magnússon, Stuðmaður með meiru,
sagði þær hátíðir hafa verið „eins
konar töðugjöld ungs fólks sem var í
sveit í Borgarfirði“. Honum var sjálf-
um minnisstætt þegar Hljómar léku
og sungu á þeirri hátíð og Rúnar Júl-
íusson lék listir sínar á – og ofan á –
sviðinu með ögrandi hætti, ber að
ofan.
Pétur heitinn Kristjánsson tón-
listarmaður spilaði í tvígang á Sum-
arhátíðinni í Húsafelli um verslun-
armannahelgina, árið 1969 með
Pops og tíu árum síðar með Nátt-
úru. Hann sagði þessar hátíðir hafa
verið hápunkt spilamennskunnar
á þeim árum. Honum voru einnig
mjög minnisstæðar hátíðir sem
skátahreyfingin hélt á Úlfljótsvatni
um verslunarmannahelgina og voru
kenndar við Rauðhettu: „Ég spil-
aði með Paradís árið 1976 og Póker
árið eftir á Rauðhettumótinu. Það
var mjög fínt á þeirri hátíð þar sem
skátarnir héldu öllu innan velsæm-
ismarka.“
„Almennilegt þjóðhátíðarfólk“
Langlífust allra hátíða um verslun-
armannahelgina er þjóðhátíð Vest-
mannaeyinga, sem haldin hefur
verið í Herjólfsdal frá árinu 1874.
Árni Johnsen, fyrrverandi þing-
maður Sunnlendinga, er fyrir löngu
orðinn „persónugervingur“ há-
tíðarinnar. Hann segir síðustu hátíð
alltaf vera þá bestu. Eitt sinn hefðu
ungmenni frá Patreksfirði hringt
til Eyja á sunnudeginum um versl-
unarmannahelgina og spurt hvort
brekkusöngurinn væri ekki örugg-
lega á dagskrá um kvöldið. Því var
svarað játandi. Krakkarnir brugðu
sér því með einkaflugvél til Eyja –
gagngert til að syngja í brekkunni.
Flugvélin beið á meðan úti á velli.
Árni segir að þetta megi kalla „al-
mennilegt þjóðhátíðarfólk“.
Hemmi Gunn með sólsting
Stór hluti þjóðarinnar á minningar
frá þjóðhátíð í Eyjum. Hermann
Gunnarsson heitinn lýsti eitt sinn í
viðtali þjóðhátíðinni 1964, en hann
var þá 16 ára. Þeir voru þá þrír fé-
lagar úr þriðja flokki Vals sem höfðu
það hlutverk að vera fararstjórar
annars flokks kvenna í handbolta,
en liðið átti að leika í Eyjum á laugar-
deginum. Hermann sagði að slaknað
hefði á „fararstjórninni þegar leið á
helgina og því var dansað og sungið
fram eftir öllu“.
Eftir að þeir félagar höfðu skilað
handboltastúlkunum í gagnfræða-
skólann aðfaranótt sunnudagsins
ákváðu þeir að halda aftur inn í dal.
Gleðin var í algleymi og sólin í þann
mund að koma upp, en veðurblíðan
var einstök þessa helgi. Gefum Her-
manni orðið: „Við ákváðum því að
leggja okkur aðeins uppi í hlíðunum,
berir að ofan. Fljótlega vaknaði fé-
lagi minn og fór að taka saman dótið
sitt meðan ég svaf. Það fór ekki bet-
ur en svo að hann gleymdi mér sof-
andi uppi í hlíðinni. Loksins vaknaði
ég klukkan fjögur um daginn í steikj-
andi sólskini en hafði sem betur fer
bylt mér í svefninum. Annars hefði
ég trúlega drepist úr sólsting. Ég ráf-
aði niður hlíðarnar og skellti í mig 10
eða 15 pepsíflöskum og fór svo nið-
ur í gagnfræðaskóla nær dauða en
lífi.“ Þegar þangað var komið hefðu
handboltastúlkurnar borið á sig
smyrsl og krem, enda var hann skað-
brunninn. Hvað sem leið brunanum
hefði hann skemmt sér konunglega á
ballinu um kvöldið. Þetta hefði verið
„frábær lífsreynsla“.
Rok og rigning í Viðey
Árið 1984 var hart barist um hylli
djammþyrstrar æsku fyrir verslunar-
mannahelgina, en efnt var til útihá-
tíða í Vestmannaeyjum, Atlavík – og
Viðey. Búist var við þúsundum gesta
á Viðeyjarhátíð en þær vonir urðu að
engu að morgni föstudagsins þegar
brast á með roki og rigningu.
Tónlistarmaðurinn Doktor Gunni
rifjaði upp þessa hátíð löngu síðar og
sagði hana hafa verið „algjört flopp og
ég held að það hafi fimm manns mætt
á staðinn, en við í hljómsveitinni
Svart/hvítur draumur létum það ekki
á okkur fá og spiluðum fyrir fólkið
sem mætt var“, segir Doktor Gunni.
Magnús Kjartansson, einn að-
standenda hátíðarinnar, segir að há-
tíðin hafi beinlínis „fokið út á Við-
eyjarsund“, en aðeins um 500 manns
mættu á svæðið. Hann sagði staðar-
valið líka umdeilanlegt: „Ég gæti
trúað því að krökkum þyki heppi-
legra að fara eitthvað út fyrir bæinn,
en vera endilega þar sem mamma og
pabbi gætu allt í einu dúkkað upp á
tjaldskörinni, boðið góðan daginn og
verið komin í heimsókn.“
Brunnið tjald í eftirdragi
Hvað sem leið óveðri og fámenni í
Viðey var heldur betur stuð í Atlavík
þessa verslunarmannahelgina. Gest-
ir voru alls um tíu þúsund talsins.
Stuðmenn sungu og léku, auk Bítils-
ins Ringos Starr. Bítillinn átt að vera
tromp sem gæti slegið Viðeyjarhá-
tíðinni við. Þetta atvikaðist þannig
að tveir Stuðmanna, þau Ragnhild-
ur Gísladóttir og Tómas Tómasson,
voru við upptökur í hljóðveri Ringos
á Englandi og buðu þeim hjónum að
koma á útihátíðina í Atlavík. Í kjöl-
farið hafði Jakob Frímann samband
við umboðsskrifstofu Ringos. Þar var
hann staddur fyrir tilviljun og erindið
borið undir hann. Hann var heldur
betur til í tuskið og kona hans, Bar-
bara Bach, sömuleiðis.
Á Íslandi gættu svonefndir Bítla-
gæslumenn þeirra hjóna. Þeir sáu
meðal annars um að gera vel við
þau í mat og drykk. Frægt var þegar
Ringo óskaði eftir koníaki og fundið
var til dýrasta koníak sem fyrirfannst
í Austurlandskjördæmi. Þessu bland-
aði Bítillinn síðan í kók. Þau hjónin
heilluðu gesti með alþýðlegu fasi og
íklæddur lopapeysu sté Ringo á svið
með Stuðmönnum. Hann rann svo
vel inn í hópinn að einn heimamanna
þóttist þar kenna gamla smíða-
kennarann sinn úr Eiðaskóla.
Doktor Gunni hafði lokið spila-
mennsku í rokinu í Viðey á mánudeg-
inum og brunaði austur í Atlavík til
að berja goðið augum. Grípum nið-
ur í frásögn hans: „Það var reynd-
ar allt búið þegar ég mætti um há-
degi á mánudegi þannig að þetta var
eins og að koma til Íraks. Ég man sér-
staklega eftir manni sem dró á eft-
ir sér brunnið tjald og sagði í sífellu:
„Komdu hvutti, komdu hvutti.“ Hann
hefur greinilega skemmt sér vel.“
Sjö gestir í Þjórsárdal
Héraðssambandið Skarphéðinn
efndi nokkrum sinnum til útihátíða
í Þjórsárdal um verslunarmanna-
helgina á níunda áratugnum. Þessi
hátíð nefndist Gaukurinn og tókst
framan af bærilega og var aðsókn
góð. Allt þar til hátíðin brotlenti.
Árið 1987 var von á nokkur þús-
und gestum á svæðið. Þeir urðu ekki
nema sjö. Þannig getur farið fyrir vin-
sælum útihátíðum, rétt eins og vin-
sælum skemmtistöðum, skyndilega
er allur ljómi og eftirvænting fokin út
í veður og vind. Hátíðin var vitaskuld
blásin af þegar á föstudagskvöldinu.
Fjárhagur Skarphéðins var í rúst eft-
ir mislukkaðan Gaukinn, en úr rætt-
ist fáeinum vikum síðar, þegar hér-
aðssambandið efndi til stórtónleika í
Kerinu í Grímsnesi.
Ólæti aðkomumanna
Sjö verslunarmannahelgar í röð var
haldin hátíðin Halló Akureyri, hin
fyrsta árið 1994. Flestir urðu gestirn-
ir um 15 þúsund árið 1999. Heima-
menn voru afar gagnrýnir á mikinn
drykkjuskap og ólæti aðkomumanna
og svo fór að bæjaryfirvöld gáfu ekki
frekari leyfi til svo umfangsmikils
skemmtanahalds innan bæjarmark-
anna. Aðstandendur hátíðarinnar
voru samt þeirrar skoðunar að heppi-
legra væri að halda stórar útihátíð-
ir innan þéttbýliskjarna þar sem gott
aðgengi væri að allri þjónustu. Slík-
ar hátíðir hafa og líka færst í aukana
á síðustu árum. Og ef að líkum læt-
um verður ekkert lát á fylleríi, keler-
íi, slagsmálum, rigningu og ástarsorg-
um nú um verslunarmannahelgina
líkt og verið hefur um áratugaskeið. n
Heimildir: Viðtöl DV og fréttir frá
ýmsum tímum.
Minningabrot frá útihátíðum fyrri ára
Björn Jón Bragason
bjornjon@dv.is
Fréttir úr fortíð
Fyllerí, kelerí, slagsmál
og rigning
Ringo Starr og Barbara Bach í Atlavík
Þau hjónin heilluðu gesti með alþýðlegu fasi.
Verslunarmannahelgi í Eyjum Lögreglan
þurfti stundum að hafa afskipti af gestum.
Gleraugnaverslunin Eyesland
5. hæð Glæsibæ www.eyesland.is S: 577-1015
Létt og þægileg í veiðina
Veiðigleraugu með og án styrktarglugga
Kíktu við og mátaðu!